Hjörleifur Guttormsson 25. mars 2002

Austfirðingar á krossgötum

Valið stendur á milli þess að halda stóriðjuleiknum áfram eða hefja sókn í atvinnumálum á sjálfbærum grunni. Á næstu dögum ræðst hvort Alþingi veitir heimild fyrir Kárahnjúkavirkjun en með því væri opnað fyrir að orka frá virkjuninni verði flutt til annarra landshluta og Austfirðingar sitji uppi með öll náttúruspjöllin.

NORAL-ævintýrinu er lokið. Risaálverksmiðjan sem Framsóknarflokkurinn studdur af ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefur í nær 5 ár haldið að Austfirðingum reyndist tálsýn. Yfirlýsingin sem iðnaðarráðherra kreisti út úr Norsk Hydro miðar hinsvegar að því að halda blekkingaleiknum áfram og tryggja Landsvirkjun leyfi fyrir Kárahnjúkavirkjun. Verði sú virkjun einhvern tíma byggð mun hún ekki framleiða raforku fyrir stóriðju á Austurlandi heldur annars staðar. Því verður tæpast trúað að Alþingi fari við þessar aðstæður að samþykkja heimild fyrir virkjuninni og koma þannig í veg fyrir að Austfirðingar og aðrir geti hagnýtt sér víðernin norðan Vatnajökuls með stofnun þjóðgarðs. Slíkt væri siðlaust með öllu. Kárahnjúkavirkjun á engan teljandi stuðning á Austurlandi þegar álverksmiðjan er fyrir bí.

Ábyrgð forystumanna

Ráðherrar Framsóknarflokksins bera auðvitað mesta ábyrgð á því hvernig komið er. Þeir hafa nú ár eftir ár oftúlkað NORAL-samninginn við Norsk Hydro sem aldrei snerist um annað af hálfu þess síðarnefnda en athugun án nokkurra skuldbindinga um framkvæmdir að henni lokinni. Meirihluti sveitarstjórnarmanna eystra hefur látið teyma sig á asnaeyrunum, kynt undir væntingar og hagað sér eins og allt væri í hendi. Verst er ef þeir hinir sömu sjá nú ekki að sér heldur ætla að halda leiknum áfram eins og ekkert hafi í skorist. Fjárfestar eru ekki á leiðinni í stað Norsk Hydro. Reyðarfjörður hentar ekki fyrir risaálver, hvað þá að viðbættri rafskautaverksmiðju. Ekkert er brýnna fyrir Austurland en að nú verði fylkt liði um raunsæja kosti til að treysta byggð og efla mannlíf á sjálfbærum forsendum. Togkraftarnir burt liggja ekki aðeins til höfuðborgarsvæðisins heldur einnig til Akureyrar, studdir af fráleitri kjördæmabreytingu.

Samfylkingin hefur afhjúpað sig

Í málum sem þessum skilur milli feigs og ófeigs. Samfylkingin hefur afhjúpað sig rækilega sem flokkur sem stingur umhverfisvernd undir stól fyrir stóriðjubrölt og ímyndaða atkvæðahagsmuni. Í þessu máli hefur Samfylkingin á síðustu mánuðum farið í kapphlaup við Framsóknarflokkinn líkt og í Evrópuumræðunni og gerst síst ákafaminni en sjálf ríkisstjórnin. Tilburðir forystu Samfylkingarinnar til að hlaupa undir bagga með Landsvirkjun og búa til virkjanaþjóðgarð norðan Vatnajökuls verða lengi í minnum hafðir. Heiður sé þeim fáu í þeim ranni sem ekki hafa tekið þátt í leiknum.

Sjálfbær auðlindastefna knýjandi

NORAL-endileysan undirstrikar hversu brýnt það er fyrir Íslendinga að reyna að fóta sig í sjálfbærri auðlindastefnu til lands og sjávar. Með því er átt við stefnu sem takið mið af umhverfis- og auðlindavernd til langs tíma litið og hún fái stuðning af hagrænum stjórntækjum. Síaukin tæknivæðing og sókn í fiskveiðum án tillits til áhrifa á lífríkið er jafn fráleit og stóriðjustefna sem spillir landi og umhverfi. Kárahnjúkavirkjun með samveitu jökulfljóta er eitthvert mesta hervirki sem hugsast getur hérlendis. Þetta heimtar Landsvirkjun að fá fyrir ekki neitt líkt og Reyðarál sem ætlaði sér ókeypis losunarheimildir. Er ekki mál til komið að linni?

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim