Hjörleifur Guttormsson 27. júní 2002

Aðild að Evrópusambandinu skerðir fullveldi og lýðræði

Formenn Framsóknar og Samfylkingar gera nú hvað þeir geta til að gylla aðild Íslands að Evrópusambandinu fyrir þjóðinni. Þar er hins vegar á brattan að sækja, því að Íslendingar eru ekki ginkeyptir fyrir að láta það í hendur erlends valds sem ávannst með harðfylgi á öldinni sem leið.

Svonefnd Evrópuumræða hérlendis er í heldur bágbornu ásigkomulagi. Formenn ríkisstjórnarflokkanna kasta á milli sín hnútum í ræðum á tyllidögum eins og gerðist nú 17. júní, en forðast eins og heitan eldinn að setjast saman fyrir framan alþjóð og ræða djúpstæðan ágreining í afstöðu til Evrópusambandsins. Báðir fullyrða Davíð og Halldór að þetta grundvallarmál komi ríkisstjórn flokka þeirra ekki við. Þó er ljóst að utanríkisráðherra notar stöðu sína í ríkisstjórn, ráðuneyti sitt og utanríkisþjónustu til að plægja akurinn fyrir umsókn um aðild að Evrópusambandinu, í von um að færi gefist innan tíðar. Í ákafa sínum bíður hann þess ekki einu sinni að málið sé gert upp á vettvangi eigin flokks.

Forysta Samfylkingarinnar valdi þann kost að láta flokksmenn skera úr um stefnuna í þessu afdrifaríka máli og formaðurinn lagði um leið sjálfan sig að veði. Það eru engin tíðindi að þorrinn af forystusveit Samfylkingarinnar vill koma Íslandi inn í Evrópusambandið rétt eins og Alþýðuflokkurinn sálugi. Með ESB-aðild myndi þessi flokkur sem ekki veit í hvorn fót hann eigi að stíga í neinu því sem máli skiptir geta vísað ágreiningi og ábyrgð til valdastofnana ESB í Brussel.

Útþynning á fullveldishugtakinu

Í viðleitni sinni við að gylla fyrir almenningi inngöngu í Evrópusambandið reyna formenn Samfylkingar og Framsóknarflokks að brjóta niður viðtekinn skilning og skilgreiningu á því hvað felist í fullveldi þjóða. Þetta kom berlega fram í máli Halldórs Ásgrímssonar á Rafnseyri 17. júní sl. Örlög okkar tengist með órofa hætti öðrum Norðurlandaþjóðum og Evrópuþjóðum. "Við deilum með þeim ákvörðunum, þeirra fullveldi og sjálfstæði hefur áhrif á okkar fullveldi og sjálfstæði", sagði utanríkisráðherrann og talaði síðan um samvinnu við þessar þjóðir sem grundvöll að þátttöku okkar í alþjóðavæðingu. Hér er öllu hrært í graut og varast að koma að kjarna máls, sem felst í því að með aðild að Evrópusambandinu fórna Íslendingar því sjálfstæði til ákvarðana í eigin málum sem þjóðin ávann sér 1918 og með lýðveldisstofnun 1944, bæði á sviði löggjafar-, dóms- og framkvæmdavalds. Össur og Halldór eru samstiga í því að nota EES-samninginn sem helstu viðmiðun í umræðu um nútíð og framtíð innan eða utan Evrópusambandsins. Össur studdi þann samning opinberlega fyrir áratug vegna þess hann væri skref að ESB-aðild, Halldór var þá í minnihluta í Framsókn og sat hjá við lokaafgreiðslu á Alþingi. Íslendingar eiga þess kost að búa við EES-samninginn áfram eða fá honum breytt í tvíhliða samning. Engir farvegir eru hins vegar mótaðir til að losna úr Evrópusambandinu ef þjóðríki einu sinni lenda innan múra þess.

ESB er ólýðræðislegt bákn

Ýmsir þeir sem tala opinberlega fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu virðast ekki hafa haft fyrir því að kynna sér stafrófið í stofnanauppbyggingu þess og ákvarðanatöku, eða þegja vísvitandi um þá hlið mála. Ákvarðanataka ESB í málum stórum og smáum byggir ekki á þingræði heldur samblandi af embættismannavaldi og hrossakaupum í ráðherraráði ESB. Aðeins framkvæmdastjórnin í Brussel hefur rétt til að gera tillögur um lög og tilskipanir á grunni Rómarsáttmálans og svonefnt Evrópuþing má aðeins andæfa með breytingartillögum sem meirihluta þarf fyrir. Styrking þeirrar samkundu, sem sumir láta sig dreyma um, þýðir sjálfkrafa veikingu á valdi þjóðþinga aðildarríkja. Rök fyrir aðild Íslands að ESB verða seint sótt með skírskotun til lýðræðishugsjóna. Þeir sem reyna að hugga sig með tali um svonefnt grenndarlýðræði (subsidiarity) gerðu rétt í að kynna sér hvað á bak við það loðna hugtak býr áður en því er teflt fram af alvöru í umræðunni, að ekki sé talað um þá sem telja þýska heimspekinginn Habermas hafa lykla að lausn á andlýðræðislegum leikreglum þessa miðstýrða skrifræðisbákns.

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim