Hjörleifur Guttormsson | 27. ágúst 2002 |
Tvísýn staða þrátt fyrir mikið starf í þrjá áratugi Í þessum pistli II frá Jóhannesarborg er greint frá upphafi heimsþingsins, starfi Sameinuðu þjóðanna að umhverfismálum í aldarþriðjung og horfunum framundan. Þörf heildstæðrar stefnu Við setningu heimsþingsins um umhverfismál í Jóhannesarborg í gær töluðu Thabo Mbeki forseti Suður Afríku, Nitin Desai indverskur framkvæmdastjóri ráðstefnunnar og Þjóðverjinn Klaus Töpfer framkvæmdastjóri Umhverfisstofnunar SÞ (UNEP). Allir lögðu þeir áherslu á nauðsyn þess að brúa yrði bilið milli ríkra og snauðra og samþætta þurfi umhverfismál, efnahagsstefnu og félagsmál í hverju landi og á heimsvísu til að tryggja sjálfbæra þróun. Mbeki talaði um að mannkynið yrði að vaxa frá blindri markaðshyggju og þróun samfélagsins að taka mið af mannlegum þörfum. Það væri skýrara nú en fyrir áratug og sjálfbær þróun væri innihaldslaust hugtak nema slík heildstæð stefna yrði drifkrafturinn. Baráttan gegn fátækt og vaxandi misskiptingu lífsgæða væri mál mála fyrir meirihluta mannkyns og verði að haldast í hendur við umhverfis- og náttúruvernd. Hvað varð um fyrirheitin? Desai varpaði fram spurningunni hversvegna alþjóðasamfélagið hefði ekki staðið við yfirlýsingar sem gefnar voru í Ríó fyrir áratug eins og þær birtust meðal annars í Dagskrá 21. Aðalskýringuna taldi hann vera að finna í breytingum sem síðan hefðu komið til, einkum með hnattvæðingu fjármagns og flutningum heimshorna á milli í krafti upplýsingatækni. Staða ríkisstjórna til að ráða ferð, móta efnahagsstefnu og standa við alþjóðlegar skuldbindingar hefði veikst af þessum sökum. Þótt sitthvað hafi vel til tekist og lofaði góðu eins og vinna að Staðardagskrá 21 væri langt frá því að fyrirheitin frá Ríó hafi ræst. Leiðsögnin þaðan væri enn í fullu gildi en það sem spurt væri um á þessu þingi væru athafnir, framkvæmd á yfirlýsingum og að staðið sé við gefin loforð. Í þeim efnum er af nógu að taka og einn mælikvarðinn eru framlög ríkra þjóða til þróunaraðstoðar. Í stað þess að margfaldast eins og stefnt var að samkvæmt Ríó-yfirlýsingunni hafa þau á heildina litið dregist saman. Engar vísbendingar var að fá á þessum upphafsfundi ráðstefnunnar hvaða líkur eru á að hér verði stoppað í götin þannig að glæðst geti vonir miljarða jarðarbúa um mannsæmandi líf. Samfella frá Stokkhólmsráðstefnunni Allt frá því fyrsta umhverfisráðstefna Sameinuðu þjóðanna var haldin í Stokkhólmi fyrir aldarþriðjungi hafa umhverfissinnar og aðrir sem velta fyrir sér morgundeginum bundið vonir við starf og leiðsögn á þeirra vegum. Undir merkjum Sameinuðu þjóðanna hafa hnattræn vandamál komist í sviðsljósið og verið rannsökuð stig af stigi. Samkvæmt ákvörðunum Stokkhólmsráðstefnunnar 1972 var sett á fót Umhverfisstofnun SÞ (UNEP) og komið á skipulegum mælingum á hnattrænum umhverfisþáttum og mengun. Fyrstu vísbendingarnar um loftslagsbreytingar af mannavöldum voru einmitt um það leyti að koma fram og leiddu til rammasamningsins í Ríó 1992 og Kyótó-bókunarinnar 1997. Það sem áður töldust getgátur einar blasir nú við sem nær óyggjandi vissa. Eyðing vistkerfa og búsvæða stig af stigi er að þrengja að lífríki jarðar og um leið möguleikum mannkyns til að komast af. Eyðimerkur fara stækkandi og grunnþættir eins og vatn eru orðnir munaðarvara víða um heim. Fyrirliggjandi vitneskja og ráðleggingar vísindamanna og hugsuða hafa þó dugað skammt til að leiðrétta kúrsinn. Afrifaríkast er að efnahagsstarfsemi og heimsviðskipti taka lítið sem ekkert tillit til umhverfissjónarmiða og leitin að sjálfbærum lausnum hefur ekki forgang. Auðhringar og fjölþjóðafyrirtæki ráða ferðinni sem aldrei fyrr og viðleitni þeirra beinist að því að losna við sem flestar forskriftir ríkisstjórna og alþjóðasamfélagsins. Aðvaranir Maurice Strong Afstaða Bandaríkjanna til hnattrænna vandamála
nú um stundir ber með sér að skammsýni
og græðgi ráða mestu um ákvarðanir þar
sem síst skyldi. Í stað þess að veita forystu
í umhverfismálum á alþjóðvettvangi
birtast Bandaríkin æ meir sem dragbítur á
viðleitni Sameinuðu þjóðanna til að stilla
saman um lausnir. Ákvörðun Bush forseta um að staðfesta
ekki Kyótóbókunina er skýrt dæmi um
þetta og fjarvera hans á þessu heimsþingi talar
sínu máli. Það er því ekki að
undra að andi köldu í garð Bandaríkjanna
hér í Jóhannesarborg. Hjörleifur Guttormsson |