Hjörleifur Guttormsson 29. apríl 2002

Náttúruvernd og framtíð mannkyns

Ávarp við móttöku viðurkenningar á Degi umhverfisins 26. apríl 2002

Forseti Íslands, kæru samherjar nær og fjær.

Ég vil af einlægni þakka þá viðurkenningu sem mér er veitt á þessum degi umhverfisins, þakka nefndinni sem stóð að tilnefningu og öllum samtökunum sem að baki þessa atburðar standa. Ég er að vísu vanari því að hlýða fremur á skammir en skjall og því var mér ögn brugðið þegar að mér bárust böndin. Hvað hef ég nú gert af mér? Og hvað á sveinstauli frá Hallormsstað, löngu orðinn grár, að segja við ykkur af þessu tilefni? Ég er sannfærður um að mikilvægast af öllu fyrir umhverfisvernd í íslensku samhengi er að börnum á ungum aldri sé gert kleift að skynja og skilja samhengið í sínu umhverfi, skynja náttúruna utan múra borga og þéttbýlis. Sjálfur tel ég mig lukkunnar pamfíl að hafa alist upp í skógi á bökkum Lagarfljóts við gott atlæti og allstrangan húsaga. Ekki þurfti á þeim bæ langt að leita til að skilja lýsingu Ara fróða á aðstæðum á Íslandi í árdaga byggðar - með skógvið milli fjalls og fjöru. Hvílík kennslubók er það ekki að hafa fyrir augum altækan mun friðaðs lands og bithaga innan og utan girðingar, skynja þá veröld sem ríkir í fjalli ofan skógarmarka, síðan að komast ungur inn á auðnir öræfanna. Með slíkt vegarnesti er gott að leggja af stað út í heiminn.

Þurfum skýrar alþjóðlegar leikreglur

Sá heimur sem fólk stendur frammi fyrir nú er gjörólíkur því sem var fyrir mannsaldri. Margir vilja trúa því að framtíðin hljóti að bera okkur inn í betri heim, helst fagra veröld, gjörólíka því sem var. Bjartsýni er góð í bland við raunsæi. Eigi að takast að láta slíkar draumsýnir rætast þarf mannkynið hins vegar sameiginlega að lyfta grettistaki og samfélög okkar og samskipti við umhverfið að taka stakkaskiptum. Meðal lausnarorða má nefna jafnræði í aðgengi að því sem er sameiginlegt, eins og andrúmsloftið, og skýrar alþjóðlegar leikreglur í umhverfismálum engu síður en á sviði efnahagsmála. Það gengur ekki að ein þjóð geti leyft sér til lengdar að menga sameiginlegan lofthjúp í margföldum mæli borið saman við aðra að tiltölu við íbúafjölda. Í mínum huga er þetta spurning um mannréttindi á alþjóðavísu engu síður en frelsi til tjáningar og félagafrelsis. Vandi loftslagsbreytinga af mannavöldum spyr ekki að landamærum, og það var sárt að sjá að kaupa þurfti íslensk stjórnvöld með sérstökum mengunarkvóta til að taka þátt í fyrsta skrefinu til að koma böndum á losun gróðurhúsalofttegunda. Sá leikur verður hins vegar tæpast endurtekinn og best að horfast í augu við það nú þegar. Á sama hátt ber þjóð okkar skylda til að taka myndarlegar á en hingað til við að brúa bilið milli ríkra og snauðra. Í þróunaraðstoð stöndum við nú í sömu sporum og þegar skrifað var upp á Ríó-yfirlýsinguna fyrir 10 árum.

Sár fátækt og ólæsi mesta ógnin

Mismunun og arðrán milli þjóða og heimshluta er nú sem fyrr uppspretta haturs, ófriðar og kynþáttafordóma. Sár fátækt, ólæsi og vanþekking sem þessu fylgir er mesta ógnin sem að steðjar, bæði fyrir heimsfrið og umhverfi okkar. Vanþekking vegna ólæsis er helsta ástæðan fyrir hömlulítilli fólksfjölgun sem bætir álíka mörgum dag hvern við íbúatölu jarðar og nú byggja Ísland. Umhverfisverndarsamtök og önnur frjáls félagasamtök eru ómissandi til að skerpa skilning á þessum sameiginlega vanda og auðvelda stjórnvöldum að fást við hann og leggja fram sinn skerf.

Stefnumörkun og pólitískan vilja vantar

En er ekki allt í blóma hérlendis? Eru Íslendingar ekki metfé litið til umhverfismála, staddir á þröskuldi vetnisvæðingar og með gnótt endurnýjanlegrar orku til að svala álþyrstum heimi? Förum við ekki vel með lífrænar auðlindir lands og sjávar? Svo mætti halda á tyllidögum. Enginn taki orð mín svo að ég telji að allt sé hér á fallanda fæti og ekkert hafi áunnist. Margt hefur verið vel gert í umhverfismálum og mikil hugarfarsbreyting orðið hjá almenningi. En það sem skortir er stefnumörkun byggð á þekkingu og víðtæku sammæli og pólitískur vilji til að standa við fögur fyrirheit. Það er ástæða til að hafa áhyggjur af sínærgöngulli og stórtækari tækni, að ekki sé talað um tröllaukin stóriðjuáform í hróplegri andstöðu við þá ímynd sem margir ef ekki flestir Íslendingar vilja tengja landi sínu.

Meðferð lífrænna auðlinda ábótavant

Það er ekki stjórnvisku að þakka að hætt var við að ræsa fram síðustu mýrarnar og enn er nýting bithaga í engu samræmi við ástand gróðurs og jarðvegs. Áður var saufjárbeitinni um kennt en spyrja má hver nauðsyn sé á að halda í landinu tugþúsundir hrossa engum til gagns. Í kappsömum ræktunaráhuga göngum við heldur ekki alltaf fram af forsjá eða sýnum þá varúð sem skylt er, áður lagt er inn á nýjar brautir í landnýtingu.

Sem víðfræg fiskveiðiþjóð mættum við líka sýna lífríki hafsins meiri virðingu en staðhæfingar um stórfellt brottkast sjávarafla bera vott um. Umgengni við sjávarauðlindir snertir sjálfa undirstöðu velmegunar í landi okkar og þar má ekkert bresta eigi ekki illa að fara. Hvað vitum við um áhrif þess að búið er að gjörbreyta landslagi á Íslandsmiðum með skarki stórtækra veiðarfæra í heila öld? Afleiðingarnar eru lítt þekktar og svo mikið er víst að lítið er eftir af kóralskógum hafsbotnsins til að skýla ungviði sem þar átti sín heimkynni.

Stóriðjustefna og valdníðsla

Þarf að nefna stóriðjuna á þessum degi og þau áform sem þar eru uppi, og engan veginn eru takmörkuð við einn landshluta? Orkulindir landsins, fólgnar í jarðhita og vatnsafli, hafa þegar lagt mikið til þeirra lífskjara sem við njótum. Það er hins vegar dapurlegt að um fátt skuli vera meiri ófriður í landi okkar en framtíðarnýtingu og verndun þessara gæða. Það er afar brýnt að um þetta efni nái menn saman um leikreglur og virði þær, áður en í meira óefni er komið. Ekkert hefur að undanförnu reynt jafn mikið á þá sem unna íslenskri náttúru eins og hömluleysi og valdníðsla á þessu sviði.

Að mínu mati er staða umhverfismála að náttúruvernd meðtalinni enn afar veik í stjórnkerfi okkar. Umhverfisráðuneyti komst hér ekki á fót fyrr en 15-20 árum síðar en í grannlöndunum okkar. Síðan hefur þetta ráðuneyti ásamt undirstofnunum búið við fjársvelti og manneklu. Margir hefðu kosið að sjá meiri sókndirfsku og samkvæmni í gjörðum opinberra aðila í umhverfismálum. Á engu sviði er brýnna að ryðja brautina fyrir nýja hugsun og gára svo um munar stöðupoll hefbundinna stjórnmála. Þess er tæpast að vænta og ekki sanngjarnt að ætlast til að ljósmóðir sjálfbærrar þróunar komi úr iðnaðarráðuneytinu eða frá Landsvirkjun, þótt gjöful sé og líknsöm. Líklega endurspeglar núverandi staða mála þá naumu fótfestu sem umhverfismál hafa hingað til náð í stjórnmálalífi hérlendis og að sama skapi eru skammtímasjónarmið fyrirferðarmeiri en skyldi. Sú staða hlýtur að vekja til umhugsunar á Degi umhverfisins.

Frjáls félagasamtök og lýðræðið

Í merkri ræðu á vettvangi Norðurlandaráðs nýlega vék forseti Íslands að gildi frjálsra félagasamtaka, ekki síst umhverfis- og mannréttindasamtaka, til að styrkja lýðræðið sem á undir högg að sækja víða á Vesturlöndum. Forsetinn hvatti til þess að aðgangur slíkra grasrótarhreyfinga að helstu valdastofnunum samfélagsins verði bættur og nýttur sem hreyfiafl. Þessum orðum ber að fagna. Einmitt að þessu markmiði beinist Árósasamningurinn frá árinu 1998, sem umhverfisráðherra Íslands þáverandi setti nafn sitt undir, en samningur þessi hefur síðan lent í mótbyr í stjórnkerfinu og liggur nú í skúffu.

Háttvirta samkoma, góðir samherjar. Við sem um 1970 lögðum full bjartsýni upp í ferð með ný og fersk umhverfis- og náttúruverndarsamtök höfum vissulega haft erindi, þótt ekki hafi nema brot af stefnumiðum komist í höfn. Við megum hvorki ofmetnast né láta hugfallast, því að nú er nauðsyn á einbeittri sókn. Náttúruverndarsamtökin eru fjölradda kór og hljómbotninn meðal almennings er að styrkjast. Enn rennur Lagarfljót fram að mestu ótruflað og Fljótsdalshérað ángar ljúft sem forðum. Þjórsárver undir Hofsjökuli þar sem Íslendingar fyrri tíðar riðu vötnin við Sóleyjarhöfða halda enn skikku sinni og lífi. Okkar er að tryggja að svo verði um ókomin ár. Þessar táknmyndir skipta miklu eins og aðrar gersemar í náttúru Íslands. En umhverfismálin snúast ekki aðeins um verndun helgimynda heldur æ meir um sjálfa tilvist mannkyns og framtíð á þessari jörð. Með allt þetta í huga höldum við ótrauð áfram baráttunni, hvert og eitt og sameiginlega og treystum á öfluga samfylgd.

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim