Hjörleifur Guttormsson 29. maí 2002

Schengen og sígaunarnir í Laugardal

Hvernig má það vera að tugir manna skjóti upp kollinum á tjaldstæði í Laugardal, segist engin skírteini hafa og biðji um pólitískt hæli án þess nokkur viti af komu þess inn í landið? Svarið felst í Schengen-reglum sem banna að spurt sé um vegabréf fólks á landamærum í ferðum milli landa á Schengen-svæðinu. Þar má ekki einu sinni taka stikkprufur. Við öll möguleg önnur tækifæri er fólk hins vegar krafið um vegabréf og lögregla má elta menn uppi eftir að inn í landið er komið. Þetta er kölluð frjáls för og frelsi frá vegabréfaskyldu. Á sama tíma eru girðingar hækkaðar og eftirlit hert á ytri landamærum svæðisins, sem þó eru hriplek eins og stríður straumur ólöglegra innflytjenda inn á Schengen-svæðið ber vott um.

Afnám vegabréfaskyldu orðin tóm

Íslendingar eru nú farnir að kynnast í reynd þeirri blessun sem fylgir Schengen-kerfinu sem kom til framkvæmda fyrir rösku ári. Með því tóku Íslendingar að sér að gæta ytri landamæra Evrópusambandsins með viðeigandi töfum og tilkostnaði, sem meðal annars varðar ferðalanga til og frá Vesturheimi. Kostirnir sem fylgja áttu aðild að Schengen-samningnum eru afnám landamæraeftirlits innan svæðisins. Það tekur þó hvorki til Englands eða Írlands, þar eð þessi ríki kusu að standa utan samstarfsins. Ríkisstjórnin með utanríkis- og dómsmálaráðherra í fararbroddi beitti sér fyrir aðild Íslands að Schengen. Fullyrt var að héðan í frá þyrftu Íslendingar ekki að hafa áhyggjur af vegabréfaskoðun í ferðum til meginlands Evrópu. Sannleikurinn er sá að fyrir Íslendinga sem eyþjóð var engin ástæða til að gerast aðili að Schengen-kerfinu. Samlíking við norræna vegabréfasamstarfið er út í hött, þótt því væri beitt sem agni í umræðum í aðdraganda aðildar Íslands að samningnum. Líklega hafa þeir sem ferðast loftleiðis aldrei eins oft þurft að draga fram vegabréf í ferðum til og frá landinu og síðasta árið.

Fullveldisafsal og mismunun

Með Schengen-samningnum afsöluðu Íslendingar sér sjálfstæðu mati á samskiptum við önnur ríki á ýmsum sviðum. Útlendingum sem hingað leita er nú skipt í tvo hópa eftir því hvort þeir eru búsettir á Schengen-svæðinu eða utan þess. Um samningsákvæðin og breytingar á þeim höfum við engan atkvæðisrétt og verðum að taka því sem býðst eða segja okkur frá samstarfinu ella. Á túlkun samnings Íslands og Noregs við Schengen hefur þegar reynt. Um það sagði utanríkisráðherra í skýrslu til Alþingis um utanríkismál á síðasta vetri: "Má fullyrða að alvarlegasti ágreiningurinn þess eðlis hafi orðið í kjölfar viðbragða ESB við hryðjuverkunum í Bandaríkjunum 11. september 2001. Þar greindi samningsaðila á um hvort umfangsmiklar aðgerðir ESB í kjölfar atburðanna teldust varða Schengen-samstarfið eður ei. Gegn andmælum Íslands og Noregs fékk ESB sínu framgengt og fjallaði ekki um þessar aðgerðir á vettvangi Schengen-samstarfsins. Er nú að koma á daginn að ýmsar af þessum aðgerðum kalla á breytingar á Schengen-samningnum sem nú eru til umfjöllunar."

Fjársóun og persónunjósnir

Schengen-bröltið er eitt kostnaðarsamasta ævintýri sem ráðist hefur verið í að þarflausu hérlendis. Umfangsmiklar breytingar og stækkun á flugstöðinni í Keflavík eru aðeins eitt þáttur málsins, að vísu óyndislegur og hefur spillt útliti og fyrirkomulagi í flugstöðinni verulega. Til lengri tíma litið verður rekstrarkostnaður af margvíslegu tagi afar íþyngjandi og er þegar farinn að segja til sín. Þannig voru 74 millj. kr. færðar á dómsmálaráðuneytið vegna Schengen á fjárlögum 2002 og er það aðeins hluti af heildarútgjöldum. Fyrir ferðaþjónustu hérlendis hefur Schengen ýmsa ókosti í för með sér eins og Ferðamálaráð benti á í umsögn til Alþingis.

Umfangsmikill þáttur Schengen er flókið miðstýrt upplýsingakerfi með skráningu um einstaklinga, m. a. til "...að tryggja almannaöryggi og allsherjarreglu, þar með talið öryggi ríkisins." Mikið er nú rætt um að ytri landamæri Schengen séu harla götótt og straumur ólöglegra innflytjenda inn á svæðið er býsna stríður. Hvort sígaunarnir í Laugardal eru þannig til komnir skal ósagt látið, en þetta ágæta fólk hefur notað sér ferðafrelsið innan svæðisins til óvæntrar heimsóknar hingað til lands. Við það er ekki að sakast í máli sem þessu. Slíkum uppákomum mun fjölga á næstunni í krafti Schengen og jafnframt spurningunum um í hvers þágu Ísland hafi gerst aðili að þessum fáránlega og dýrkeypta samningi.

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim