Hjörleifur Guttormsson 29. júlí 2002

Tvær greinar:


Alcoa og óverjandi náttúruspjöll

Undirritaður dvaldi í sumarleyfi á Hallormsstað um miðjan júli með fjölskyldu og naut þar gestrisni að vanda. Skógræktin efndi til gönguferðar undir Hallormsstaðabjarg og hátt í hundrað manns gekk um Hóla og Bjargselsbotna. Þetta voru sólarlitlir dagar en lognværir og það stafaði í Lagarfljót flesta morgna. Slíkum dögum fer nú fækkandi ef fram fer sem horfir. Yfirvöld landsins hafa ákveðið að veita skuli Jökulsá á Dal, korgugasta vatnsfalli landsins austur í Lagarfljót. Sérfræðingum sem kvaddir voru til að skoða þennan álkokteil í fyrra bar saman um að litur Fljótsins yrði ekki samur og fyrr, vatnið myndi dökkna og gagnsæi þess og líf minnka til muna. Samveita stórfljóta eins og þarna er ráðgerð á sér engan líka hérlendis eða í Vestur-Evrópu og fjöldi Austfirðinga og annarra landsmanna hefur mótmælt þessum ráðagerðum.

Alcoa hleypur í skarðið

Norsk Hydro hafði verið að skoða þetta mál í fjögur ár með stjórnvöldum en leist ekki á blikuna og dró við sig að bíta á öngulinn, þótt freistandi orkuverð væri í boði. Talsmenn íslenskra lífeyrissjóða, sem ætlað var að leggja í púkkið með illu eða góðu, voru heldur ekki fljótir til að leggja sig undir í þessu máli. Þá brá ríkisstjórnin á það ráð að hóa í stærsta álframleiðanda heims, Alcoa, sem samkvæmt fréttum lætur sér ekki allt fyrir brjósti brenna þegar umhverfismál eru annars vegar, og bauð auðfélaginu Kárahnjúkavirkjun til afnota fyrir ennþá lægra verð en Norsk Hydro átti kost á. Báðum fyrirtækjunum stendur til boða endurgjaldslaust að losa gróðurhúsalofttegundir frá álverinu, að ekki sé talað um aðra mengun. Af ummælum John Pizzeys aðstoðarforstjóra Alcoa í fjölmiðlum hérlendis mætti halda að honum hafi af stjórnvöldum og Landsvirkjun verið skýrt rangt frá umhverfisáhrifum þessa stóriðjuverkefnis og þeirri víðtæku og málefnalegu andstöðu sem hér hefur verið gegn Kárahnjúkavirkjun.

Óverjandi röskun

Landsvirkjun hefur eins og flest önnur stórfyrirtæki reynt að bæta ímynd sína að því er umhverfisáhrif framkvæmda varðar. Í þessu skyni hefur fyrirtækið á undanförnum árum veitt verulegu fjármagni til að freista þess að kaupa sér velvild almennings, stofnana og félagasamtaka, oft á mörkum þess sem siðlegt getur talist. Á þessu sviði eins og mörgum öðrum er varða fjármálaumsvif vantar bindandi reglur og aðhald. Nú bregður hins vegar svo við að Landsvirkjun hefur í einu vetfangi kastað frá sér þeirri ímynd sem forysta fyrirtækisins hefur reynt að byggja upp. Ákvörðunin um að ráðast í framkvæmdir á Snæfellsöræfum nú síðsumars án þess að nokkrir samningar liggi fyrir við Alcoa um raforkukaup og byggingu álverksmiðju, eru óverjandi hvernig sem á málið er litið. Með því er ekki aðeins stofnað til mikillar röskunar á viðkvæmu víðerni og náttúruminjum heldur jafnframt verið að veikja til muna samningsstöðu sem var þó afleit fyrir. Skýringarnar sem fram eru reiddar til réttlætingar þessu háttalagi eru þær, að verið sé að " ...halda í þann möguleika að raforka verði tiltæk fyrir álverið snemma árs 2007 eða fyrr", eins og stendur í nýgerðri viljayfirlýsingu aðila. Þeir sem þetta setja á blað bera ekki mikla virðingu fyrir dómgreind almennings.

Leyndin um samningaforsendur

En það er fleira einstakt við viljayfirlýsinguna frá 19. júlí. Drjúgur hluti þessa plaggs fjallar um að halda leynd yfir þeirri vinnu sem framundan milli málsaðila. Til þess dugir ekki minna en heil blaðsíða og átta stafliðir undir fyrirsögninni "trúnaður". Mér er til efs að nokkuð þessu líkt hafi sést hér við samningagerð áður og liggur greinilega mikið við. Upphafið hljóðar svo:

"Til að takast á hendur að vinna að þeim málefnum sem um ræðir í yfirlýsingu þessari hafa aðilar óskað eftir og munu óska eftir hver af öðrum, og hafa veitt og munu veita hver öðrum, tilteknar óopinberar trúnaðar- og/eða einkaupplýsingar ("upplýsingarnar") sem þeir skiptast á í góðri trú að því marki sem efnið er tiltækt eða aðgengilegt þeim aðila sem um ræðir án skuldbindinga um trúnað gagnvart þriðju aðilum ..." .
Forsendurnar sem síðan eru raktar eiga að tryggja að sem flestu í samningaviðræðunum verði haldið undir lás og slá með gagnkvæmu neitunarvaldi um upplýsingagjöf.

Alvaran á bak við

Fullkomin óvissa ríkir eftir sem áður um lyktir þeirra viðræðna sem nú eru hafnar við Alcoa. Því miður hafa íslensk stjórnvöld sett sig þar í stöðu sem minnir á mús undir fjalaketti. Alvarlegust af öllu er þó sú náttúrufarsröskun í byggðum og óbyggðum Austurlands sem leiða myndi af framkvæmdum stóriðjuverkefnisins. Mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar leiddi í ljós að virkjunin myndi valda gífurlegum óafturkræfum umhverfisspjöllum á hálendinu. Pólitískur úrskurður umhverfisráðherra breytir þar engu um. Svonefndar mótvægisaðgerðir vegna áfoks úr Hálslóni gætu gert illt verra. Áhrifin í byggð eru ekki síður kvíðvænleg, þar á meðal af tröllauknum raflínum sem lagðar yrðu um Fljótsdal, Skriðdal og botn Reyðarfjarðar og heiðarnar þar á milli. Fyrir austfirskt samfélag er jafnframt stefnt að kollsteypu sem enginn sér fyrir endann á. Lífríki og litur Lagarfljóts þykja ef til vill léttvæg gæði á skammsýnan mælikvarða þeirra sem nú sitja að völdum. Þeir hinir sömu hefðu þó gott af að staldra við og líta einn sumarmorgun í spegil Fljótsins og hugsa sitt ráð áður en það er um seinan.


Vargöld í fjármálaheimi

Ekki verður svo opnað fyrir útvarp nú um stundir eða flett dagblaði að ekki sé þar stútfullt af sögum um átök og ruðning fjármálaspekúlanta. Heldur er þessi sundurlausi fréttaburður af stympingum peningamanna þreytandi, því að sjaldnast er reynt að setja hann í samhengi. Sé hins vegar skyggnst bak við nöfn og númer í þessum hjaðningavígum kemur á daginn að inntakið er oftast hið sama: Þeir sem voru stórir og umsvifamiklir fyrir eru að gleypa þá sem minni eru. Þetta er kallað hagræðing og nánast helgispjöll að hafa á móti þeim drifkrafti í hagþróun.

Óábyrg vinnubrögð

Opinber stefna stjórnvalda nú um stundir er að kasta fyrirtækjum sem verið hafa í sameign landsmanna um langan aldur inn á blóðvöll markaðarins. Fyrst er ríkisfyrirtækjum breytt í hlutafélög af því að það sé hið gjaldgenga rekstrarform. Vart er blekið þornað undir slíkum ákvörðunum þegar krafan um einkavæðingu verður hávær. Það þarf vissulega ekki að vera goðgá að breyta rekstrarformi ríkisfyrirtækja eða leggja þau niður. Hitt er verra ef það verður trúaratriði og menn neita sér um að spyrja til hvers leikurinn er gerður og láta vera að móta leikreglur um framhaldið. Sala ríkisbankanna og togstreitan um sparisjóðina er dæmigerð fyrir vinnubrögð sem eru að engu hafandi og bera keim af mafíustarfsemi í stað stjórnvisku.

Aðvaranir út ólíkum áttum

Á Alþingi hafa vinstri-grænir verið fremstir í flokki þeirra sem varað hafa við blindri einkavæðingarstefnu. Talsmenn stjórnarflokkanna hafa forðast að svara málefnalega þeim aðvörunum og kallað þær afturhald og þaðan af verri nöfnum. Nú bregður hins vegar svo við að Morgunblaðið lýsir svipuðum viðhorfum og vinstri-grænir hafa staðið fyrir. Í leiðurum hafa ritstjórar blaðsins ítrekað varað við áformum og aðferðum ríkisstjórnarinnar um frekari einkavæðingu Landsbankans og Búnaðarbankans. "Að mati Morgunblaðsins er ríkisstjórnin á mjög rangri leið í einkavæðingu bankanna ... " segir í ritstjórnargrein 26. júlí sl. Ritstjórarnir vara þar við þeirri hættu að bankakerfinu verði skipt upp á milli tveggja eða þriggja viðskiptablokka og nú stefni í að ríkisstjórnin geri örlagarík mistök. Alvaran að baki orða blaðsins leynir sér ekki og óskandi að á þeim verði tekið mark.

Hrunadans heima og erlendis

Þörfin á aðgát á fjármálum jafnt þjóða og fyrirtækja ætti að blasa við hverjum manni sem fylgist nú með hruni verðbréfa um allan heim. Þetta gerist í kjölfar þess að átrúnaðargoð hafa orðið uppvís að því að brjóta gegn einföldustu reglum um bókhald og endurskoðun. Sumir fréttaskýrendur taka svo djúpt í árinni að fjármálakerfi Bandaríkjanna standi á brauðfótum. Dow-Jones vísitalan er nú fallandi þriðja árið í röð og slíkt hefur ekki gerst frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Hvert stórveldi viðskiptaheimsins þar vestra af öðru fellur nú af stalli og forseti og varaforseti Bandaríkjanna eru sjálfir sakaðir um að hafa brotið gegn settum reglum. Hérlendis ganga klögumálin miskunnarlaust á víxl, þótt ólíku sé saman að jafna. Sem flestir Íslendingar ættu að gera þá kröfu til kjörinna fulltrúa að gæta almannahagsmuna í stað þess að fóðra þá varga sem nú takast fyrirfram á um bankastofnanir og sameiginlega sjóði landsmanna.

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim