Hjörleifur Guttormsson 29. ágúst 2002

Álfa í fjötrum fátæktar

Í þessum þriðja pistli frá Jóhannesarborg segir frá bágu hlutskipti Afríkubúa og sviknum og nú endurnýjuðum fyrirheitum um aðstoð.

Afríka er álfa andstæðna og íbúarnir að meirihluta fórnarlömb hrikalegra vandamála þar sem engin leið virðist til lausnar án samstillts átaks með þátttöku alþjóðasamfélagsins. Við Norðurbúar lítum til Afríku í rómantísku ljósi vegna ótrúlegrar náttúrufegurðar og fjölbreytni í landslagi og lífríki. Ferðir um þjóðgarða sem víða hefur verið stofnað til í von um að geta verndað úrvalssvæði líða engum úr minni. Amboseli, Serengeti og Kruger eru þekktar náttúruperlur úr safni þjóðgarða sem skipta hundruðum í þessari álfu, að ógleymdum fjöllum eins og Kilimanjaro. Álfan er oft kölluð vagga mannkyns, hugtak sem Mbeki forseti Suður-Afríku notaði í setningarræðu heimsþings um sjálfbæra þróun í Jóhannesarborg á dögunum. Hér hafa fundist minjar um forfeður nútímamannsins sem virðast hafa þróast sunnan Sahara og dreifst þaðan og aukið kyn sitt.

Svikin loforð og spilling

Það er tæpast með góðri samvisku sem þjóðarleiðtogar safnast saman í Jóhannesarborg þessa dagana. Loforðin um aðstoð til þróunar í álfunni, gefin hátíðlega í Ríó fyrir áratug, hafa verið svikin herfilega. Við það bætast afleiðingar hnattvæðingar sem íbúar Afríku upplifa sem tæki hinna voldugu og ríku til áframhaldandi arðráns. Sjálfskaparvítin eru hér vissulega mörg og blasa við í spilltum valdhöfum sem margir hverjir hafa stungið þróunarframlögum í eigin vasa. Stríð milli ættflokka og þjóðarmorð eins og gerðist í Rúanda/Burundi fyrir um áratug eru blettir sem seint hverfa. Vesturlönd sem arðrænt hafa álfuna um aldir eiga stóran hlut í spillingu og stríðsátökum síðustu ára. Óvíða hefur aðferðinni að deila og drottna verið beitt jafn blygðunarlaust af stórveldum og auðhringum eins og í Afríku að ógleymdum kynþáttafasisma afkomenda hvítra nýlenduherra.

Fátæktargildran

Það þarf ekki að fara langt út fyrir Jóhannesarborg til að sjá eymdarþorp af því tagi sem eru hlutskipti meirihluta fólks í þriðja heiminum. Þar er óvíða að hafa aðgang að ómenguðu vatni og rafmagni og sjúkdómar eiga greiðan aðgang. Berklar, eyðni og malaría eru það þríeyki sem tekur mestan toll í mannslífum, af 300 milljónum sem þjást af þessum sjúkdómum deyja 5 milljónir árlega samkvæmt hagtölum. Meðalaldur fólks í löndunum sunnan Sahara er sagður kominn niður í 47 ár. Í Botswana þar sem tæp 40% íbúa eru sýktir af eyðni hefur meðalaldurinn lækkað úr 62 árum niður í 37 á hálfum öðrum áratug. Gróðurhúsaáhrifin gera illt verra, því að með hækkandi hitastigi breiðast skordýr sem bera með sér malaríu og svefnsýki út til áður öruggra svæða. Loftslagsbreytingum fylgja þurrkar og gróðurfarsbreytingar sem ýta undir eyðimerkurmyndun og örvæntingarfull og langsótt leit að eldiviði leggst á sömu sveif. Staða kvenna sem afla í eldinn og bera hita og þunga daglegs amsturs er kafli út af fyrir sig.

Er lausn á næsta leiti?

Engan þarf að undra þótt grunnt sé á biturleika í garð hinna ríku og endurnýjuðum loforðum um aðstoð og réttláta viðskiptahætti sé mætt af tortryggni. Skilaboðin frá auðugasta ríki heims, þar sem stjórnvöld hafa nýlega stóraukið styrki til bænda, ganga raunar í þveröfuga átt. Í framkvæmdaáætlun þeirri sem nú er reynt að ganga frá á heimsþinginu í Jóhannesarborg er sérstakur kafli helgaður sjálfbærri þróun í Afríku og þar má lesa mörg falleg orð og fyrirheit á blaði. Vonandi taka þeir valdamenn sem hingað koma undir orð Mbeki forseta við setningu þingsins þegar hann lagði áherslu á að mannlegt samfélag sem byggir á fátækt þorra fólks en ríkidæmi fárra fái ekki staðist til frambúðar. Mál er að þessi stórkostlega heimsálfa með sínu yndislega fólki nái sínum hlut.

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim