Hjörleifur Guttormsson 30. ágúst 2002

Orð og athafnir stangast á

Í tilefni skýrslu umhverfisráðuneytisins um sjálfbæra þróun í íslensku samfélagi

Á umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Jóhannesarborg er að vonum mikið um upplýsingagjöf í rituðu máli. Eftir að ráðstefnan hófst lögðu íslensk stjórnvöld þar fram skýrsluna "Velferð til framtíðar" með undirfyrirsögninni "Sjálfbær þróun í íslensku samfélagi. Stefnumörkun til 2020". Þetta er rit upp á 82 blaðsíður í A4-broti, ríkulega myndskreytt og hefur að geyma mikið af upplýsingum um íslenskar aðstæður, náttúrufar, álag á umhverfið af mannavöldum og hugmyndir stjórnvalda um aðgerðir um nýtingu og verndun náttúruauðlinda.
Um margt er sú viðleitni sem fram kemur í útgáfu þessa rits góðra gjalda verð, ekki síst ef útgáfa þess ýtir undir umræðu um sjálfbæra þróun og hugmyndir íslenskra stjórnvalda í því samhengi. Ábendingar sem hér eru settar fram eru hugsaðar sem hvatning til að þetta rit rykfalli ekki óskoðað uns efnt verður til næstu útgáfu.

Innihaldið veldur vonbrigðum

Í inngangskafla skýrslunnar segir að stefnumörkun skýrslunnar sé ætluð "... sem heildarrammi utan um stefnumótun stjórnvalda á þeim sviðum sem snerta sjálfbæra þróun í náinni framtíð. ... Stefnan er mörkuð langt fram í tímann, eða til ársins 2020, sem þýðir að henni er ætlað að vera lifandi skjal sem tekur breytingum eftir því sem aðstæður og áherslur breytast. ... Þessi stefnumörkun á hins vegar að vera grunnplagg sem stjórnvöld og aðrir geta notað til þess að sjá og móta forgangsverkefni Íslands á sviði sjálfbærrar þróunar. Því er ætlað annars vegar að veita upplýsingar um meginmarkmið og áherslur íslenskra stjórnvalda og hins vegar að veita leiðsögn við framtíðarstefnumótun á mikilvægum sviðum." (bls. 10). Eins og hér kemur fram setja útgefendur markið hátt og því eru vonbrigði að innihaldið er rýrara en ætla mætti. Hér á eftir verður fyrst og fremst bent á nokkur dæmi um veikleika í efnistökum og framsetningu þessa rits sem mér sýnist því miður ekki rísa undir metnaðarfullu nafni.

Stefnumörkun í lausu lofti

Sjálfbær þróun er yfirskrift heimsþingsins í Jóhannesarborg þessa daga. Af flestum er þetta nýja hugtak túlkað sem leiðsögn um þróun samfélags og umhverfis sem fái staðist til lengdar, þar sem athafnir í nútíð megi ekki bitna á lífsskilyrðum í framtíðinni. Ástæðan fyrir að alþjóðasamfélagið hefur sameinast um að koma til fundar undir þessu kjörorði er hversu sjálfsagt það markmið hlýtur að teljast sem í því felst. Stoðirnar eru fyrst og fremst þrjár: efnahagsstarfsemi, félagsleg markmið og umhverfi jarðar í öllum sínum margbreytileik.
Í formála og inngangskafla skýrslu umhverfisráðherra er vikið að sjálfbærri þróun aftur og aftur, en framsetningin er ruglingsleg og lítt til þess fallin að dýpka skilning lesenda á viðfangsefninu. Sérstaklega skortir á að efnahagsstarfsemi sem einum grundvallarþættinum í sjálfbærri þróun séu gerð viðhlítandi skil og að sjálfbær þróun á Íslandi sé sett í samhengi við hnattræn viðfangsefni svo sem mengun og fátækt. Áhrif hnattvæðingar eru heldur ekki til umræðu í þessu riti, hvað þá stefna Íslands í alþjóðaviðskiptum. Um Ríó-sáttmálana er fyrst fjallað efnislega undir lok ritsins og um aðstæður þróunarríkja er sáralítið fjallað í skýrslunni. Fyrir bragðið svífur þetta rit mjög í lausu lofti.

Framsetning með áróðursblæ

Í skýrslunni er miklu rúmi varið til að lýsa ástandi mála að því er varðar atvinnuvegi, mengun og náttúruvernd. Látum vera að stjórnvöld hampi því sem þau telja að vel hafi til tekist ef jafnframt er bent á veikleikana í stöðunni. Á það skortir hins vegar verulega og því er greining skýrslunnar á núverandi ástandi ótrúverðug og heldur gagnslítil. Þetta á til dæmis við um kaflann um sjávarútveg sem atvinnuveg og um sjávarauðlindir. Gildandi fiskveiðistjórnunarlög eru sögð falla að sjálfbærri nýtingu og að verndun nytjastofna jafnframt því sem þau tryggi trausta atvinnu og byggð í landinu. Stjórnvöld eru sögð hafa beitt sér fyrir aðgerðum til að koma í veg fyrir brottkast sjávarafla og staðhæft að fylgt hafi verið vísindalegri ráðgjöf og varúðarnálgun við ákvörðun heildarafla. Umfjöllun um landbúnað er svipuðu marki brennd. Engin afstaða er tekin til beitarálags vegna tvöföldunar á hrossaeign landsmanna undanfarna áratugi, en höfundar hugga sig við að hross séu þó enn sem komið er færri en sauðfé! Markmið og aðferðafræði í skógrækt eru í þoku sem fyrr og fátt segir um hvernig bregðast skuli við vá af völdum ágengra innfluttra tegunda.

Í mörgu hálfkveðin vísa

Skipulagsmál fá lítið rúm í þessari skýrslu, þótt þau séu réttilega sögð eitt áhrifaríkasta stjórntækið til að samræma ólíkar kröfur um auðlindanýtingu, atvinnuþróun og umhverfisvernd. Um stefnu í fræðslumálum sem forsendu fyrir sjálfbærri þróun og lýðræðislegri umræðu verðum við litlu nær af lestri ritsins og enn er lofað náttúrufræðisafni á landsvísu sem forgangsverkefni á sviði almenningsfræðslu. Af lestri kafla um verndun náttúru Íslands mætti ætla að flest á því sviði sé komið á góðan rekspöl, en síðar verður skyggnst á bak við þau leiktjöld.
Umfjöllun um þróunaraðstoð Íslendinga fær einn dálk í skýrslunni. "Fjármagn til þróunaraðstoðar hefur aukist á undanförnum árum en er þó undir þeim mörkum sem að var stefnt" segir þar. Þetta getur varla talist hálfsannleikur, því að framlög Íslands til þróunaraðstoðar hafa nánast staðið í stað frá því viðmiðunin um 0,7% af vergri þjóðarframleiðslu var sett í Ríó 1992. Það er von að sleginn sé sá varnagli í þessari stefnumörkun að ekki sé ráðlegt að auka þróunaraðstoð mikið í einu vetfangi!

Orð og athafnir stangast á

Stóra véfréttin í þessari skýrslu eru orkumál og stóriðjustefna stjórnvalda. Meira er gert en áður úr orkuauðlindum landsins, hagkvæm vatnsorka sögð fimm sinnum meiri en búið sé að virkja og óvirkjaður jarðhiti sagður "þúsund sinnum meiri en sá jarðhiti sem nú er nýttur." Vísað er til rammaáætlunar um virkjun vatnsorku og jarðhita til að samþætta sjónarmið verndar og nýtingar. Þetta lítur ekki illa út til aflestrar fyrir útlendinga en er lítil huggun þeim sem þekkja til veruleikans heima fyrir. Það er er í meira lagi kaldhæðnislegt að á sama tíma og stjórnvöld boða miðlunarlón á Ramsarsvæðinu Þjórsárverum lesum við í þessari skýrslu að æskilegt sé að tilnefna af Íslands hálfu á næstu fimm árum a. m. k. þrjú votlendissvæði til viðbótar undir slíka vernd. Í loftslagsmálum er stóriðjan sem fyrr tekin út fyrir sviga og áfram treyst á guð og lukkuna og að litla Ísland komist áfram með betlistafinn þegar aðrir aðilar að Kyótóbókuninni axla byrðar.

Dugar skammt sem leiðsögn

Þótt ýmsan fróðleik megi hafa af þessari skýrslu umhverfisráðherra dugar hún skammt sem leiðsögn um stefnumörkun fyrir sjálfbæra þróun af Íslands hálfu. Ráðlegt hefði verið af höfunda hálfu að sleppa tilvísun til ársins 2020 á forsíðu og ganga fram af meiri hógværð, bæði miðað við efnistök ritsins og íslenskan veruleika.

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim