Hjörleifur Guttormsson 1. mars 2003

Peningalyktinni er auðvelt að eyða

Hver þekkir ekki peningalyktina svokölluðu sem fylgt hefur fiskimjölsverksmiðjum hérlendis frá upphafi til mikils ama fyrir marga. Mikið hefur verið gert í tæknilegum endurbótum á flestum fiskimjölsverksmiðjum að undanförnu með nýjum aðferðum m. a. við þurrkun á mjöli og vinnslu soðkjarna sem gerir kleift að koma í veg fyrir alvarlega mengun ef rétt er staðið að rekstri. Grútarmengun í sjó ætti því að heyra sögunni til, en þó kemur hún fyrir alltof oft vegna þess að settum reglum er ekki framfylgt og eiga þar hlut að máli bæði veiðiskip við löndun og verksmiðjurnar. Eftir stendur hins vegar “peningalyktin”, loftmengun af margvíslegum efnasamböndum sem valda hvimleiðum og oft skelfilegum ódaun sem leggur yfir byggðir í grennd verksmiðjanna, misjafnalega mikið eftir ástandi hráefnis og veðurfari.

Viðráðanlegar tæknilausnir

Lengi hefur því verið borið við af forráðamönnum fiskimjölsverksmiðja að allt sé gert sem unnt sé til að draga úr þessari hvimleiðu mengun og jafnvel staðhæft að lengra verði ekki komist. Hafi þetta átt við einhver rök að styðjast er svo ekki lengur, því að þegar eru komin í notkun hérlendis ráð sem duga til að eyða nær alveg peningalyktinni. Akureyringar og gestir þar í bæ þekkja af langri reynslu loftmengunina frá fiskimjölsverksmiðjunni í Krossanesi. Ísfélag Vestmannaeyja sem nú er eigandi verksmiðjunnar tók fyrir fáum árum á þessu vandamáli og frá því á árinu 2001 er verksmiðjan þar komin með búnað frá fyrirtækinu MEGTEC og hefur hann reynst vel til lykteyðingar þannig að kvartanir eru að heita má úr sögunni og helst raktar til annars fyrirtækis, fóðurverksmiðju sem starfrækt er á sama stað. Bæði skoðanakannanir og athuganir á vegum Hollustuverndar staðfesta þetta. Farið var yfir þessi mál á fundi með talsmönnum Ísfélagsins, framleiðendum búnaðarins og fulltrúum Hollustuverndar og heilbrigðiseftirlitssvæða 14. febrúar síðastliðinn. Upplýst var að MEGTEC ábyrgist 98% virkni búnaðarins með einföldu kerfi og 99,6% eyðingu lyktarefna með viðbótarbúnaði. Orkukostnaðurinn við brennslu ólyktarefnanna við 1000°C er vel viðráðanlegur að sögn talsmanns Ísfélagsins.

Eftir engu að bíða

Nú þegar þetta liggur fyrir er ekki eftir neinu að bíða að setja fiskimjölsverksmiðjunum skilyrði um lykteyðingu með besta fáanlegum búnaði. Hollustuvernd hefði mátt standa betur að málum við að upplýsa almenning um þá tækniþróun sem orðið hefur að undanförnu og setja skilyrði um lykteyðingu í starfsleyfi verksmiðjanna. Á þessu hlýtur að verða ráðin bót fyrr en seinna, því að það er engum til góðs að framlengja núverandi ástand. Tæknin sem kynnt var á umræddum fundi byggist m. a. á því að verksmiðjuhúsunum er haldið lokuðum svo að þau verða hið innra í undirþrýstingi og þannig næst að soga mengað loft til brennslubúnaðar frá öllum uppsprettum í byggingunum. Slíkt er ekki aðeins til bóta fyrir ytra umhverfi heldur einnig fyrir starfsmenn verksmiðjanna, forráðamenn og eigendur. Jafnframt þarf auðvitað að tryggja að mengað loft berist ekki frá löndunarbúnaði og geymslum. Almenningur og sveitarstjórnarmenn þurfa að fylgja kröfum um úrbætur fast eftir og góð rekstrarafkoma í fiskimjölsiðnaðinum nú um stundir ætti að vera hvatning til dáða.


Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim