Hjörleifur Guttormsson 3. janúar 2003

Um tímann, vatnið og viðfangsefnin

Öllum lesendum heimasíðunnar óska ég gleðlilegs árs og þakka samskiptin á liðinni tíð. Ótrúlega margir verða til að líta inn á Grænan vettvang og það er mér hvatning til að nýta hann áfram til að miðla og fá viðbrögð til baka.

Á persónulegum nótum

Tíminn er eins og vatnið,/og vatnið er kalt og djúpt/eins og vitund mín sjálfs. Eitthvað á þessa leið byrjar Steinn Steinar sína ógleymanlegu syrpu, sem Atli Heimir Sveinsson hefur nú fellt að tónlist sem ég á eftir að hlusta á betur en færi gafst um hátíðar. Ef að líkum lætur hafa Íslendingar fengið þar eina perlu í viðbót til að hlusta á og njóta. Engan sjóð á ég betri en þau kvæði sem seytlað hafa inn í minnið fyrr á ævinni og kviknar á við ólíklegustu tilefni. Gott er að fylgjast með því að barnabörnin læra ljóð í leikskóla og syngja líklega meira og oftar en tíðkaðist í mínu ungdæmi. Hitt veit ég ekki hvort grunnskóli og framhaldsskóli rækta kvæðalestur sem skyldi með það að markmiði að ungmenni tileinki sér og læri ljóð sem innistæðu til að eiga í hugarfylgsnum.
Árið sem leið var mér og mínum hagfellt og áfallalítið. Þeir sem halda heilsu þurfa fæstir að kvarta og á það jafnt við um þá andlegu og líkamlegu, sem ég raunar kann ekki að greina á milli. Öll erum við öðru hvoru minnt á leikslok mannlegrar tilveru, af mínu fólki kvaddi Páll bróðir og vantaði aðeins hálft ár í nírætt. Margur má una við minna.
Sjaldan hef ég haft fangið jafn fullt af viðfangsefnum eins og síðustu ár eftir að verkum lauk á Alþingi sem aðal starfsvettvangi. Margt af því fellur undir hatt náttúrufræðistofu minnar, rannsóknir og ritstörf. Annað má teljast til tómstundagamans eins og ferðalög án sérstaks fyrirheits heima og erlendis. Punktur var settur aftan við rit um Austfirði frá Álftafirði til Reyðarfjarðar. Undan viðtökum þarf ég ekki að kvarta og samskiptin við Ferðafélag Íslands sem útgefanda hafa verið eins og best verður á kosið. Hafin er vinna að framhaldi norður með fjörðum og mun endast þetta árið og það næsta. Fleira er þó í deiglu og alltaf nýjar hugmyndir að skjóta upp kolli. – Og tíminn er eins og mynd,/ sem er máluð af vatninu/og mér til hálft. Og tíminn og vatnið/renna veglaust til þurrðar/inn í vitund míns sjálfs.

Stóriðjuinnrásin austanlands

Margt leitar á hugann nú í byrjun árs, efst á blaði og nærtækast er yfirvofandi innrás stóriðju hér austanlands. Ef núverandi valdhöfum í landinu, studdum af þorra austfirskra sveitarstjórnarmanna verður að ósk sinni, munu brátt hefjast stóriðjuframkvæmdir sem breyta munu landslagi í þessum fjórðungi varanlega, bæði náttúrufari og félagslegum aðstæðum. Landsvirkjun þjófstartaði raunar á síðasta hausti og hóf framkvæmdir á Vesturöræfum og við Hafrahvammagljúfur án þess nokkur vissa væri um grundvöll þeirra. Það var storkandi aðgerð eins og flest það sem þetta almannafyrirtæki tekur sér fyrir hendur í seinni tíð.
Öllum má vera ljóst að náttúrufarsröskunin sem ráðgerðum orkuframkvæmdum fylgir yrði gífurleg og einstæð á íslenskan mælikvarða. Ekki er aðeins um að ræða óafturkræfar breytingar á hálendinu frá Kárahnjúkum austur á Hraun, heldur yrði Lagarfljóti og Jöklu umbylt með samveitum, Fljótsdalur, Skriðdalur, Þórudalur, Þórdalsheiði, Áreyjadalur og botn Reyðarfjarðar lagðir undir raflínur af stærstu gerð og mengandi risaverksmiðja setti mark sitt á allt umhverfi Reyðarfjarðar. Félagslegu áhrifin af þessum hervirkjum yrðu ekki síður neikvæð fyrir landshlutann, eyðing jaðarbyggða, kollsteypa fyrir þann rekstur sem fyrir er og einhæfur verksmiðjurekstur sem að stórum hluta yrði að byggja á erlendu vinnuafli til langframa. Fólki austanlands sem veitir þessu glapræði stuðning er tæpast sjálfrátt og komandi kynslóðir munu gjalda fyrir í margháttaðri mynd.

Árás á Írak í aðsigi

Bandaríska stríðsvélin hefur verið sett á fulla ferð til undirbúnings innrás í Írak. Bush er leikbrúða í hendi stjórnenda hergagna- og olíuiðnaðarins sem nú heimtar sitt af forseta sem þeir hinir sömu komu til valda í krafti fjármagns fyrir tveimur árum. Opinber réttlæting fyrir árás á Írak er samsafn af tylliástæðum sem aðeins fjölmiðlar sem gera út á stríð líkt og CNN eru tilbúnir til að verja. Óttinn við heimsveldið og efnahagstök hins sterka svæfir þá réttlætiskennd sem með mörgum blundar, bæði hjá þeim sem yfir fjölmiðlum ráða og stjórnmálamönnum. Bandaríkin eru keyrð á olíu, bæði efnahagskerfið og daglegt líf manna, meira en þekkist í nokkru öðru landi. Kapítalistarnir sem halda um dælurnar vestra geta ekki hugsað sér að neinir aðrir hafi teljandi áhrif á heimsmarkað með olíu. Þess vegna er nú undirbúið stríð, þrátt fyrir öll mótrök, varnaðarorð og áhættu fyrir heimsbyggð alla.
Málstaður stjórnmálamanna sem styðja þennan herleiðangur er bágur. Þar fer fremstur nú sem fyrr Tony Blair, átrúnaðargoð og leiðarljós Samfylkingarinnar hérlendis. Robertson framkvæmdastjóri NATÓ hefur gefið til kynna að bandalagið verði að standa við bakið á Bandaríkjunum í árás á Írak og svo virðist sem íslenska ríkisstjórnin hafi þegar skrifað upp á þá áskorun. Eftir er að sjá hvort einhverjir þeir kraftar leynast í mannheimi sem stöðvað geti þessa herferð.

Auðhyggja og misskipting sækja á

Margt er í kýrhausnum skrítið. Gangverk kapítalismans sér fyrir því að auðhyggja og misskipting magnast með hverju ári sem líður. Stigmögnuð tækni, gereyðingarmáttur og blint og óskorað fjármálavald verður æ afdrifaríkara fyrir þróun á alþjóðavettvangi. Ríkjandi efnahagskerfi gengur út frá samþjöppun auðs og valda nánast sem náttúrulögmáli. Engir viðhlítandi öryggishemlar eru til staðar, hvað þá að siðræn gildi fái einhverju um ráðið. Síaukin framleiðsla með tilheyrandi orkunotkun veldur hnattrænni mengun og loftslagsbreytingum af mannavöldum. Útþensla byggðar og annarra mannvirkja, efnisnám og ósjálfbær notkun auðlinda þrengir stöðugt að náttúrulegu umhverfi og búsvæðum lífvera. Neysluvatn er að þrjóta á stórum svæðum og stefnir í að verða munaðarvara. Öllum má vera ljóst að vegferð mannkyns getur ekki haldið áfram eftir slíkum brautum án stóráfalla.
Jöfnuður lífskjara, samdráttur í efnislegri neyslu og hægari fólksfjölgun ættu að vera boðorð dagsins og viðfangsefni stjórnmála, félagsmála og hagvísinda. Fjölbreytni í stað einsleitni er lykill að stöðugleika. Jafnvægi það sem ríkir í lífrænni náttúru miðað við umhverfisskilyrði hvers tíma mætti vera okkur leiðsögn til eftirbreytni. Samfélagshættir ríkra þjóða með sívaxandi neyslu á kostnað náttúru og umhverfis byggja í raun á því að meirihluta mannkyns verði haldið utan við allsnægtaborðið til frambúðar. Á meðan svo er fjarlægist heimsbyggðin óðfluga friðsamlega sambúð og sjálfbæra þróun sem margir hylla í orði en fáir valdhafar taka alvarlega. Það er því ærið verk að vinna fyrir þá sem skynja það sem að steðjar.

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim