Hjörleifur Guttormsson | 3. janúar 2003 |
Um tímann, vatnið og viðfangsefnin Öllum lesendum heimasíðunnar óska ég gleðlilegs árs og þakka samskiptin á liðinni tíð. Ótrúlega margir verða til að líta inn á Grænan vettvang og það er mér hvatning til að nýta hann áfram til að miðla og fá viðbrögð til baka. Á persónulegum nótum Tíminn er eins og vatnið,/og vatnið er kalt og djúpt/eins
og vitund mín sjálfs. Eitthvað á þessa
leið byrjar Steinn Steinar sína ógleymanlegu syrpu,
sem Atli Heimir Sveinsson hefur nú fellt að tónlist
sem ég á eftir að hlusta á betur en færi
gafst um hátíðar. Ef að líkum lætur
hafa Íslendingar fengið þar eina perlu í viðbót
til að hlusta á og njóta. Engan sjóð á
ég betri en þau kvæði sem seytlað hafa inn
í minnið fyrr á ævinni og kviknar á við
ólíklegustu tilefni. Gott er að fylgjast með því
að barnabörnin læra ljóð í leikskóla
og syngja líklega meira og oftar en tíðkaðist í
mínu ungdæmi. Hitt veit ég ekki hvort grunnskóli
og framhaldsskóli rækta kvæðalestur sem skyldi
með það að markmiði að ungmenni tileinki sér
og læri ljóð sem innistæðu til að eiga
í hugarfylgsnum. Stóriðjuinnrásin austanlands Margt leitar á hugann nú í byrjun árs, efst
á blaði og nærtækast er yfirvofandi innrás
stóriðju hér austanlands. Ef núverandi valdhöfum
í landinu, studdum af þorra austfirskra sveitarstjórnarmanna
verður að ósk sinni, munu brátt hefjast stóriðjuframkvæmdir
sem breyta munu landslagi í þessum fjórðungi varanlega,
bæði náttúrufari og félagslegum aðstæðum.
Landsvirkjun þjófstartaði raunar á síðasta
hausti og hóf framkvæmdir á Vesturöræfum
og við Hafrahvammagljúfur án þess nokkur vissa
væri um grundvöll þeirra. Það var storkandi
aðgerð eins og flest það sem þetta almannafyrirtæki
tekur sér fyrir hendur í seinni tíð. Árás á Írak í aðsigi Bandaríska stríðsvélin hefur verið sett
á fulla ferð til undirbúnings innrás í
Írak. Bush er leikbrúða í hendi stjórnenda
hergagna- og olíuiðnaðarins sem nú heimtar sitt
af forseta sem þeir hinir sömu komu til valda í krafti
fjármagns fyrir tveimur árum. Opinber réttlæting
fyrir árás á Írak er samsafn af tylliástæðum
sem aðeins fjölmiðlar sem gera út á stríð
líkt og CNN eru tilbúnir til að verja. Óttinn
við heimsveldið og efnahagstök hins sterka svæfir þá
réttlætiskennd sem með mörgum blundar, bæði
hjá þeim sem yfir fjölmiðlum ráða og
stjórnmálamönnum. Bandaríkin eru keyrð á
olíu, bæði efnahagskerfið og daglegt líf manna,
meira en þekkist í nokkru öðru landi. Kapítalistarnir
sem halda um dælurnar vestra geta ekki hugsað sér að
neinir aðrir hafi teljandi áhrif á heimsmarkað með
olíu. Þess vegna er nú undirbúið stríð,
þrátt fyrir öll mótrök, varnaðarorð
og áhættu fyrir heimsbyggð alla. Auðhyggja og misskipting sækja á Margt er í kýrhausnum skrítið. Gangverk kapítalismans
sér fyrir því að auðhyggja og misskipting
magnast með hverju ári sem líður. Stigmögnuð
tækni, gereyðingarmáttur og blint og óskorað
fjármálavald verður æ afdrifaríkara fyrir
þróun á alþjóðavettvangi. Ríkjandi
efnahagskerfi gengur út frá samþjöppun auðs
og valda nánast sem náttúrulögmáli. Engir
viðhlítandi öryggishemlar eru til staðar, hvað
þá að siðræn gildi fái einhverju um
ráðið. Síaukin framleiðsla með tilheyrandi
orkunotkun veldur hnattrænni mengun og loftslagsbreytingum af mannavöldum.
Útþensla byggðar og annarra mannvirkja, efnisnám
og ósjálfbær notkun auðlinda þrengir stöðugt
að náttúrulegu umhverfi og búsvæðum
lífvera. Neysluvatn er að þrjóta á stórum
svæðum og stefnir í að verða munaðarvara.
Öllum má vera ljóst að vegferð mannkyns getur
ekki haldið áfram eftir slíkum brautum án stóráfalla. Hjörleifur Guttormsson |