Hjörleifur Guttormsson 4. júní 2003

Undir bandarískri fallöxi

Eftirmál Írak-stríðsins birtast mönnum þessar vikurnar í mörgum kynlegum myndum. Árásaraðilarnir Bandaríkin og Bretland studdir af auðsveipum leppum eru nú rammflæktir í vef ósanninda sem spunninn var til að réttlæta brot gegn alþjóðalögum og stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Leikfléttur með vísan í leynilegar upplýsingar sem engin leið er að staðreyna eru ekki nýjar af nálinni. Bandarísk stjórnvöld hafa um langt skeið notað slíkar aðferðir til að réttlæta íhlutun í ríkjum rómönsku Ameríku og víðar. Skjallegar sannanir hafa oft ekki birst fyrr en áratugum síðar þegar leynd hefur verið létt af gögnum í Washington. Aðferðirnar hafa ekki breyst til batnaðar nema síður sé og áfram er treyst á áróðursmátt og skammtímaminni. Framganga Powells utanríkisráðherra Bandaríkjanna á fundi Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna 5. febrúar síðastliðinn segir meira en orð hversu langt stórveldi leyfir sér að ganga í blekkingum þar sem tilgangurinn helgar meðalið. Æðstu valdamenn íslenskir átu síðan upp tugguna eins og páfagaukar.

Nýlendustefnan endurborin

Árásin á Írak og hernámið í kjölfarið boðar breytta tíma í alþjóðamálum. Að mörgu leyti minna þessir atburðir á nýlendustefnuna þegar hún var upp á sitt besta fyrir um einni öld. Bretar voru þá í aðalhlutverki sem Bandaríkin hafa nú yfirtekið og ætlast til að heimsbyggðin lúti óskoruðum veldissprota sínum. Inn á við virðist bandarískum valdsmönnum nægja að vísa til meintra þjóðarhagsmuna til að réttlæta óhæfuverk og út á við er reynt að beita samblandi af lítt dulbúnum mútum og hótunum. Bush-stjórnin hefur í reynd sett alþjóðakerfið út af sporinu með þeim hætti að enginn sér fyrir endann á. Hræðsla almennings við hryðjuverk er notuð til réttlætingar á gerræði í smáu og stóru einkum gagnvart þróunarríkjum. Á bak við blundar kynþáttastefna og hrokafull afstaða í garð annars konar menningar og gilda en þeirra sem viðtekin eru á Vesturlöndum. Reynt er að halda því að almenningi að rétt og framkvæmanlegt sé að koma á lýðræði að vestrænni fyrirmynd við gerólíkar aðstæður líkt og um fataskipti sé að ræða. Eftir slíkum umskiptum geta menn beðið lengi í Írak enda voru þau aldrei annað en fyrirsláttur til að fela raunveruleg markmið með innrásinni.

Fullveldi undir hamrinum

Fjármálaöflin sem fastast knýja á um svonefnda hnattvæðingu sjá í fullveldishugtakinu hindrun í vegi fyrir altæku frelsi sínu. Stjórnarfarslegt fullveldi var í senn tákn og keppikefli þjóða sem fyrir aðeins hálfri öld voru að brjótast undan aldalangri undirokun. Einnig við Íslendingar vorum í þeim sporum þótt örlögin skömmtuðu okkur “mátulega sterkan óvin” svo notað sé orðalag Íslandsklukkunnar. Sameinuðu þjóðirnar hafa byggst upp á grunni fullvalda þjóðríkja og tala þeirra er farin að nálgast 200. Á þeim grunni hefur síðan verið leitast við að styrkja mannréttindi, umhverfisvernd og alþjóðaöryggi þótt mikið vanti á að settar leikreglur séu virtar sem skyldi. Til skamms tíma var óhugsandi að aðildarríki Sameinuðu þjóðanna tækju sér fyrir hendur að skipta um ríkisstjórnir annarra aðildarríkja að eigin geðþótta. Stríðið undir merkjum NATÓ á hendur Júgóslavíu vegna Kósóvó var fyrsta stóra frávikið gegn áður viðteknum reglum. Með Írakstríðinu var skrefið hins vegar stigið til fulls og fallöxi Bandaríkjanna beitt einhliða og af fullum þunga.

Styrkjum alþjóðakerfið

Menn ættu að fara varlega í að réttlæta einhliða stríðsaðgerðir undir yfirskyni mannúðar og lýðræðis. Fáir efast um að Saddam Hussein hafi verið mikill skúrkur, en hann er hvorki sá fyrsti eða síðasti sem kúgar eigin þegna. Eftir er að sjá hvort innrásarliðið sem steypti honum af stóli með miklum mannfórnum og glæpsamlegu skeytingarleysi um menningararf Íraka og alls mannkyns reynist hótinu skárra. Sá mælikvarði milli góðs og ills sem Bandaríkin nú hyggjast leggja á heimsbyggðina er ekki líklegur til að bæta hag almennings í fátækum ríkjum eða tryggja það öryggi sem heimsbyggðin þarfnast. Evrópusamband undir forystu gömlu nýlenduveldanna er heldur ekki sú trygging eða haldreipi sem eitt og sér leysi vandann og réttlæti að kasta þjóðlegu fullveldi fyrir róða. Þróunarríkin og smáþjóðir eins og við Íslendingar eiga mest undir öflugu alþjóðakerfi. Í þeim efnum kemur ekkert í stað Sameinuðu þjóðanna og þeirra hugsjóna sem lágu til grundvallar við stofnun þeirra.

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim