Hjörleifur Guttormsson 5. ágúst 2003

Skógrækt, umhverfi og veðurfar

Um öld er nú liðin frá því hafin var skipuleg starfsemi að verndun skóga hérlendis og yfir 60 ár síðan skipulegar tilraunir hófust með ræktun innfluttra trjátegunda. Mikið og merkilegt starf hefur verið unnið á þessu sviði og almenningur hefur sýnt uppgræðslu lands, skógvernd og skógrækt verulegan áhuga sem birst hefur í starfi fjölmargra skógræktarfélaga áhugafólks. Um 1990 voru sett lög um skógrækt bænda á Fljótsdalshéraði undir merkjum Héraðsskóga og fyrir fáum árum voru þau útvíkkuð þannig að heimilt er að stofna til landshlutaverkefna í skógrækt með ríkisstuðningi til landeigenda samkvæmt samningi. Í stað örfárra friðaðra skógarrreita og tilraunastöðva í skógrækt er þannig byrjað að planta trjátegundum á vegum bænda og annarra landeigenda með stuðningi af almannafé á stórum spildum á láglendi í öllum landshlutum. Ræktun af þessu tagi felur í sér gjörbreytta landnotkun og henni fylgir vissulega margt jákvætt ef vel er að staðið. Jafnframt koma upp mörg álitamál sem brýnt er að rædd séu opinskátt og móta þarf um skynsamlegar verklagsreglur.

Afar óskýr lagarammi

Alþingi hefur lengi vanrækt að móta heildstæð lög um gróður- og jarðvegsvernd og framkvæmdavaldið lítið hjálpað til í þeim efnum. Þekkingarskortur stjórnmálamanna og sundurþykkja milli stofnana og ráðuneyta á þar ekki lítinn þátt. Í stað þess að móta skýr markmið um meðferð jarðvegs og gróðurs sem auðlindar eru lagafyrirmæli á tætingi og í pörtum, úrelt og óskýr. Skógvernd og skógræktarmálefni eru þar engin undantekning. Gildandi lög um skógrækt eru að meginstofni til hálfrar aldar gömul. Átta sinnum hefur stjórnarfrumvarp til nýrra skógræktarlaga verið flutt af landbúnaðarráðherra, þar af þing eftir þing á níunda áratugnum. Jafnoft hefur málið sofnað, síðast vorið 1999. Inn í þetta úrelta lagaumhverfi hefur síðan verið plantað lögum um landshlutabundin skógræktarverefni með víðtækum heimildum til landbúnaðarráðherra. Alþjóðasamningar og gjörbreytt viðhorf til gróðurverndarmála og umhverfisþátta koma lítið sem ekkert við sögu í gildandi löggjöf.

Áhætta vegna veðurfars

Verndun og aðhlynning náttúrulegra birkiskóga hefur orðið útundan en þess í stað verið ýtt undir hugmyndir um ræktun timburskóga, oft á harla óljósum forsendum byggðum á takmarkaðri reynslu. Sérstaklega er þetta tvísýnt þegar farið er út fyrir þau mörk þar sem vaxtarskilyrði eru ákjósanlegust. Skógarmörk birkis ættu að segja okkur nokkuð um það hvar Ísland er statt í veðurfarslegu tilliti og að lítið má út af bera með innfluttar trjátegundir. Með því er engri rýrð kastað á það sem vel hefur til tekist á síðustu áratugum og víða framar vonum. Miklar sveiflur einkenna veðurfar hérlendis og líklegt er að þær aukist vegna gróðurhúsaáhrifa. Sérstaklega eru varhugaverð hlýindi síðari hluta vetrar eins og við vorum minnt á þetta árið. Vorhretin láta sjaldan á sér standa. Brúnt og sviðið lerki víða á Austurlandi eftir hretið í maíbyrjun er aðvörun sem taka verður alvarlega. Hafa verður í huga að slík hret geta orðið mun harðari en gerðist að þessu sinni. Í ljósi þessa var sérkennilegt að heyra forsætisráðherra landsins gera að umtalsefni í ræðu sinni á þjóðhátíðardaginn samfellt blíðviðri það sem af er árinu, “án afturkipps og hrets”. Áföll eru til að læra af .

Landslagsáhrif vanmetin

Skógur á áður skóglausu svæði hefur róttæk áhrif á ásýnd landsins og mikið vandaverk er að draga úr þeim svo að vel fari. Stakar gróðursetningar og reitir innan girðinga eru víða í hróplegu ósamræmi við umhverfi sitt, auk þess sem tré skyggja á landslagsform, kletta, lækjardrög og annað sem augað er vant. Trjágróður er fljótur að hylja það foldarskart, smávini fagra í brekkum sem Jónas kvað um forðum. Nú þegar kvarta margir sem aka um Fljótsdalshérað yfir að lerkiskógur taki fyrir útsýni til Lagarfljóts og er þetta þó aðeins byrjunin. Á slíkar raddir þarf að hlusta, skilgreina markmiðin sem að er keppt og átta sig á hvernig aðfluttur gróður falli sem best að viðkomandi umhverfi og landslagi. Fallvaltar hugmyndir um nytjar af timburframleiðslu mega ekki verða til þess að við spillum landslagi sem getur verið engu síðri auðlind þótt ekki reiknist hún í krónum og aurum. Umfram allt þarf frjóa og opna umræðu og fræðslu um gróðurríki landsins, gildi þess og samspil við aðra umhverfisþætti.

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim