Hjörleifur Guttormsson 5. september 2003

Loftslagsbreytingar og aðgerðaleysið

Fáir taka lengur undir efasemdaraddir um að loftslag jarðar sé að breytast af mannavöldum. Íslenskir ráðamenn með forsætisráðherra í fararbroddi drógu lappirnar þegar Kyótóbókunin var á undirbúningsstigi árið 1997 og eftir að hún var frágengin beindist öll viðleitni Íslands að því að fá undanþágur til að menga meira. Í þeim efnum leituðu þeir m. a. stuðnings Bandaríkjanna sem síðan skárust úr leik og storka nú allri heimsbyggðinni með því að hundsa Kyótóbókunina. Hérlendis er ekkert marktækt í gangi til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, stóriðjufyrirtæki keppast um að nýta sér “íslenska ákvæðið” til að menga hér um langa framtíð sér að kostnaðarlausu, mengun frá samgöngum vex hraðfara með stækkandi bílaflota og tilfærslu flutninga frá sjó yfir á vegakerfið og í sjávarútvegi sækja orkufrekar veiðiaðferðir á í kapphlaupi um takmarkaða veiði. Ofneyslukapphlaupið er hér sem annars staðar á Vesturlöndum driffjöður hagkerfisins, sóknin í meiri efnisleg gæði á kostnað umhverfis og eigin heilsu.

Hröðun loftslagsbreytinganna

Ýmislegt bendir til að áhrifin af losun gróðurhúsalofttegunda séu að magnast hraðar og með óvæntum hætti miðað við þá vitneskju og mat sem gengið var út frá þegar Sameinuðu þjóðirnar hleyptu loftslagssamningnum af stokkunum í Ríó 1992. Þróunin síðan hefur ekki aðeins staðfest forsögn vísindamanna og niðurstöðu Alþjóðahópsins um loftslagsbreytingar (IPCC) heldur hefur hlýnun andrúmsloftsins á liðnum áratug gerst mun hraðar en búist hafði verið við. Afleiðingarnar hafa minnt rækilega á sig á þessu ári með hálfgerðu neyðarástandi víða á norðurhveli, methita víða, röskun úrkomuferla og heiftarlegri og tíðari stormum en menn hafa átt að venjast. Talað er um að öfgar í veðurfari fari vaxandi og áhrifin á aðra umhverfisþætti að lífríkinu meðtöldu eru þegar auðsæ og geta orðið afar afdrifarík fyrir okkur Íslendinga ekki síður en aðrar þjóðir.

Hættumerki fyrir Ísland

Það er ekki óeðlilegt að margir hérlendis dásami veðurblíðu og hlýindi síðasta misserið langt umfram það sem við eigum að venjast. Sem liður í víðtækari veðurfarsbreytingum getur þetta hins vegar reynst skammgóður vermir og kallað yfir land og þjóð umhverfisbreytingar sem fáa hefði órað fyrir. Hækkun meðalhita mun að vísu ekki valda hér neyðarástandi með dauðsföllum þúsunda eins og við heyrum um frá meginlandi Evrópu, en vatnakerfi landsins mun raskast og lífríki í sjó og á landi taka breytingum sem óvíst er að yrðu til bóta á mannlegan mælikvarða. Hinn möguleikinn sem margir vísindamenn benda á er að í kjölfar bráðnunar hafíss á heimsskautasvæðum breytist hafstraumar á Norður-Atlantshafi, Golfstraumurinn skili sér ekki lengur upp að ströndum Vestur-Evrópu og það leiði óhjákvæmilega til stórfelldrar kólnunar á okkar slóðum. Hér er því efni í hrunadans af mannavöldum sem ekki má loka augum fyrir.

Hvað eru menn að hugsa?

Skammsýni er ríkur eðlisþáttur meðal manna, eiginleiki mótaður af aðstæðum fábrotinna lífshátta um aldir og árþúsund og kom sér eflaust vel við að þreyja þorra og góu fyrr á tíð. Í hnattvæddu umhverfi þar sem mannkynið er með samanlögðum athöfnum sínum farið að hafa áhrif á forsendur lífs á jörðinni gegnir öðru máli. Nú dregur skammsýni úr möguleikum á að mannleg samfélög, þjóðríki og stærri heildir, nái saman um samstillt viðbrögð. Fjölmiðlun snýst að mestu um augnablikið, aukaatriði og hjóm og hjálpar lítið til við að búa almenning undir glímu eins og hér um ræðir. Viðfangsefnið er sannarlega stórt þegar um loftslagsbreytingar af völdum mengunar er að ræða. Tækniúrræði geta vissulega hjálpað til, en niðurskurður í losun gróðurhúsalofttegunda um allt að 70% á næstu áratugum gerist ekki nema með gjörbreytingu framleiðsluhátta og neyslustigs og þar með lífshátta, sérstaklega á Vesturlöndum. Hnattvætt hagkerfi virðist illa í stakk búið til að glíma við þennan vanda. Skerist heimsveldi eins og Bandaríkin úr leik til langframa er lítil von um að takast megi að koma böndum á sjálfseyðandi heimsbúskap.

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim