Hjörleifur Guttormsson | 7. maí 2003 |
Þjórsárver og heimskupör Landsvirkjunar Aðeins þremur mánuðum eftir að settur umhverfisráðherra kvað upp úrskurð í kærumálum vegna miðlunar í Þjórsárverum er niðurstaða hans komin í uppnám. Ástæðan er þokukennd framsetning í úrskurðinum og óbilgirni Landsvirkjunar sem er á fullri ferð með að túlka úrskurðinn á annan veg en ráðherra hefur gert gagnvart alþjóð og Alþingi. Þar teflir Landsvirkjun í skjóli iðnaðarráðherra og Jóhannesar Sigurgeirssonar stjórnarformanns en þessir samflokksmenn hafa unnið eins og síamstvíburar að undirbúningi stóriðjuframkvæmda allt kjörtímabilið og ekki þurft að hafa áhyggjur af umhverfisráðuneytinu. Úrskurður Jóns Kristjánssonar, sem margir urðu fljótir til að fagna, er þannig að snúast í andhverfu sína. Forysta Framsóknarflokksins er áfram í aðalhlutverki sem gerandi en náttúruperlan Þjórsárver er þolandinn. Fylgiskjöl hluti úrskurðar Undirritaður sló strax varnagla við úrskurði
ráðherra eins og sjá má í grein sem birtist
í Morgunblaðinu 15. febrúar 2003. Athugasemdir mínar
vörðuðu aðallega veitulónið norðan Arnarfells
sem samkvæmt úrskurðinum er heimilað sem “mótvægisaðgerð”.
Ég sá þá ekki fyrir þau dæmalausu
heimskupör ábyrgðarmanna Landsvirkjunar, sem nú
eru komin á daginn, þar sem fyrirtækið ráðgerir
að hækka stíflumannvirki við Norðlingaöldu
og tvöfalda stærð lónsins syðst í verunum
umfram það sem settur umhverfisráðherra kynnti 30.
janúar síðastliðinn. Leikur að eldi Í ljósi umrædds úrskurðar er það fádæma bíræfni af hálfu Landsvirkjunar að vinna að þeirri útfærslu sem nú hefur sett Þjórsárveramál í uppnám á nýjan leik. Talsmenn fyrirtækisins, með stjórnarformanninn í fararbroddi, virðast hvorki gera sér grein fyrir réttarstöðu sinni í málinu né hvað skynsamlegt sé fyrir fyrirtækið að aðhafast í ljósi almannaálits. Svo gæti farið að þessi síðasti leikur Landsvirkjunar að eldi leiði til þess að allar fyrirliggjandi hugmyndir um virkjunarframkvæmdir í Þjórsárverum og grennd verði afskrifaðar. Taki ráðherrar Framsóknarflokksins ekki í taumanna á meðan þeir enn sitja að völdum, hlýtur að reyna á frekari málsmeðferð og réttarstöðu í kjölfar alþingiskosninga. Hjörleifur Guttormsson |