Hjörleifur Guttormsson | 7. nóvember 2003 |
Umdeildar erfðabreytingar Hálf öld er nú liðin frá því Watson og Crick birtu í tímaritinu Nature niðurstöðu rannsókna sinna um sameindabyggingu kjarnsýra og DNA. Með því laukst upp nýr heimur sem skýrði efnafræðilega það sem forgöngumenn erfðafræðinnar allt frá Mendel höfðu séð vísbendingar um með öðrum aðferðum. Kynblöndun og kynbætur innan nytjategunda höfðu þá lengi verið stundaðar án þess að fræðilegur skilningur væri til staðar. Með DNA-módeli sínu opnuðu þeir Watson og Crick hins vegar nýja sýn á samskonar byggingu allra lífvera og um leið til þróunar lífsins og skilnings á breytileika þess. Mikið hefur síðan gerst í rannsóknum og hagnýtingu undir merkjum erfðatækni, m. a. með færslu erfðaefnis milli lífvera síðustu tvo áratugi. Tilkoma erfðabreyttra lífvera (GMOs) og kortlagning á erfðaefni mannsins (Human Genome Project) eru vörður á þeirri leið. Á sama skeiði hefur komið til klónun og þótt hún varði ekki erfðabreytingar heldur framleiðslu (kópíur) einsleitra lífvera er margt sameiginlegt þegar kemur að siðrænum viðhorfum og hugsanlegum áhrifum á umhverfið. Böl eða blessun Mikil umræða hefur verið um erfðabreyttar lífverur og hagnýtingu þeirra víða í Evrópu, m. a. á Norðurlöndum utan Íslands, og harðar deilur staðið milli Bandaríkjanna annars vegar og Evrópusambandsins hins vegar um viðskipti með afurðir erfðabreyttra lífvera. Hérlendis hefur ríkt ótrúleg þögn um þessa hluti af hálfu fjölmiðla og almannasamtaka og stingur það mjög í stúf við nágrannalöndin. Hollustuvernd ríkisins og nú matvælasvið Umhverfisstofnunar hefur sýnt jákvæða viðleitni til að fræða og svara fyrirspurnum á þessu sviði, en eftirspurnin er að þeirra sögn ekki mikil. Ætti þó ekki síður að vera ástæða fyrir almenning hérlendis að fylgjast með og veita stjórnvöldum aðhald á grundvelli upplýstrar umræðu. Sviðið er vítt og óvissuatriði fjölmörg sem gera það brýnt að menn haldi vöku sinni. Sérstaklega skortir á að af stjórnvalda hálfu sé haldið upp virkri fræðslu sem lúti að málasviðinu öllu og að hlutlæg fræðsla um grundvallarþætti sé veitt í skólakerfinu. Lögum ekki framfylgt Alþingi setti á árinu 1996 lög um erfðabreyttar lífverur (nr. 18/1996) og eru þau enn í gildi. Við lagasetninguna var horft til tilskipana Evrópusambandsins og laga á öðrum Norðurlöndum, en málið einnig metið sjálfstætt af umhverfisnefnd þingsins. Inn í íslensku löggjöfina voru teknir þættir sem vöktu athygli erlendis, m. a. um siðferðileg álitaefni sem hafa beri hliðsjón af við ákvarðanir um sleppingu og dreifingu erfðabreyttra lífvera og afurða þeirra. Þá kveða lögin (6. gr.) á um sérstaka ráðgjafanefnd. Um hana segir m. a.: “Nefndin skal veita umsagnir samkvæmt lögum þessum auk þess sem hún skal veita eftirlits- og framkvæmdaraðilum ráðgjöf um framkvæmd laganna og beita sér fyrir fræðslu um erfðabreytingar. ... Við skipan í nefndina skulu m. a. höfð í huga tengsl við sérfræðistofnanir í náttúrufræði og siðfræði.” Í reglugerð sem sett var um nefndina segir m. a. að hlutverk hennar sé að beita sér fyrir fræðslu um erfðabreytingar. Nefnd þessi var sett á fót af umhverfisráðherra á árinu 1998 og hefur hún sinnt umsagnaskyldu og fleira. Hins vegar hefur henni ekki verið gert fjárhagslega kleift að sinna fræðsluskyldu gagnvart almenningi, skólakerfi og fjölmiðlum. Þannig eru lagafyrirmæli brotin og einn þýðingarmesti þáttur í hlutverki nefndarinnar að engu gerður. Hættumerkjum fjölgar stöðugt Lengi vel voru áberandi staðhæfingar með tilvísun
í einstakar rannsóknir um að ótti margra gagnvart
hagnýtingu erfðabreyttra lífvera væri ástæðulaus.
Hér væri þvert á móti lagt inn á
svið sem fæli í sér ótal möguleika,
ekki síst við framleiðslu matvæla og sem reynst gæti
drjúgur liðsauki við að bægja hungurvofunni frá
stækkandi mannkyni. Í Bandaríkjunum er framleiðsla
erfðabreyttra matvæla orðin stóriðnaður og
þar hefur fjölþjóðafyrirtækjum tekist
að halda áhyggjum neytenda í lágmarki. Öðru
máli gegnir um Evrópu, þar sem tortryggni fólks
gagnvart erfðabreyttri fæðu hefur verið til staðar
frá upphafi og stjórnmálamenn verið knúðir
til að nálgast sviðið af varúð. Þannig
hefur bandarískum framleiðsluvörum verið haldið
frá ESB-markaði og auðhringar eins og bandaríska
fyrirtækið Monsanto orðið að láta í
minnipokann þrátt fyrir gífurlegan fjáraustur.
Tengjast því ófá hneykslismál. Áhrif einkaleyfa og markaðsvæðingar Ekki er minnstur sá þáttur erfðatækninnar
sem tengist viðleitni fjölþjóðafyrirtækja
til að komast yfir einkaleyfi á sem flestum lífverum
og huganlegum erfðabreyttum afurðum þeirra, m. a. útsæði
nytjategunda. Í þessu skyni hafa fyrirtæki á
Vesturlöndum undanfarið kembt kerfisbundið lífríkið,
ekki síst í þróunarlöndum. Sama eðlis
er kapphlaup fyrirtækja um einkaleyfi á erfðamengi mannsins.
Nóbelsverðlaunahafinn í læknisfræði
2002, Bretinn John Sulton, er í hópi margra sem mælt
hafa sterk varnaðarorð gegn viðleitni fyrirtækja til
að fá einkaleyfi á erfðavísum mannsins í
stað þess að líta á erfðamengi manna og
lífvera almennt sem sameiginlega auðlind (public domain), opna
öllum til rannsókna á grundvelli alþjóðlegra
reglna. Rökin ættu að vera auðsæ, en skriða
markaðsvæðingar er þung og óvissa um niðurstöðu.
Hjörleifur Guttormsson |