Hjörleifur Guttormsson 7. nóvember 2003

Ávarp á landsfundi VG

Fundarstjóri, góðir félagar.

Ég fagna því að sjá svo mörg ný andlit á þessum fundi og get tekið undir með mörgum sem talað hafa á undan mér í þessum umræðum.

  • Fyrir tveimur árum skreytti mynd af Langasjó baksvið landsfundar okkar. Fyrir marga var þessi sviðsmynd ný upplifun. Þá þegar var ljóst að Landsvirkjun ætlaði sér að nýta Langasjó undir miðlun frá Skaftá. Nú hefur þessi hætta færst nær. Því fagna ég framkominni tillögu að ályktun um Langasjó.
  • Hliðstæður við Langasjó, þótt einstæður sé sem náttúruperla, eru margar á hálendi Íslands, og hættan af náttúruspjöllum minnkar ekki við að fleiri verða um hituna en Landsvirkjun, - líklega vex ásóknin í að virkja í þágu stóriðju til muna með nýjum raforkulögum.
  • Á Austurlandi eru í fullum gangi mestu náttúruspjöll Íslandssögunnar og ég óttast að þar séu einnig framundan einhver mestu félagsleg afglöp sem unnin hafa verið í þessu landi með byggingu risaálvers á Reyðarfirði.
  • Ásóknin í náttúruauðlindirnar vex með hverju ári sem líður, ekki bara til landsins heldur einnig til sjávarins, með hörmulegum afleiðingum. Öll varúðarsjónarmið eru brotin eða sniðgengin í sókn eftir skyndigróða og til að bæta eldsneyti á hagvaxtarkvörnina. Sífellt harðari sókn í fiskistofna með óvæginni tækni, laxeldi í sjó án tillits til erfðamengunar og sjúkdómahættu, innflutningur framandi tegunda án tillits til skaðlegra áhrif á það vistkerfi sem fyrir er.
  • Meinvætturin sem gerist æ nærgöngulli við umhverfi okkar og menningu er ávöxtunarkrafa kapítalsins um skjóttekinn gróða án tillits til afleiðinga fyrir heildina, samfélag okkar og jörðina alla. Þessi ófreskja vegur ekki síst að fjölbreytni og sveigjanleika sem er þó skilyrði fyrir aðlögunarhæfni að breyttum skilyrðum, bæði í umhverfi og efnahagslífi.
  • Mengun lofthjúpsins og loftslagsbreytingar af mannavöldum eru afleiðingar lífshátta sem ganga æ harðar að auðlindum jarðar. Veislan á Vesturlöndum er borin uppi af olíu, sjóði sem lífverur fyrri tíma skildu eftir í jarðlögum. Afleiðingar þessarar mengunar minna á sig með sívaxandi hamförum í veðurfari og hækkun meðalhita sem veldur grundvallarbreytingum á lífsskilyrðum á stórum svæðum. Því er haldið að þjóð okkar sem fyrrum þurfti að berja sér til hita, að þessar breytingar verði líklega bara til bóta. Um hitt er minna rætt að afleiðingarnar við Norður-Atlantshaf geta orðið þveröfugar, birst m. a. í breytingu á hafstraumum og kuldaskeiði með framgangi jökla.
  • Innrás Bandaríkjamanna og Breta í Írak, þvert á stofnskrá Sameinuðu þjóðanna og alþjóðalög, lýtur fyrst og fremst að því markmiði að halda áfram olíuveislunni heima fyrir. Á sama tíma skerast Bandaríkin úr leik á æ fleiri sviðum í alþjóðlegu samstarfi og hafna m. a. Kyótóbókuninni. Þessa stefnu hafa íslensk stjórnvöld stutt með ráðum og dáð. Íslenska ríkisstjórnin setti það skilyrði fyrir aðild að Kýótóbókuninni frá upphafi að Ísland fengi sérstaka heimild til að stórauka losun gróðurhúsaloftegunda. Og Írak-stríðið nýtur óskoraðrar velvildar íslensku ríkisstjórnarinnar og þeirra flokka sem að henni standa.
  • Í reynd er það aðeins einn stjórnmálaflokkur hérlendis, Vinstrihreyfingin grænt framboð, sem heldur uppi merki umhverfisverndar og andæfir gegn stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar. Samfylkingin er ekki ekki einu sinni hálfvolg í þessum efnum heldur réttir ríkisstjórninni æ ofan í æ hjálparhönd við óhæfuverk.
  • Það er umhugsunarefni fyrir okkur á þessum fundi, að innan við 10% þjóðarinnar veittu málstað okkar stuðning í alþingiskosningunum sl. vor. Þar komust ýmis helstu baráttumál flokks okkar ekki að sem skyldi í kosningabaráttu sem háð var fyrir Potemkin-tjöldum og einkenndist af ómerkilegum yfirboðum flokka, sem nú eru á harðahlaupum frá kosningaloforðunum. Skeleggur málflutningur þingmanna okkar allt síðasta kjörtímabil og skýr kosningastefnuskrá féll í skuggann af siðlausum yfirboðum stjórnarflokkanna og sjónhverfingum Samfylkingarinnar.
  • Eitt brýnasta verkefni okkar í Vinstrihreyfingunni grænu framboði er að koma málstað okkar á framfæri við almenning með skýrari hætti en hingað til. Velferð og jöfnuður á sér öruggan sess í stefnu okkar og starfi og sama máli gegnir um umhverfisvernd. Veruleg þörf er hins vegar fyrir að dýpka umhverfisumræðuna og samþætta hana stefnu og störfum flokks okkar á öllum sviðum. Ágreiningsefnin við aðra flokka eru mörg og fara vaxandi fremur en hitt. Kárahnjúkadeilan er okkur í fersku minni. Almenningur þarf að sjá baráttu okkar og andóf í einstökum málum sem hluta af heildstæðri stefnu, skýrri framtíðarsýn sem mótast af langsæjum sjónarmiðum.
  • Lífvænlegt umhverfi og jöfnuður lífskjara eru tvær hliðar á sama teningi. Gegn hvorutveggja er stefnt með ofneyslu, sólund og misskiptingu, sem setur mark sitt á ríkjandi lifnaðarhætti á Vesturlöndum.
  • Átakaefnum á alþjóðavísu hefur ekki fækkað nema síður sé eftir að kalda stríðinu lauk. Hnattvæðing á forsendum fjármagnsins setur mark sitt á flesta þætti alþjóðamála og yfirburðir eins heimsveldis sem ekkert virðist heilagt. En þrátt fyrir ægimátt auðhringa og hátæknivopn berst alþýða manna víða um lönd fyrir réttlæti, gegn siðspilltum valdhöfum og misskiptingu. Gerjun er víða m. a. í Rómönsku-Ameríku, þeim bakgarði sem Bandaríkin hafa talið sig eiga rétt á að yrkja ein.
  • Góðir fundarmenn. Kjörorð þessa landsfundar - réttlæti án landamæra - fellur vel að þeirri heimssýn sem við viljum varðveita. Fyrir utan þróunaraðstoð sem risið geti undir nafni fylgjum við slíku kjörorði best eftir með því að efla jöfnuð og réttlæti í eigin landi, og verja dýrmætan sjálfsákvörðunarrétt þjóðarinnar. Heimurinn allur á að vera okkar samstarfsvettvangur, en næst okkur standa þó grannþjóðirnar, Grænlendingar og Færeyingar, sem deila með okkur örlögum við ysta haf.
  • Í fornsögu stendur: “Eigi skal skuturinn eftir liggja ef allvel er róið í fyrirrúminu”. Það er mál manna í okkar eigin flokki og meðal pólitískra andstæðinga að Vinstrihreyfingin grænt framboð búi að traustri forystu. Við hin sem nær sitjum skutnum þurfum einnig að róa vel. Þá mun siglingunni vel borgið og þeim málstað sem við vitum bestan.

 

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim