Hjörleifur Guttormsson 8. maí 2003

Umhverfismálin og kjördagurinn

Minnisvarði Kárahnjúkaflokkanna

Á liðnu kjörtímabili hafa staðið yfir mestu deilur Íslandssögunnar um ráðstöfun og meðferð lands. Minnisvarði ríkisstjórnar þeirra Davíðs og Halldórs verða stóriðjuframkvæmdirnar á Austurlandi sem til samans leiða af sér mestu náttúrufarslega- og samfélagslega röskun sem íslenskir valdsmenn hafa leitt yfir þjóðina. Ákvörðunin er jafnframt storkun við lýðræði, þar sem hún er tekin rétt fyrir kosningar og þjóðinni meinað að skera úr í allsherjaratkvæðagreiðslu. En stjórnarflokkarnir eru ekki einir ábyrgir því að stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn Samfylkingin greiddi atkvæði bæði með Kárahnjúkavirkjun og risaálveri á Reyðarfirði og fékkst ekki einu sinni til að styðja þjóðaratkvæði um málið á lokastigi samhliða alþingiskosningum. Vinstrihreyfingin grænt framboð var eini flokkurinn sem heill og óskiptur beitti sér gegn þessum ákvörðunum á grundvelli markaðrar stefnu. Stóriðjuframkvæmdirnar sem kosta hundruðir miljarða munu setja mark sitt á efnahagslíf í landinu allt næsta kjörtímabil, kalla á niðurskurð og samdrátt á flestum öðrum sviðum, bæði hjá ríki og sveitarfélögum, og jafnframt leiða til almennra vaxtahækkana.

Umhverfisráðherrann sem brást

Framganga Sivjar Friðleifsdóttur sem ráðherra umhverfismála er einstök raunasaga. Umhverfismál í landinu hafa goldið þess í þrjú kjörtímabil, eða frá því að loks var stofnað sérstakt ráðuneyti um málasviðið 1990, að vera í höndum flokka sem sáralítinn skilning hafa á umhverfismálum og hafa því orðið hornreka. Forveri Sivjar á ráðherrastóli tók jafnframt að sér landbúnaðarráðuneytið og varð það honum fjötur um fót. Núverandi umhverfisráðherra samsamaði sig frá byrjun stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar og lét þannig afvopna sig fyrirfram. Úrskurðir hennar vegna mats á umhverfisáhrifum eru þessu marki brenndir og er þar skelfilegastur úrskurðurinn vegna Kárahnjúkavirkjunar í árslok 2001. Bullið í ráðherranum þegar kemur að því að verja frammistöðu sína í Kyótóferlinu og “íslenska ákvæðið” sýnir betur en flest annað virðingarleysi fyrir þeim vanda sem að steðjar vegna loftslagsbreytinga. Flest annað er eftir þessu svo sem fjársvelti í brýnum umhverfismálum sem stungið var í eina stofnun með hraði við lok kjörtímabils.

Örlagatímar fyrir náttúruvernd

Átökin um landnýtingu á hálendi Íslands hafa að undanförnu leyst úr læðingi krafta sem stjórnvöld hefðu betur tekið mark á. Andmælin gegn Kárahnjúkavirkjun og lýðhreyfingin til verndar Þjórsárverum á sér enga hliðstæðu. Baráttan gegn tillitsleysi við náttúru landsins hefur náð inn í flesta kima samfélagsins og vekur vonir um breytta tíma. Málstaður umhverfis- og náttúruverndarsamtaka, sem af núverandi stjórnvöldum er stimplaður sem öfgar, hefur fengið hljómgrunn og stuðning meðal almennings sem aldrei fyrr. Forsenda raunverulegra umskipta er hins vegar gjörbreytt stjórnarstefna og málsvarar í stjórnkerfinu með víðtækan skilning á umhverfisvernd. Slík umskipti verða ekki borin fram af flokkunum sem studdu ákvörðunina um Kárahnjúkavirkjun. Fólk sem lætur sig varða náttúru- og umhverfisvernd og framtíð óbyggðanna mun áreiðanlega vanda val sitt þegar kemur í kjörklefann 10. maí.

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim