Hjörleifur Guttormsson | 9. desember 2003 |
Brotalamir í löggjafarstarfi Ummæli lagaprófessors Eðlilega vekur athygli hversu oft Hæstiréttur Íslands hefur á síðustu árum kveðið upp dóma sem fela í sér að nýlega sett lög gangi í berhögg við ákvæði stjórnarskrárinnar. Í viðtali í Sjónvarpinu 3. desember sl. ræddi Davíð Þór Björgvinsson prófessor um þetta efni, taldi óheppilegt að Hæstiréttur lenti í tíðum árekstrum við löggjafar- og framkvæmdavald í viðkvæmum málum og varpaði fram spurningu um hvort afstaða dómara hérlendis væri á skjön við það sem gerðist á öðrum Norðurlöndum, þar sem löggjafarvaldið fái meira svigrúm. Prófessorinn nefndi réttilega að ein skýringin á þessum tíðu dómum gæti verið sú að löggjöf hérlendis sé óvandaðri en annars staðar á Norðurlöndum. Hins vegar fjallaði hann ekki nánar um það atriði en leitaði frekar annarra skýringa. Alþingi skortir frumkvæði Undirritaður átti í tvo áratugi sæti á
Alþingi og undraðist þá oft hvernig hendi var kastað
til löggjafarstarfs, sem ætti þó að vera eitt
helsta verkefni þingsins. Hér hefur lengi ríkt sú
hefð að yfirgnæfandi meirihluti lagafrumvarpa berist þinginu
frá Stjórnarráðinu þar sem þau eru
samin af embættismönnum eða stjórnskipuðum nefndum
í umboði ráðherra. Oft koma þessi frumvörp
seint fram en mikil áhersla oftast lögð á það
af ríkisstjórn og einstökum ráðherrum að
fá þau fljótt afgreidd. Þingið sjálft
á sárasjaldan frumkvæði að meiriháttar
löggjöf og til undantekninga telst að frumvörp lögð
fram af einstökum þingmönnum öðlist lagagildi.
Óhagstæður samanburður Alþingi kemur illa út úr samanburði við þjóðþing
annarra Norðurlanda. Menn þurfa ekki lengra en til Noregs til
að sjá hvert himin og haf er á milli undirbúnings
að mótun löggjafar þar og hér á landi.
Á það bæði við um undirbúning að
löggjöf í ráðuneytum og málsmeðferð
í Stórþinginu. NOU-greinargerðirnar norsku tala
þar sínu máli. Stórþingið er heldur
ekki undir hælnum á framkvæmdavaldinu með sama
hætti og Alþingi, sem best sést af því
að ráðherrar í Noregi hafa ekki atkvæðisrétt
í þinginu. Hjörleifur Guttormsson |