Hjörleifur Guttormsson 9. desember 2003

Brotalamir í löggjafarstarfi

Ummæli lagaprófessors

Eðlilega vekur athygli hversu oft Hæstiréttur Íslands hefur á síðustu árum kveðið upp dóma sem fela í sér að nýlega sett lög gangi í berhögg við ákvæði stjórnarskrárinnar. Í viðtali í Sjónvarpinu 3. desember sl. ræddi Davíð Þór Björgvinsson prófessor um þetta efni, taldi óheppilegt að Hæstiréttur lenti í tíðum árekstrum við löggjafar- og framkvæmdavald í viðkvæmum málum og varpaði fram spurningu um hvort afstaða dómara hérlendis væri á skjön við það sem gerðist á öðrum Norðurlöndum, þar sem löggjafarvaldið fái meira svigrúm. Prófessorinn nefndi réttilega að ein skýringin á þessum tíðu dómum gæti verið sú að löggjöf hérlendis sé óvandaðri en annars staðar á Norðurlöndum. Hins vegar fjallaði hann ekki nánar um það atriði en leitaði frekar annarra skýringa.

Alþingi skortir frumkvæði

Undirritaður átti í tvo áratugi sæti á Alþingi og undraðist þá oft hvernig hendi var kastað til löggjafarstarfs, sem ætti þó að vera eitt helsta verkefni þingsins. Hér hefur lengi ríkt sú hefð að yfirgnæfandi meirihluti lagafrumvarpa berist þinginu frá Stjórnarráðinu þar sem þau eru samin af embættismönnum eða stjórnskipuðum nefndum í umboði ráðherra. Oft koma þessi frumvörp seint fram en mikil áhersla oftast lögð á það af ríkisstjórn og einstökum ráðherrum að fá þau fljótt afgreidd. Þingið sjálft á sárasjaldan frumkvæði að meiriháttar löggjöf og til undantekninga telst að frumvörp lögð fram af einstökum þingmönnum öðlist lagagildi.
Mér hefur virst sem meirihluti þingmanna hafi ekki mikinn metnað þegar kemur að mótun löggjafar, stjórnarþingmenn flestir eftirláti framkvæmdavaldinu veg og vanda á því sviði og telji skyldur sínar þær helstar “að koma málum í gegn”. Þrátt fyrir bætta starfsaðstöðu þingmanna og sérfræðiaðstoð við þingnefndir hefur ekki orðið sú breyting til batnaðar sem vera þyrfti.
Umræddir hæstarréttardómar ættu að vera sérstakt tilefni fyrir Alþingi að athuga sinn gang. Í starfsháttum þingsins og ósjálfstæði gagnvart framkvæmdavaldinu er að mínu mati að finna helstu skýringar á því að ýmsis lagaákvæði hafa ekki staðist skoðun dómstóla.

Óhagstæður samanburður

Alþingi kemur illa út úr samanburði við þjóðþing annarra Norðurlanda. Menn þurfa ekki lengra en til Noregs til að sjá hvert himin og haf er á milli undirbúnings að mótun löggjafar þar og hér á landi. Á það bæði við um undirbúning að löggjöf í ráðuneytum og málsmeðferð í Stórþinginu. NOU-greinargerðirnar norsku tala þar sínu máli. Stórþingið er heldur ekki undir hælnum á framkvæmdavaldinu með sama hætti og Alþingi, sem best sést af því að ráðherrar í Noregi hafa ekki atkvæðisrétt í þinginu.
Því er svo við að bæta að engir af nefndum hæstaréttardómum hefðu þurft að koma mönnum á óvart, síst af öllu lögfræðiprófessorum. Í mörgum tilvikum vöruðu talsmenn stjórnarandstöðuflokka á Alþingi eindregið við að viðkomandi lagasetning stangaðist á við stjórnarskrárvarin ákvæði. Þetta átti m. a. við um stjórnun fiskveiða, málefni öryrkja og gagnagrunn á heilbrigðissviði. Hæstiréttur hefur í reynd orðið sú réttarvörn í málefnum borgaranna gegn ofríki framkvæmdavalds og hirðuleysi löggjafans sem honum ber. Án dóma hans að undanförnu væri lýðræðinu verr komið en ella. Árangursríkasta leiðin til að fækka slíkum dómum er að Alþingi taki lagasetningarvald sitt alvarlega.


Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim