Hjörleifur Guttormsson 10. febrúar 2003

Þjórsárver og veitulón norðan Arnarfells

Undirritaður var einn af þeim 11 aðilum sem kærðu til umhverfisráðherra fráleitan og mótsagnakenndan úrskurð Skipulagsstofnunar um Norðlingaölduveitu í Þjórsárverum (sjá eldra efni, vettvangsgreinina Þjórsárveraraunir Skipulagsstofnunar, 14. ágúst 2002). Í kærunni gerði ég kröfu um að ráðherra ómerkti úrskurð stofnunarinnar og hafnaði Norðlingaölduveitu, en til vara að úrskurðurinn yrði felldur úr gildi og stofnuninni verði falið að meta framkvæmdina lögum samkvæmt. Þessar kröfur rökstuddi ég með greinargerð.
Úrskurður umhverfisráðherra liggur nú fyrir og barst mér með bréfi dags. 30. janúar 2003. Margt má um úrskurðinn og aðdraganda hans segja en ég mun að þessu sinni takmarka mig við örfá atriði.

Aðhald almennings, mótmæli og kærur

Eins og mörg önnur framkvæmdaáform hafa tillögur Landsvirkjunar um Norðlingaölduveitu hlotið mikla athygli og umfjöllun, meðal annars vegna þess ferlis sem markað er með lögum um mat á umhverfisáhrifum. Skipulagsstofnun bárust um 90 athugasemdir á lögboðnum kynningartíma og 11 aðilar kærðu síðan úrskurð stofnunarinnar til ráðherra. Áhugahópur um verndun Þjórsárvera, að drjúgum hluta borinn uppi af fólki í uppsveitum Suðurlands, stóð fyrir fjölda funda og aðgerða til að vekja athygli á málstað sínum, þar á meðal fundi í Austurbæjarbíó sem sóttur var af um 900 manns. Þessi varðstaða áhugafólks um náttúruvernd hafði mikil áhrif og óhætt er að fullyrða að niðurstaða setts stjórnvalds í málinu hefði orðið önnur og verri hefði almenningur ekki látið til sín heyra. Hinar formlegu kærur voru líka algjör forsenda þess að ráðherra varð að fara yfir málið og kveða upp sinn úrskurð. Hefði enginn kært sætum við nú uppi með úrskurð Skipulagsstofnunar sem endanlega niðurstöðu á stjórnvaldsstigi.

Mikilvægur varnarsigur

Þótt settur umhverfisráðherra hafi ekki orðið við kröfum kærenda um að ógilda úrskurð Skipulagsstofnunar í heild sinni og hafna Norðlingaölduveitu, er niðurstaða hans langtum skárri í umhverfislegu tilliti en verið hefði, ef niðurstaða Skipulagsstofnunar hefði staðið óbreytt. Friðlýsta svæðið í Þjórsárverum má samkvæmt honum ekki skerða með virkjunarframkvæmdum og um leið er tekið tillit til alþjóðlegra skuldbindinga. Þetta ætti út af fyrir sig ekki að teljast til tíðinda, en jákvæð viðbrögð við niðurstöðu ráðherrans endurspegla hversu lítið traust menn bera til stjórnvalda þegar náttúruvernd er annarsvegar. Eftir stendur, að Norðlingaölduveita samkvæmt úrskurði ráðherrans kemur til með að hafa margvísleg neikvæð áhrif á umhverfi Þjórsárvera og hins friðlýsta svæðis. Þannig gengur hún þvert á æskilega stækkun friðlandsins, setur mark sitt sjónrænt á svæðið, kann að beina þangað óæskilegri umferð og trufla fuglalíf og skerðir óhjákvæmilega rennsli í fossum. Langsamlega tvísýnastur sýnist mér úrskurður ráðherrans að því er varðar nýja Kvíslaveitu undir nafni setlóns nyrst á svæðinu, bæði vegna umhverfisáhrifa og fordæmisgildis, þar sem þessu veitulóni er smokrað inn sem “mótvægisaðgerð” í skilningi laga nr. 106/2000. Í formgerð úrskurðarins eru þannig atriði, sem reynst geta afdrifarík við umfjöllun og úrskurði um aðrar framkvæmdir síðar, þar eð hér er verið að breyta inntaki laga á afar umdeilanlegan hátt.

Veitulónið norðan Arnarfells

Í matsskýrslu Landsvirkjunar sem almenningur gat gert athugasemdir við voru engar tillögur settar fram um setlón norðan Arnarfells þótt í skýrslunni hafi verið bent á lón þar og fyrirhleðslugarða neðar sem hugsanlegar mótvægisaðgerðir. Tillaga um setlón sem hluta af framkvæmdinni mótaðist fyrst síðar í meðförum Skipulagsstofnunar og þá án þess að almenningi gæfist kostur á andmælum. Í úrskurðarorðum Skipulagsstofnunar var síðan beinlínis mælt fyrir um að gert skuli setlón, vestan við Þjórsárlón (norðan Arnarfells) allt að 2,7 km2 að stærð, og þá miðað við 575 m lónshæð í Norðlingaölduveitu. Þar var hins vegar hvergi minnst á veitu frá þessu lóni. Þetta setlón var mikið gagnrýnt af þeim sem kærðu úrskurð Skipulagsstofnunar til ráðherra, sem og af fjölmörgum öðrum, m. a. vegna sjónrænna áhrifa og áfokshættu. Nú gengur þessi niðurstaða úr úrskurði Skipulagsstofnunar hins vegar aftur í ráðherraúrskurðinum, en þar sem stærri framkvæmd og sjálfstæð veita til Þjórsárlóns og Þórisvatns, ígildi Kvíslaveitu 6. Ekki einu sinni Landsvirkjunarmenn létu sér til hugar koma að leggja til slíka veituframkvæmd sem “mótvægisaðgerð”, þar eð hún hlyti að kalla á sérstakt mat á umhverfisáhrifum. Þetta hefur forstjóri Landsvirkjunar ítrekað sagt eftir að úrskurður ráðherrans lá fyrir 30. janúar sl..

Ólögmæt hagkvæmnirök

Þegar lesinn er úrskurður ráðherrans og sú útfærsla sem hann byggir á, þ. e. forathugun Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsens (VST), blasir við að afar veik, óljós og mótsagnakennd rök eru fyrir “setlóni” norðan Arnarfells með veitu til Þjórsárlóns. Staðhæft er í niðurstöðu ráðherrans (bls. 37 í úrskurði) að þetta lón sé “nauðsynlegt til þess að auðvelda aurskolun í Norðlingaöldulóni. Jafnframt mun setlónið og leiðigarðar að því draga verulega úr flóðum í Þjórsárverum.” Þetta er röksemdafærsla ráðherrans fyrir þessari stórframkvæmd norðan Arnarfells sem “mótvægisaðgerð”. Þegar litið er til fylgiskýrslu með úrskurðinum, þ. e. forathugunar VST, kemur hins vegar í ljós (bls. 9-11 og 14) að hagkvæmnirök fyrir setlóninu eru þar í fyrirrúmi. Samkvæmt úrskurði ráðherra um Kárahnjúkavirkjun var hagkvæmnirökum hins vegar hafnað sem hluta af mati á umhverfisáhrifum og vísar settur ráðherra líka sérstaklega til þess í sínum úrskurði (bls. 36). Þrátt fyrir það segir í skýrslu VST að með veitusetlóninu sé verið að “bæta hagkvæmni tillögunnar” sem ella væri ónóg.
Í “Niðurstöðu athugana” VST segir orðrétt (bls. 14): “Ef tryggja á hagkvæmni þarf ennfremur samhliða Norðlingaölduveitu með lóni í 566 m y. s. að byggja stækkað setlón og veita hluta vatns úr því til Þjórsárlóns og þaðan til Kvíslaveitu og veita hinum hluta þess á yfirfalli á stíflu setlóns til þess að halda lágmarksvatni í kvíslunum sem renna þaðan. Setlónið er jafnframt nauðsynlegt vegna þeirrar óvissu sem eðlilega ríkir um árangur aurskolunar úr Norðlingaöldulóni í 566 m y. s., þar sem um 35% aursins verður eftir í setlóni. Ennfremur er hagstætt [sic!] að minnka ágang jökulkvíslanna á verin neðan setlónsins. Þessi tilhögun gefur áætlaðan orkukostnað sem er 0-8% hærri en orkukostnaður í 575 m y. s. eingöngu”.
Af lestri um aurburð í sömu skýrslu (kafla bls. 7-8) verður ekki séð að “óvissa sem eðlilega ríkir um árangur” aurskolunar sé mikil, enda sérstaklega bent á það af VST “að lón af þessari stærð og lögun [Norðlingaöldulón við 566 m hæð] hentar vel til aurskolunar ... Aurskolun úr lóninu er því talin tæknilega möguleg án þess að hafa nein teljandi áhrif á orkugetu veitunnar.” (bls. 7). Þetta segir VST og gerir í þessu samhengi engan fyrirvara um gerð “setlóns” nyrst í verunum. Síðasta röksemdin fyrir slíku lóni “að minnka ágang jökulkvíslanna á verin neðan setlónsins” styðst að mínu mati ekki við gild náttúruverndarsjónarmið og er því engan veginn frambærileg sem “mótvægisaðgerð”.

Hættulegt fordæmi

Með úrskurðum umhverfisráðherra almennt í kærumálum vegna mats á umhverfisáhrifum er ekki aðeins verið að setja forskrift um viðkomandi framkvæmd heldur oft einnig verið að túlka og gefa fordæmi sem getur orðið bindandi viðmiðun í úrskurðum framvegis. Réttmæti slíkra túlkana fer eftir efni máls. Dæmi um slíkar lagatúlkanir sáum við m. a. í úrskurði Guðmundar Bjarnasonar um Grundartangaframkvæmdir 1996 þar sem hann sem ráðherra hafnaði því sjónarmiði Skipulagsstofnunar að líta bæri heildstætt á hverja stóriðjuframkvæmd, orkuöflun, raflínur og verksmiðju. Svipað sáum við öðru sinni í Kárahnjúkaúrskurði Sivjar 2001 þegar því var hafnað, raunar í samræmi við kæru undirritaðs, að efnahagsleg hagkvæmni væri hluti af mati á umhverfisáhrifum. Og nú höfum við úrskurð setts umhverfisráðherra sem gefur veitulóni norðan Arnarfells lagastimpil undir því yfirskyni að um sé að ræða “mótvægisaðgerð” í skilningi laga nr. 106/2000 en ekki sérstaka framkvæmd sem lúta þurfi sjálfstæðu mati. Standi úrskurður ráðherrans óhaggaður að þessu leyti getum við átt von á ótrúlegustu æfingum á þessum grunni í framtíðinni, byggðum á lagatúlkun í nýföllnum úrskurði.
Að mínu mati er sá hluti úrskurðarins sem kveður á um veitulónið norðan Arnarfells óréttmætur sem “mótvægisaðgerð”. Í öðru lagi er þetta veitulón bæði þarflaust í orkupólitísku samhengi og skaðlegt fyrir umhverfi og verndun Þjórsárvera. Því ætti að hverfa frá öllum hugmyndum um lón þetta fyrr en seinna. Að öðru leyti sýnist mér unnt að búa við þennan úrskurð, sem þjóðin getur þakkað þeim mörgu sem staðið hafa vaktina um Þjórsárver fyrr og síðar og ráðherra sem leyfði sér altént þann munað að hlusta og horfa aðeins í kringum sig.

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim