Hjörleifur Guttormsson 10. júlí 2003

Þýskaland á breytingaskeiði

Þrátt fyrir háværa fjölmiðlun og allt tal um heimsþorpið gildir enn að sjón er sögu ríkari. Að baki er þriggja vikna ferðalag um nokkur héruð í Þýskalandi í einstakri veðurblíðu á mælikvarða ferðamanna en alltof þurru fyrir akra og engi. Dvöl í landi færir menn óhjákvæmilega nær vettvangi, þótt ekki sé lengra haldið að heiman en til Mið-Evrópu. Þýskaland er um margt fjarlægara Íslandi en áður var, íslenskir fjölmiðlar ekki ýkja uppteknir af því sem þar er að gerast. Eftir að Derrek leið sjást sjaldan þýskar kvikmyndir í dagskrá íslenskra sjónmiðla.

Hröð uppbygging eftir flóð

Í Dresden og víðar meðfram Saxelfi er mikið að gerast. Því veldur ekki síst hreinsunarstarf og uppbygging eftir flóðin miklu í ágúst í fyrra, einhverjar mestu náttúruhamfarir sem yfir þessi landsvæði hafa dunið. Það er erfitt að gera sér í hugarlund ástandið þegar mest gekk á, miðborgir undir vatni, íbúðarhverfi, járnbrautarstöðvar og listasöfn. Gömul flóðmerki um “Hochwasserstand” sem sjá mátti á byggingum og enginn tók alvarlega fóru á bólakaf í ágúst 2002. Tjónið var gífurlegt en sameiginlegt átak hefur bætt úr því tilfinnanlegasta svo að ferðamaður verður ekki mikið var við afleiðingarnar. Borgaryfirvöld í Pirna sem fór illa út úr flóðunum segja að úr 80% skaðans hafi verið bætt. Í Altstadt í Dresden gengur umferðin hægar en skyldi vegna viðgerða á lögnum og umferðaræðum, en söfnin hafa verið opnuð og almenningsgarðar hreinsaðir. Nú er rætt um að koma á heildstæðri viðlagatryggingu gegn náttúruhamförum sem m. a. byggi á gjöldum á eigendur fasteigna. – En loftslagsbreytingar halda áfram að minna á sig. Að baki er heitasti júnímánuður frá því mælingar hófust á Þýskalandi með tilfinnanlegum þurrkum og tjóni fyrir þá sem landbúnað stunda. Skordýr eins og kólibrífiðrildi sem áður voru sjaldséð sveima nú í hverjum garði, tákn um svörun lífríkisins við breyttum ytri aðstæðum. Í þessum efnum á margt eftir að koma á óvart og fæst af því jákvætt á mælikvarða mannskepnunnar sem hleypt hefur af stað loftslagsbreytingunum með mengun lofthjúpsins.

Menningarminjar og söfn

Meðal þess jákvæða sem mætir auga ferðamannsins er rík viðleitni til að varðveita og sýna menningarminjar. Hæst ber þar endurbyggingu Frúarkirkjunnar í Dresden að frumkvæði almannasamtaka eftir að opinberir aðilar höfðu afskrifað slíkt tiltæki. Í Leipzig stendur yfir viðgerð á Nikulásarkirkjunni, tákni lýðræðisvakningarinnar fyrir 1990. Brautarstöðvarnar gömlu í Nürnberg og Leipzig skarta sínu besta, en báðar þessar borgir tengjast upphafi járnbrautarsamgangna í Mið-Evrópu. Bayerischer Bahnhof í Leipzig er í heild orðin að safni. Í umræddum borgum lifðu sporvagnar af í innanbæjarsamgöngum og nú prísa þeir sig sæla sem ekki köstuðu þeim fyrir róða. Dýragarðar og söfn ganga í endurnýjun lífdaga og nýta möguleika nýrrar tækni. Notendur eru skólaæska, ferðamenn og almenningur. Af áhugaverðum sérsöfnum koma í hug réttarsögusafn frá miðöldum (Kriminalmuseum) í Rothenburg an der Tauber og heimildasafn um Hitlerstímann í Nürnberg, sem var háborg nasistaflokksins. Sögusafnið í Bonn um eftirstríðsárin rekur síðan slóðina til nútíðar.

Gúrkutíðin styttri en heima

Í þýskum fjölmiðlum var gúrkutíð enn ekki skollin yfir í júlíbyrjun. Stjórnmálaumræða er í fullum gangi og hefur mest snúist um ríkisfjármál, skattalækkanir undir því yfirskyni að örva atvinnulíf og lækkun eftirlauna og atvinnuleysibóta. Skráð atvinnuleysi er sem fyrr yfir fjórar miljónir og stöðugt berast fréttir af lokun fyrirtækja, nú síðast var Grundig-samsteypan að pakka saman og missa við það um 40 þúsund manns atvinnu. Verkalýðshreyfingin á í vök að verjast og verkfall í málmiðnaði þar sem knúið var á um 35 stunda vinnuviku í austanverðu landinu rann út í sandinn í júnílok.
Opinbert sumarhlé er langtum styttra í Þýskalandi en við eigum að venjast, þingstörf og skólar enn í fullum gangi í byrjun júlí og stofnanir Evrópusambandsins taka sér fyrst formlegt hlé í ágúst. Ítalía Berlusconis er nýtekin við formennsku á þeim bæ við takmarkaða hrifningu á vinstri væng og meðal græningja. Ítalski forsætisráðherrann sem nýverið hefur knúið fram lög heima fyrir sem veita honum skjól fyrir þarlendum dómstólum minnti nýverið þýska gagnrýnendur sína á Þriðja ríkið. Þannig kallast fortíð og nútíð á yfir Alpafjöll í endurbornu Heilögu rómversku ríki þýskrar þjóðar sem nú er sem óðast að færa út mörk sín í austurátt.


Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim