Hjörleifur Guttormsson 14. mars 2003

Stríð gegn samvisku heimsins

Boðað stríð Bandaríkjanna og Bretlands gegn Írak virðist skammt undan. Það yrði háð í andstöðu við almenningsálitið á Vesturlöndum utan Bandaríkjanna, að ekki sé talað um þriðja heiminn. Innan Bandaríkjanna fer andstaðan gegn árásarstefnu Bushstjórnarinnar einnig vaxandi. Aldrei frá lokum síðari heimsstyrjaldar hefur slík alda fordæmingar risið gegn beitingu vopnavalds og eiga þó í hlut tvö af forysturíkjum NATÓ. Trúarleiðtogar, menningarfrömuðir, rithöfundar, vísindamenn og Nóbelsverðlaunahafar hafa sameinast í andmælum gegn fyrirhugaðri árás á Írak. Um miðjan febrúar tók almenningur undir með þátttöku í fjölmennustu mótmælaaðgerðum sem sést hafa í stórborgum Evrópu í hálfa öld, einnig á Bretlandi og Spáni, þrátt fyrir að Tony Blair og Aznar styðji með ráðum og dáð stríðsstefnuna gegn Írak. Báðir eru þeir í andstöðu við yfirgnæfandi meirihluta fólks í löndum sínum og breski forsætisráðherrann, sem til skamms tíma var átrúnaðargoð krata víða um heim, stendur frammi fyrir uppreisn í eigin flokki. Þetta verður stríð í andstöðu við samvisku og réttlætiskennd fólks um allan heim.

Stjórnmálamenn verkfæri olíuhagsmuna

Eins og alþekkt er þegar um árásarstríð er að ræða er yfirlýstur tilgangur innrásarinnar allur annar en raunveruleg markmið. Barátta gegn hryðjuverkum sem naut verulegs stuðnings eftir árásirnar 11. september 2001 er ekki trúverðug sem tilefni þegar Írak á í hlut. Enginn getur heldur tekið mark á staðhæfingum um að heimsfriðnum stafi hætta af Saddam Hussein og vopnabúnaði Íraka. Boðskapur um að tryggja eigi lýðræði í Írak eftir að núverandi stjórn hefði verið steypt af stóli er heldur ekki sannfærandi í ljósi utanríkisstefnu Bandaríkjanna, sem styðja einræðisstjórnir víða svo fremi þær sýni undirgefni við bandaríska hagsmuni. Meginmarkmiðið með herförinni er að tryggja Bandaríkjunum óheftan aðgang að olíulindum Íraka og yfirráð á Persaflóasvæðinu. Tengsl olíulinda Íraks við beinharða fjárhagslega hagsmuni valdamanna í Washington hafa komið æ betur í ljós að undanförnu. Þannig er Dick Cheney varaforseti Bandaríkjanna nátengdur fyrirtæki sem á að sjá til þess að olíuiðnaðurinn í Írak komist sem fyrst í gang að stríðinu loknu. Fáir efast um að nýting olíulindana verði á forsendum bandarískra auðhringa, úthlutað af leppstjórn sem koma eigi á fót í Bagdad. Nefndir hafa verið 2800 miljarðar Bandaríkjadala árlega í því sambandi, er herkostnaðurinn sé “aðeins” 80 miljarðar dala, hreint smáræði í samanburði við þá bráð sem komast eigi yfir.

Hverjir styðja árás?

Rökin gegn fyrirhuguðum árásum á Írak hafa stöðugt verið að þyngjast. Páfinn hefur verið ómyrkur í máli og lagst eindregið gegn stefnu Bush. Jimmy Carter fyrrverandi forseti Bandaríkjanna og friðarverðlaunahafi hefur lýst stríðsáformunum sem einstöku siðleysi sem vart eigi sér hliðstæðu. Tilraunir Bandaríkjastjórnar til að kaupa fulltrúa í Öryggisráðinu og Tyrki til fylgis við stefnu sína hafa bætt gráu ofan á svart. Andstæða yfirgangsstefnu Bandaríkjanna hefur birst í afstöðu franskra og þýskra stjórnvalda sem til þessa hafa haldið uppi merki skynsemi og hófstillingar. En hver verður í raun afstaða íslensku stjórnmálaflokkanna ef til innrásar dregur í Írak? Aðeins Vinstrihreyfingin - grænt framboð hefur talað skýrt gegn því að sprengjum verði látið rigna yfir þetta hrjáða land. Aðrir flokkar hafa talað óskýrt, ekki aðeins talsmenn ríkisstjórnarinnar heldur einnig Samfylkingin. Formaður hennar eyddi ekki orði að Íraksdeilunni þegar utanríkismál voru til umræðu á Alþingi 27. febrúar sl. Fari svo sem horfir að Bandaríkin og Bretar geri alvöru úr hótunum sínum, hvað sem líður afstöðu Öryggisráðsins, hljóta kjósendur að krefjast þess að íslenskir stjórnmálaflokkar geri skýra grein fyrir hvorn málstaðinn þeir styðja, árás eða viðleitnina til friðsamlegrar lausnar.


Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim