Hjörleifur Guttormsson 14. apríl 2003

Írakstríðið og hlutverk smáríkja

Víðtæk friðarbarátta þarf að fá forgang

Írakstríðinu er að ljúka og eftirleikurinn að hefjast. Þúsundir manna liggja í valnum og efnislegt tjón er ómælt. Í Arabaheiminum og víðar hefur magnast hatrið á risaveldinu sem fer sínu fram hvað sem það kostar. Alþjóðastofnanir hafa verið lítilækkaðar og þeim ýtt til hliðar, alþjóðalög brotin og skipulegri viðleitni til samstöðu gegn hryðjuverkum verið fórnað á altari valdhroka og meintra hagsmuna Bandaríkjanna. Á sama tíma og rætt er um endurreisn Íraks á rústum þess samfélags sem hrundi með einræðisstjórn Saddams Husseins er í Washington farið að undirbúa næstu herför. Ákvörðun Bush um að beita hervaldi í Írak án umboðs Sameinuðu þjóðanna er engin skyndiráðstöfun heldur byggð á hugmyndafræði þeirra sem tryggðu honum völdin. Samkvæmt henni eiga Bandaríkin að fara sínu fram í skjóli hernaðaryfirburða hvað sem hver segir. Írakstríðið var aðeins sýnikennsla í því sem koma skal og í fullu samræmi við einleik Bandaríkjanna á öðrum sviðum á alþjóðavettvangi. Ef ekki tekst að koma böndum á þennan Golíat er dökkt í álinn.

Tveir ákváðu afstöðu Íslands

Það er upplýst að ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að lýsa yfir stuðningi af Íslands hálfu við herförina gegn Írak var tekin af tveimur flokksformönnum, þeim Davíð og Halldóri. Í sögu íslenska lýðveldisins hefur líklega aldrei verið vélað af jafn fáum um utanríkispólitískt stórmál. Halldór utanríkisráðherra hafði ekki fyrir því að kynna utanríkismálanefnd Alþingis hvað til stæði og hvorugur þingflokka stjórnarliðsins var kallaður saman áður en bindandi skilaboð voru send vestur um haf. Áskriftin að stríðinu var þannig tveggja manna verk á sama tíma og skoðanakannanir gáfu til kynna yfirgnæfandi andstöðu þjóðarinnar við aðild að herförinni. Varaformaður Framsóknarflokksins sagði eftir á að utanríkisráðherra hefði staðið að þessu “með sorg í hjarta”, en engin slík skýring barst frá þingflokki eða fjölmennum landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Gamalt íslenskt orðtæki segir að sá sé vinur er til vamms segir. Bandarísku þjóðinni er enginn greiði gerður með því að auðmjúkir þjónar hérlendir kyssi á vönd valdamanna vestra. Þvert á móti ríður á að sem flestir sameinist um að koma Bandaríkjamönnum í skilning um að einleikur þeirra leiði til ófarnaðar fyrir þá eins og heimsbyggð alla.

Friðarbarátta hafi forgang

Íslendingar sem aðrir þurfa að gera upp við sig hvort þeir ætla til frambúðar að fylgja formönnunum staðföstu, Davíð og Halldóri, eða leggjast á aðra sveif. Stríðið gegn Írak leysti úr læðingi kröftug andmæli almennings um allan heim. Friðsamleg mótmæli milljóna af ólíku litarafti og þjóðerni, einnig í Bandaríkjunum, vekja vonir um viðnám af allt öðrum toga gegn valdbeitingu og hryðjuverkum. Bandaríkin verja á þessu ári 400 miljörðum dollara í hernaðarútgjöld og viðbótin frá í fyrra er 45 miljarðar. Þetta er þrítugfalt meira en það sem Bandaríkin verja í þróunaraðstoð. Í öðrum OECD-ríkjum er þetta hlutfall sjöfalt. Við þetta bætist herkostnaðurinn vegna Írak-stríðsins. Þessu mynstri þarf að snúa við eigi að vera von til að heimurinn losni úr vítahring stigmagnaðarar valdbeitingar hins sterka. Í þessum efnum hafa smáríki sérstöku hlutverki að gegna innan sem utan Sameinuðu þjóðanna. Fjölmörg ráð eru tiltæk til að efla frið, sé vilja, fjármagni og upplýsingum beint í rétta átt. Að því þarf að beina kröftunum með samstarfi þeirra mörgu sem skynja aðsteðjandi háska. Samvinna og stuðningur við fjöldahreyfingar í Bandaríkjunum sem andstæðar eru stríðsstefnu Bush ætti að vera efst á blaði.


Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim