Hjörleifur Guttormsson 15. janúar 2003

Menn vaða í villu og svíma

Ofangreind orð Hallgríms Péturssonar koma í hugann þegar ákvarðanir eru teknar um stóriðjuframkvæmdir á Austurlandi sem umturna þeim landshluta, ekki aðeins náttúrufari heldur einnig félagslegu umhverfi. Nú stefnir í að hálendið norðan Vatnajökuls, austan frá Hraunum og vestur á Brúaröræfi, verði vettvangur tröllaukinna virkjunarframkvæmda, vatn Jöklu verði fært til Lagarfljóts, dölum og heiðum frá Fljótsdal niður til Reyðarfjarðar gjörspillt með raflínum af stærstu gerð og umhverfi Reyðarfjarðar lagt undir mengandi risaverksmiðju. Fyrr en varir bætist við raflína þvert yfir hálendið. Hluti þessara framkvæmda mun setja óafmáanlegt mark sitt á náttúru Austurlands, jafnvel þótt vilji stæði til þess síðar að færa umhverfið í samt lag.

Félagslegar afleiðingar verða ekki síður þungbærar en náttúruspjöllin. Skammsýnir reyna að réttlæta hervirkin með því að verið sé að efla byggð á Austurlandi. Ekkert er fjær sanni til lengri tíma litið. Í mínum huga eru þessar aðgerðir hliðstæðar því þegar her á flótta skilur eftir sig sviðna jörð. Framtíð fólks og byggðar verður tengd einu stórfyrirtæki undir stjórn fjarlægs valds eins af stærstu auðhringum veraldar. Ákvarðanir um rekstur og tilvist verksmiðjunnar verða háðar aðstæðum sem Austfirðingar og íslensk stjórnvöld fá engu um ráðið. Óvíst er að mörg íslensk ungmenni kjósi sér framtíð í kerskálum á Reyðarfirði, en skörðin yrðu fyllt af erlendu farandverkafólki. Enginn hefur svarað því hverjir skuli eiga og reka allt að 700 íbúðir sem fullyrt er að reisa þurfi, hvort sem íslenskir eða útlendir koma til starfa.

Óbilgirnin sem beitt hefur verið af forgöngumönnum stóriðjustefnunnar heima fyrir boðar ekki gott. Náttúruverndarfólk hefur verið hrakyrt leynt og ljóst af þeim hinum sömu og nú veifa fána Alcoa. Slík framganga er dapurlegt tákn um hugarfar manna sem gefið hafa sig gullkálfinum á vald og sjást ekki fyrir. Verstur er þó hlutur stjórnmálamanna sem knýja fram ákvarðanir um stóriðjuframkvæmdir með ríkisábyrgð og ætla óbornum að greiða reikninginn.

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim