Hjörleifur Guttormsson 15. janúar 2003

“Á meðan land byggist”

Um stórkostlegt afrek Ómars Ragnarssonar fréttamanns

Ómar Ragnarsson frumsýndi kvikmynd sína “Á meðan land byggist” fyrir fullu húsi í Austurbæjarbíó þriðjudagskvöldið 14. janúar sl. Myndin sem höfundur á enn eftir að fínpússa tók knappar tvær klukkustundir á tjaldinu og fáum viðstaddra mun hafa leiðst á meðan. Að mínu mati er hér um þrekvirki að ræða í efnisöflun, myndtöku og túlkun þannig að lengi mun í minnum haft. Það þarf líklega að segja mörgum oftar en tvisvar að mikill hluti myndarinnar sé eins manns verk höfundar með aðstoð eiginkonu við ferðalög og föggur.

Fyrri hluti myndarinnar er að mestu tekinn erlendis, í Bandaríkjunum og Noregi, en síðari hlutinn fjallar um Vatnajökul og þó einkum öræfin norðan hans með Kárahnjúkasvæðið í fókus. Það virðist hafa verið kveikjan að myndinni að kanna hvað hæft væri í staðhæfingum stóriðjusinnaðra Íslendinga og Landvirkjunar að víða erlendis samhæfi menn vatnsaflsvirkjanir og þjóðgarða. Í þessu skyni fer Ómar með okkur í mikla ökuferð um Bandaríkin, rekur dæmi um hagsmunaárekstra milli virkjana og náttúruverndar og er það fjölbreytt flóra. Sýnt er hvernig miðlunarlón eru notuð til siglinga og felld inn í útivistarsvæði en fá dæmi og úr fortíð um virkjanir innan marka þjóðgarða. Vatnasvæði Coloradoárinnar og stórfenglegur gljúfraheimur eru miðpunktur myndatökunnar. Í leiðinni fáum við stutt sýnishorn af auglýsingaveröld Vesturheims og andstæðum manngerðs og náttúrulegs umhverfis. Noregsþátturinn fær mun minna rúm og er þó langtum betra en ekkert úr þeirri átt. Jafnari skipti hefðu aukið enn á gildi myndarinnar, því að norsku aðstæðurnar eru um flest nærtækari í íslenskum samanburði.

Seinni hlutinn er hnitmiðaðri og væntanlega áhrifameiri fyrir íslenska viðtakendur, hvorum megin víglínu sem þeir standa í Kárahnjúkadeilum. Þar hefur höfundur eðlilega haft úr langtum meira efni að moða eftir ófáar ferðir í lofti yfir hálendið. Ýmsar senur, einkum þær sem sýna flug í Hafrahvammagljúfri, eru glæfralegar fyrir jarðbundið fólk og aðeins vitneskjan um Ómar þessa heims taka úr manni hrollinn. En hér birtist okkur líka gönguhrólfurinn Ómar, sem fremur lítið hefur farið fyrir í verkum hans til þessa, og hann kemur á óvart, fundvís á myndefni í náttúrunni, líf og grjót, og heldur samt hraða og athygli. Hjá undirrituðum sem eytt hefur nokkrum sumrum lífsins á þessu svæði, að Kringilsárrana meðtöldum, vekur yfirferðin upp minningar, en er jafnframt sannfærandi og skilar ótrúlega miklu í knöppu formi. Höfundur leitast við að láta andstæð sjónarmið vegast á í viðtölum og skýringum og ef menn vissu ekki fyrirfram hvorum megin hjarta hans slær held ég að flestir gætu talið umfjöllunina hlutlæga. Heimildargildi verksins er ótvírætt, ekki síst í ljósi þess að það er til orðið á átakatímum.

Auðvitað má benda á veikleika í efnistökum, annað væri ómennskt. Draga hefði mátt fram skýrari ályktanir af baráttu milli verndunar og virkjanaframkvæmda austanhafs og vestan og um það gæti höfundur enn bætt í lokagerð. Samanburðurinn á kostum og göllum einstakra virkjana er ekki alltaf auðveldur og skiptir út af fyrir sig ekki sköpum fyrir efnistökin. Hins vegar sýnist mér Ómar hafa gengið í gildru þegar hann tíundar kosti vatnsaflavirkjana í samhengi loftslagsverndar, en á þeim þætti hafa stóriðjumálsvarar hérlendis klifað oft og lengi. Í samhengi loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna og Kýótóbókunarinnar skipta vatnsaflsvirkjanir sem orkugjafar litlu sem engu máli, síst af öllu eftir að þróunarríki og væntanlega Bandaríkin einnig verða bundin af takmörkunum um losun.

Í umfjöllun sinni víkur höfundur oft að Vatnajökli og breytingum sem orðið hafa í ríki hans og veldi á liðinni tíð. Hraukar eru sýndir sem dæmi um framrás Brúarjökuls og hjallarnir á Efstadal inn með Jöklu geyma upplýsingar um þá sögu. Með einfaldri skýringarmynd, sem sýndi framrásarstig og hop jökulsins á síðjökultíma og nútíma væri hægt að draga þennan hjartslátt jökulsins skýrar fram.

Ómar Ragnarsson hefur með þessari mynd komið til skila á einum stað útdrætti úr mörgu því sem hann hefur verið að fást við og segja okkur í brotum á litríkri ævi. Úr hraðfleygum þáttum fréttamanns sem alltaf virðist vera að leggja líf sitt að veði kristallast hér í máli og mynd innsæi sem er ögrun við nútíðina og um leið ákall um að gæta landsins sem Íslendingar hafa byggt á tilveru sína til þessa.

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim