Hjörleifur Guttormsson | 16. maí 2003 |
Kjörtímabilið framundan Kosningar eru að baki og það er nánast eins og ekkert hafi gerst, sama ríkisstjórnin að setjast á stóla og ekki von á andlitslyftingu. Kosningabaráttan var innihaldslítil af hálfu þeirra þriggja flokka sem mesta fengu uppskeruna. Sjálfstæðisflokkur, Samfylking og Framsóknarflokkur stóðu saman að því fyrir kosningar að taka bindandi ákvarðanir um stóriðjuframkvæmdir sem setja munu mark sitt á efnahagsmál næstu fjögur ár. Samfylkingin hefur því lítið svigrúm í stjórnarandstöðu en Vinstri grænir eiga sóknarfæri. Kosningaúrslitin skiluðu stjórnarflokkunum öruggum meirihluta á þingi næstu fjögur ár og endurnýjun stjórnarsamstarfsins er aðeins formsatriði. Forseti Íslands gat haldið upp á sextugs afmæli sitt ótruflaður af vangaveltum um stjórnarmyndun eða hverjum hann ætti að fela umboð til að spreyta sig. Slíkar æfingar sem voru fastur liður eftir alþingiskosningar fyrir tveimur áratugum eru flestum nú gleymdar. Heil kynslóð hefur vaxið úr grasi með Davíð sem landstjóra. Formaður Samfylkingarinnar sem fyrir kosningar stillti Ingibjörgu upp sem forsætisráðherraefni hringdi í Halldór Ásgrímsson daginn sem úrslit lágu fyrir og bauð honum stólinn. Ingibjörg reyndist vera einnota þegar til kastanna kom og Össur ætlar að sitja sem fastast á formannsstóli. Fastir í eigin gildru Þótt stjórnarflokkarnir séu eðlilega sælir með völdin sem eru þeim allt, verður kjörtímabilið framundan enginn dans á rósum fyrir ríkisstjórnina. Fyrst af öllu þurfa flokkarnir að staursetja kosningaloforðin um stórfelldar skattalækkanir, einhvert glæfralegasta agn sem beitt hefur verið fyrir kjósendur í aðdraganda kosninga. Nógu margir bitu á og nú er að losa um öngulinn og draga efndirnar sem lengst má verða. Til að auðvelda leikinn er líklegt að Framsóknarflokkurinn fái lyklana að fjármálaráðuneytinu. Stóiðjudæmið á Austurlandi sem ríkisstjórnin batt fastmælum með stuðningi Samfylkingarinnar fyrir kosningar setur efnahagslífi og nýfjárfestingum þröngar skorður næstu fjögur árin. Talsmenn atvinnurekenda og launafólks kváðu upp úr um það nú fáum dögum eftir kosningar að skattalækkanir væru óðs manns æði. Nógu erfitt verður samt að komast hjá vaxtahækkunum og hindra frekari hækkun krónunnar. Samfylkingin í klemmu Samfylkingin gerði um fátt eitt ágreining við stjórnaflokkana í kosningabaráttunni. Fyrst og fremst var reynt að spila á þreytu kjósenda með lúin andlit og stjórnunarstíl Davíðs Oddssonar. Hvergi var kveðið skýrt að orði í Borgarnesræðum leiðtogaefnisins. Upplegg Samfylkingarinnar var fyrst og síðast við það miðað að geta komist í ríkisstjórn með öðrum hvorum stjórnarflokkanna. Í raun vísaði Samfylkingin frá þeim möguleika að stjórnarandstöðuflokkanir þrír tækju saman um landsstjórnina að loknum kosningum. Áskorunum Vinstrigrænna í þá veru var vísað frá og Össur látinn “leiðrétta” ummæli sem túlkuð voru sem undirtektir við slíka þriggja flokka stjórn. Samfylkingin mun verða í klemmu í stjórnarandstöðu. Hún er samábyrg fyrir stóriðjustefnunni sem setja mun mark sitt á allt kjörtímabilið, einnig Ingibjörg sem skrifaði rækilega upp á þann víxil. Tækifæri Vinstrigrænna Vinstrihreyfingin grænt framboð náði ekki í gegn með sínar áherslur í kosningabaráttunni. Þessi fáliðaði flokkur var þó eina raunverulega stjórnarandstaðan á síðasta kjörtímabili. Þá stöðu hefði mátt nýta betur en gert var, en til þess þurfti að greina sig með skýrum hætti frá stefnulausri og sundurþykkri Samfylkingu. Áherslan á velferðarstjórn varð til þess að skilin gagnvart Kárahnjúkaflokkunum urðu ekki eins skýr og skyldi. Vinstrigrænir eru hins vegar nú sem fyrr mun betur búnir undir málefnalega stjórnarandstöðu en Samfylkingin. Umhverfismálin og sú sýn til efnahagsmála og alþjóðamála sem þeim tengist þarf að verða skýrari í málflutningi flokksins en hingað til. Í því felst öðru fremur tækifæri og vaxtarbroddur þessa hugsjónaafls. Hjörleifur Guttormsson |