Hjörleifur Guttormsson 17. júlí 2003

Atlaga að lýðræði og umhverfisvernd

Umhverfisráðherra hefur gripið til þess örþrifaráðs að vísa frá kæru minni vegna útgáfu Umhverfisstofnunar 14. mars 2003 á starfsleyfi fyrir álver Alcoa á Reyðarfirði og heldur því fram að undirritaður sé ekki aðili að málinu (sjá kæru mína frá 28. mars 2003 og úrskurð ráðherra dags. 14. júlí 2003).

Þessi niðurstaða umhverfisráðherra er ekki aðeins lögfræðilega röng heldur andlýðræðisleg og í hrópandi andstöðu við almenna réttarþróun, ekki síst á sviði umhverfismála. Umhverfisstofnun fjallaði um athugasemdir mínar vegna útgefins starfsleyfis og niðurstöðu stofnunarinnar kærði ég lögum samkvæmt til umhverfisráðherra. Ég var þannig viðurkenndur aðili að málinu á lægra stjórnsýslustigi og á því áfram aðild að því fyrir æðra stjórnvaldi, þ. e. umhverfisráðherra, samkvæmt stjórnsýslulögum.

Þróun umhverfisréttar síðasta áratug lýtur öll í þá átt að tryggja almenningi víðtæka aðild að málum er snerta umhverfisvernd. Úrskurður ráðherra stangast þannig á við Ríó-yfirlýsinguna frá 1992, ESB-reglur á sviði umhverfismála sem eru hluti af EES-samningnum og ákvæði Árósasamningsins um þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum.

Undirritaður kærði 1995 áform meirihluta stjórnar Hollustuverndar ríkisins að hafna aðild minni vegna starfsleyfis ÍSALs sem þá var til umfjöllunar. Þeim áformum var þá hnekkt af sérstakri úrskurðarnefnd undir formennsku Magnúsar Thoroddsens fyrrum hæstaréttardómara. Nú hagar svo til að undirritaður er búsettur í sveitarfélaginu Fjarðabyggð þar sem til stendur að byggja umrætt álver og hef um langa hríð starfað þar að umhverfismálum og málum tengdum ferðaþjónustu og á því bæði beinna og óbeinna hagsmuna að gæta. Kæra mín til ráðuneytisins var efnisleg og rökstudd. Auðsætt er að ráðherra treystir sér ekki til að fjalla um málið á þeim forsendum og velur í staðinn langsótta og úrelta lagatúlkun til að koma sér undan að fjalla um röksemdir mínar. Það hefur tekið ráðuneytið þrjá og hálfan mánuð að komast að niðurstöðu, en lögboðinn frestur til að úrskurða er fjórar vikur.

Úrskurður umhverfisráðherra er atlaga að lýðræði og umhverfisvernd og einnig af þeim sökum hið alvarlegasta mál. Á þessari stundu virðist mér að vart verði komist hjá málsókn vegna þessa úrskurðar en endanleg afstaða þar að lútandi bíður betri tíma.

(fréttatilkynning til fjölmiðla)

Fylgiskjöl:
Yfirlit frá 2. apríl 2003 um efnisatriði kæru HG vegna ákvörðunar Umhverfisstofnunar um útgáfu starfsleyfis fyrir álver Reyðaráls ehf 14. mars 2003.

Úrskurður umhverfisráðherra 14. júlí 2003 vegna ofangreindrar kæru.Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim