Hjörleifur Guttormsson 20. júní 2003

Ágengar tegundir ógna lífríkinu

Á ýmsum sviðum er engu líkara en að á Íslandi búi fákunnandi fólk úr takti við umheiminn. Þetta á við um gróður- og jarðvegsvernd á heildina litið þótt í orði megi oft heyra hástemmdar yfirlýsingar. Engar samræmdar aðgerðir eru í gangi á þessu málasviði, opinberar stofnanir eins og Skógrækt og Landgræðsla bauka hver í sínu horni undir steindauðu landbúnaðarráðuneyti og ráðuneyti umhverfismála lyftir ekki litlafingri til stefnumörkunar, meðal annars með hliðsjón af alþjóðasáttmálum. Alþingismenn teljast góðir þekki þeir mun á fífli og sóley og ef á góma ber líffræðilega fjölbreytni beita margir fyrir sig háði og spotti til að draga fjöður yfir eigin vanþekkingu.

Löggjafarsviðið eyðimörk

Skelfileg staða blasir við þá litið er til löggjafarsviðsins hérlendis. Engin heildarlög eru til um gróður- og jarðvegsvernd. Sérlög um landgræðslu og skógrækt voru síðast endurskoðuð fyrir mannsaldri og endurspegla löngu úreltan hugmyndaheim. Í náttúruverndarlögum eru ákvæði sem banna lyng- og hrísrif, sem enn tíðkaðist á 19. öld. Þegar loks var stofnað umhverfisráðuneyti 1990 var gróðurvernd gerð útlæg úr því ráðuneyti, í mesta lagi að umhverfisráðherra mætti yrða á landbúnaðarráðherra vegna skógræktar og landgræðslu. Á árunum 1995-99 fór einn og sami ráðherra með umhverfis- og landbúnaðarmál en sá hinn sami náði aldrei að tala svo mikið sem við sjálfan sig um gróðurvernd. Við þetta situr enn, enda höfuðin í ríkisstjórn þau sömu og eftir þeim dansa limir embættimannakerfisins.

Innfluttir váboðar

Á alþjóðavettvangi er mikið fjallað um hættu af innflutningi framandi tegunda milli landa og heimshluta. Sumar tegundir lífvera geta breyst í eins konar óvætti við að flytjast milli ólíkra vistkerfa, verða ágengar og gjörbreyta því lífi sem fyrir er. Um þetta eru ótal dæmi, þau þekktustu hérlendis minkur og alaskalúpína. Vegna slíkra váboða voru sett ákvæði í Ríó-samninginn um líffræðilega fjölbreytni þar sem samningsaðilar skuldbinda sig til að “koma í veg fyrir að fluttar séu inn erlendar tegundir sem ógna vistkerfum, búsvæðum eða tegundum, að öðrum kosti stjórna þeim eða uppræta þær.” (8.gr.h) Í endurskoðaða náttúruverndarlöggjöf voru 1999 sett ákvæði til að tryggja framkvæmd þessara skuldbindinga hérlendis en efndirnar láta á sér standa. Í skjóli úreltra lagaákvæða, einsýni og vanþekkingar heldur hver við sitt.

Afleiðingar blasa við

Á meðan stjórnkerfið sefur hrannast upp vandamál sem æ erfiðara verður að bregðast við. Lúpínan sem nú er sem óðast að leggja undir sig holt og móa, friðlýst svæði og umhverfi þéttbýlis víða um land, er aðeins einn af váboðunum. Fólk sem í góðri trú og með opinberum stuðningi stundar nú skógrækt fær enga viðhlítandi leiðsögn um tegundaval, hvorki um vistlægar afleiðingar eða áhættu með tilliti til veðurfars. Á ráðstefnu 22. maí síðastliðinn nefndi Kristín Svavarsdóttir sérfræðingur hjá Landgræðslu ríkisins mörg dæmi um innflutt tré og runna sem gjalda þyrfti varhug við vegna óæskilegrar ágengni í íslensku gróðurríki. Alþjóðleg þekking er til staðar. Þótt lítil von sé til þess að nátttröllin í Stjórnarráðinu rumski hefur almenningur enga ástæðu til að sitja þegjandi í skugga þeirra. Ásýnd lands okkar, gögn þess og gæði eru í húfi um langa framtíð.

Styrkjum alþjóðakerfið

Menn ættu að fara varlega í að réttlæta einhliða stríðsaðgerðir undir yfirskyni mannúðar og lýðræðis. Fáir efast um að Saddam Hussein hafi verið mikill skúrkur, en hann er hvorki sá fyrsti eða síðasti sem kúgar eigin þegna. Eftir er að sjá hvort innrásarliðið sem steypti honum af stóli með miklum mannfórnum og glæpsamlegu skeytingarleysi um menningararf Íraka og alls mannkyns reynist hótinu skárra. Sá mælikvarði milli góðs og ills sem Bandaríkin nú hyggjast leggja á heimsbyggðina er ekki líklegur til að bæta hag almennings í fátækum ríkjum eða tryggja það öryggi sem heimsbyggðin þarfnast. Evrópusamband undir forystu gömlu nýlenduveldanna er heldur ekki sú trygging eða haldreipi sem eitt og sér leysi vandann og réttlæti að kasta þjóðlegu fullveldi fyrir róða. Þróunarríkin og smáþjóðir eins og við Íslendingar eiga mest undir öflugu alþjóðakerfi. Í þeim efnum kemur ekkert í stað Sameinuðu þjóðanna og þeirra hugsjóna sem lágu til grundvallar við stofnun þeirra.

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim