Hjörleifur Guttormsson 21. mars 2003

Hvers vegna þetta sprengjuregn?

Stuðningsmönnum árásarstríðsins gegn Írak vefst tunga um tönn. Það er afar eðlilegt. Rökin gegn þessu stríði eru yfirgnæfandi í samanburði við það sem fært er fram því til réttlætingar. Stríðið er hafið án þess að umboð frá Sameinuðu þjóðunum liggi fyrir. Alþjóðaráð lögfræðinga hefur lýst árás á Írak sem broti gegn stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Jónatan Þórmundsson prófessor í alþjóðarétti kemst að sömu niðurstöðu. Gegn þessu talar íslenska ríkisstjórnin um leið og hún hefur gert Ísland að þátttakanda í þessari herför. Með því eru ráðherrarnir að brjóta alþjóðalög og ganga gegn sáttmála sem verið hefur helsta haldreipi smáþjóða í meira en hálfa öld.
Einmitt Sameinuðu þjóðirnar hafa unnið að því markvisst að knýja stjórnvöld í Írak til að virða gerðar samþykktir og með sýnilegum árangri. Vopnaleitarmenn óskuðu eftir lengri tíma studdir af meirihluta ríkja í Öryggisráðinu. Á það var ekki hlustað. Vopn Bandaríkjamanna og Breta skyldu fá að tala hvað sem tautaði og raulaði. Öllum má vera ljóst að eitthvað allt annað en afvopnun Íraka og varðveisla friðar liggur að baki því stríði sem nú er hafið. Það skyldu þó ekki vera náttúruauðlindir þessa hrjáða lands, olían, og þeir sem ætla að hagnast á henni sem kalla á sprengjuregnið.

Það hefur verið afar dapurlegt að hlýða á utanríkisráðherra Íslands á þessum fyrsta morgni stríðs sem hann hefur gert Íslendinga ábyrga fyrir. Þjóðin frétti um afstöðu eigin ríkisstjórar erlendis frá. Ég minnist þess ekki að það hafi áður gerst í máli sem miklu varðar að íslenskir valdsmenn hafi ekki haft döngun í sér að segja þjóðinni hreinskilnislega frá afstöðu sem þeir hafa tekið í hennar nafni. Í þessu tilviki var um stríð eða frið að tefla og grundvallarafstöðu til alþjóðalaga. Íslenska ríkisstjórnin kaus sér það hlutskipti að kyssa á vönd Bush og ganga gegn stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Hafði hún til þess umboð? Hvaða nauður rak menn til slíkrar óhæfu?


Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim