Hjörleifur Guttormsson | 21. október 2003 |
Brýnt að treysta stöðu Alþingis Það hefur gerst ítrekað síðustu fimm ár að Alþingi hefur af Hæstarétti verið gert afturreka með lagasetningu og ákvarðanir sem stangast á við stjórnarskrá okkar að mati æðsta dómsstóls landsins. Í þessu og ýmsum þjóðfélagsbreytingum felast skilaboð til þingsins sem kalla á róttæka endurskoðun á starfsháttum þess, samskiptum við framkvæmdavaldið og jafnframt á breytingar ýmissa atriða í stjórnskipan lýðveldisins. Stjórnlagaráð Þann 3. desember 1998 féll í Hæstarétti dómur er varðaði lög um stjórn fiskveiða og Hæstiréttur taldi í andstöðu við jafnræðisreglu 65. og 75. greinar stjórnarskrárinnar. Í desember árið 2000 dæmdi Hæstiréttur í máli öryrkja og komst að því að lög um skerðingu tekjutryggingar vegna tekna maka öryrkja stangaðist á við 76. grein stjórnarskrárinnar. Nú hefur Hæstiréttur á ný fellt dóm um lagasetningu Alþingis um örorkulífeyri með vísun til 72. greinar stjórnarskrárinnar. Umrædd lög voru sett þrátt fyrir ítrekaðar aðvaranir ýmissa þingmanna um að þau gengju gegn stjórnarskrárvörðum réttindum en meirihlutinn á Alþingi hlýddi framkvæmdavaldinu. Þegar lögunum um fiskveiðar var breytt í kjölfar hæstaréttardóms taldi ég, sbr. umræðu á Alþingi 12. janúar 1999, ríka ástæðu til að koma á fót úrskurðarvettvangi í formi stjórnlagaráðs eða sérdómstóls þangað sem þingið gæti vísa álitaefnum, m. a. lögum, lagafrumvörpum og alþjóðlegum skuldbindingum, til að fá úr því skorið hvort þau samrýmist stjórnskipan okkar. Slík úrræði eru víða þekkt í grannlöndum, m. a. Þýskalandi, Frakklandi og í Svíþjóð. Þáverandi sjávarútvegs- og dómsmálaráðherra Þorsteinn Pálsson tók undir mál mál mitt og sagðist sannfærður um að bæði framkvæmdavaldið og löggjafarvaldið þyrftu að huga að þessum þáttum í miklu ríkari mæli á komandi árum.Enn hefur þó ekkert gerst í þessa veru en atburðir síðustu viku minna á hversu brýnt það er að Alþingi treysti stöðu sína, ekki síst gagnvart framkvæmdavaldinu sem knúði fram viðkomandi löggjöf. Ráðherrar víki sem þingmenn Ekki er síður ástæða til að endurskoða þá sérkennilegu stöðu að á Alþingi sitja með atkvæðisrétti ráðherrar, sem eru fremstu handhafar framkvæmdavaldsins. Ég hef margsinnis lýst þeirri skoðun að þetta samkrull beri að afnema og ráðherrar sem sæti taka í ríkisstjórn og áður hafa hlotið kosningu til Alþingis eigi að víkja sem þingmenn á meðan þeir gegna ráðherrastarfi. Með þessu væru dregin þau skil í stjórnskipun okkar á milli löggjafar- og framkvæmdavalds sem þykja nú sjálfsögð á flestum sviðum. Með slíkri formbreytingu væri staða Alþingis og sjálfstæði gagnvart framkvæmdavaldinu treyst til muna. Ekki þarf lengra að leita en til Noregs eftir annarri skipan en hér ríkir. Í 62. grein norsku stjórnarskrárinnar er kveðið á um að ráðherrar sitji ekki í Stórþinginu sem fulltrúar með atkvæðisrétti, svo lengi sem þeir eiga sæti í ríkisstjórn. Af sjálfu leiðir að viðkomandi eru þá ekki heldur formlegur hluti þingflokka með þeirri stöðu sem það veitir. Óeðlilegt vægi framkvæmdavalds Sú skipan sem hér er við haldið leiðir af sér óeðlilegt vægi ráðherra og embættismanna gagnvart Alþingi og dregur stórlega úr frumkvæði þingmanna og stöðu Alþingis sem lykilstofnunar í stjórnskipan landsins. Sérstaklega á þetta við um þingmenn sem styðja ríkisstjórn hverju sinni. Margir þeirra láta sér nægja að gerast þjónar framkvæmdavaldsins og ráðherranna og leggja vinnu að sjálfstæðu löggjafar- og eftirlitsstarfi að mestu á hilluna. Því miður gætir þessa ekki síður í nefndarstörfum þingsins þar sem lengst af er setið yfir frumvörpum frá ráðuneytunum og embættismenn oft kvaddir til yfirsetu. Þær endurbætur sem gerðar hafa verið á starfsaðstöðu þingmanna koma fyrir lítið ef meginverkefnin gleymast. Þetta myndi breytast ef Alþingi tæki stefnumarkandi hlutverk sitt alvarlega. Fleira skiptir hér máli, þar á meðal hvert þingmenn sækja umboð sitt. Ótæk kjördæmaskipan Hörmulega tókst til þegar kjördæmaskipanin var endurskoðuð fyrir fjórum árum. Í stað þess að þáverandi stjórnmálaflokkar beittu sér fyrir víðtækri umræðu um endurbætur á stjórnskipan landsins var “kjördæmamálið” sett án teljandi forumræðu í þingmannanefnd og lokað þar af uns niðurstaða var kynnt stuttu fyrir kosningar. Afurðina þekkja menn úr síðustu kosningum, þrjú landfræðilega risastór landsbyggðarkjördæmi og höfuðborgarsvæði sem skipt er upp í þrjú kjördæmi þangað sem meirihluti þingmanna sækir nú umboð sitt. Við þennan gjörning var í senn kastað fyrir róða þeim félagslega samskiptagrunni sem þróast hefur að heita má frá því land byggðist og lítið hugsað um hlutverk Alþingis í gjörbreyttu umhverfi. Austurland var slegið af og Norðurlandi skipt um Tröllaskaga, “Suðurland” teygt frá Hvalnesi í Lóni að Garðsskaga. Undirritaður var í hópi örfárra þingmanna sem andæfðu gegn þessum óskapnaði. Niðurstaðan birtist nú í hópum “landsbyggðarþingmanna” sem eigra um lendur sem fátt eiga sameiginlegt sem kjördæmi. Gullnu tækifæri til endurbóta á stjórnskipan landsins var á glæ kastað 1999 og hætt er við að langur tími líði uns spilin fást stokkuð upp á nýtt. Ísland eitt kjördæmi Landið allt ætti sem fyrst að gera að einu kjördæmi
þannig að Alþingi taki að líta heildstætt
á landsins gagn og nauðsynjar. Með minnkandi afskiptum
ríkisvaldsins á mörgum sviðum og flutningi verkefna
til sveitarfélaga er ástæðulaust að kjósa
til Alþingis svæðisbundið. Sérstaklega ætti
jafnhliða slíkri breytingu að stofna til fylkja sem gætu
verið fimm talsins og höfuðborgarsvæðið þá
eitt þeirra. Íbúar landsins eiga að vera jafnir
fyrir lögunum og landið allt á að vera vettvangur
hvers einasta þingmanns. Þörfin fyrir að líta
heildstætt á málefni íbúanna og samskipti
okkar við útlönd er allt önnur og augljósari
en fyrir hálfri öld. Mörg dæmi mætti tilfæra
frá seinni tíð þar sem togstreita á grunni
kjördæma hefur leitt til rangra ákvarðana og jafnvel
ófarnaðar.
Hjörleifur Guttormsson |