Hjörleifur Guttormsson | 23. desember 2003 |
Vetrarsólhvörf og jólahátíð Á meðan fjölmiðlar eru uppteknir af skötu, þessari
dæmalausu vestfirsku soðningu sem nú er reynt að
koma inn á hvers manns borð, er ég að velta fyrir
mér uppruna jólahátíðar og breytingu hennar
í tímans rás. Á vetrarsólhvörfum
í gær þegar Austfirðir skörtuðu heiðum
himni og sólin sleikti fjallatoppa fannst mér uppruni hátíðarhalda
um þetta leyti árs liggja í augum uppi: Endurkoma
sólar eftir tvísýna baráttu við myrkraöflin.
Hvergi er þetta auðsærra en í skjóli fjalla
þar sem eldhnötturinn hverfur sjónum bak við fjöll
í hartnær tvo mánuði. Jólahátíð á ólíkum forsendum Jólahátíð í einhverju formi er augljóslega
ævaforn siður og uppruni hennar á ekkert skylt við
kristna trú eða helgisiði kirkjunnar. Í Róm
tíðkaðist löngu fyrir Krists burð hátíð
kennd við frjósemisguðinn Satúrnus og hófst
hún um eða upp úr miðjum desember og stóð
í nokkra daga. Önnur viðlíka var haldin í
byrjun janúar. Fyrri hátíðin rétt fyrir
sólstöður hefur líklega átt að hjálpa
sólinni yfir örðugasta hjallann, hinni síðari
fylgdi fögnuður yfir að sól var tekin að hækka
á lofti. Þessi hátíðahöld voru síðar
sameinuð í einni nýárshátíð
eftir að upphaf árs var árið 153 fyrir Krist fært
til 1. janúar. Um merkingu orðsins jól Ekki er síður forvitnilegt að velta fyrir sér uppruna
orðsins jól. Meðal norrænna manna var sólhvörfum
ekki síður fagnað en sunnar á hnetti. Þótt
samtímaheimildir skorti um jól í heiðni má
styðjast við margt úr rituðum textum, þar á
meðal Íslendingasögur og Heimskringlu Snorra. Líkur
benda til að um tvær hátíðir hafi verið
að ræða meðal Norðurlandabúa ekki ólíkt
og hjá Rómverjum forðum daga. Önnur hafi byrjað
með vaxandi tungli á ýli [tunglmánuði sem
hefst upp úr 20. nóvember] skömmu fyrir vetrarsólhvörf,
hin síðari um miðjan janúar, samanber frásögn
Snorra í Hákonar sögu góða: “En áður
var jólahald hafið hökunótt, það er miðsvetrarnótt,
og haldin þriggja nótta jól”. Árni Björnsson
telur að af málfræðilegum rökum megi álykta
að fyrri hátíðin hafi borið heitið jól
í heiðni en við seinni dagsetninguna var komið að
Þorrablóti, sem Íslendingar nú hafa endurvakið. Gleðileg jól Í ljósi þessara þanka um forsögu jólanna eiga menn á norðurhveli að geta sameinast um að gleðjast á þessum árstíma, óháð trúarviðhorfum eða trúleysi. Hver og einn getur þar gripið í sitt strá, séu menn að leita að sannleika eða skyggnast eftir dýpri rökum tilverunnar. Nú um stundir fellur jólaundirbúningur margra vel að frásögnum um ótæpileg veisluhöld löngu fyrir daga kristninnar og kristilegum hugmyndum um jólaföstuna sem tíma undirbúnings og aðhalds er gefið langt nef. Yfirfært á kvarða kapítalismans má segja að allt umstangið sé prýðilega heppnuð viðskiptahugmynd. – Sá sem þetta ritar leggur þar að vísu heldur lítið af mörkum og verður æ fastheldnari á hófstillt jólahald við kertaljós og góða bók innan seilingar. Öllum lesendum heimasíðunnar óska ég gleðilegra
jóla, árs og friðar. Hjörleifur Guttormsson |