Hjörleifur Guttormsson 24. september 2003

Fréttamat og fjármálavafstur

Upp á síðkastið hafa frásagnir af hlutabréfakaupum og tilfærslu fjármuna á íslenskum hlutabréfamarkaði verið eitt helsta fréttaefni fjölmiðla, ekki síst í Ríkisútvarpinu. Í löngu máli og útlistunum er greint frá því dag eftir dag í aðalfréttatímum hvaða aðili hafi keypt eða selt hluti, aukið hlut sinn eða minnkað í hinu og þessu félaginu, hvert eignarhlutfallið er orðið að því búnu og hvaða ástæður kunni að búa á bak við. Bankarnir eru þar ekki undanskildir en þeir tengjast stórum og smáum hluthöfum og spila á eignarhald í öðrum félögum eins og harmoniku. Í fréttaþáttunum bregður fyrir nöfnum einstaklinga stöku sinnum, Björgólfur almáttugur efstur á blaði og það bjórfé sem hann hafði með sér handan um höf inn í íslenskt viðskiptalíf. Oftar en ekki eru leikararnir á þessu sviði þó nafnlausir, faldir á bak við fyrirtækin sem þeir hafa fjárfest í þennan daginn, komnir á allt önnur mið að morgni næsta dags. Ég verð að játa það að fréttaflutningur af þessu pókerspili fjárfesta er ekki ofarlega á mínu áhugasviði og ég held svo sé farið um þorra þjóðarinnar sem er óvirkur áhorfandi á þessum vígstöðvum viðskiptalífsins.

Hver eru skilaboðin?

Ekki dreg ég í efa að nokkur og vaxandi hópur fólks lifir og hrærist í heimi fjármálalífsins, einkum þeir sem hafa af því starfa að leiða og afvegaleiða fólk þegar kemur að ráðstöfun á því sem menn leggja til hliðar og verja í hlutabréfakaup til að “dreifa áhættunni” með ávöxtun víðar en á bankareikningum. Á tímum hátækniblöðrunnar og deCode-svikamyllunnar fyrir nokkrum árum var gjarnan tjaldað til ungum “uppum” í viðtalsþáttum til að spá í bestu kaup á eyrinni. Blaðran sú sprakk á eftirminnilegan hátt og síðan hefur verið skipt um andlit í viðtalsþáttunum. Viðmælendurnir eru almennt orðnir mun varkárari og gæta þess að segja sem minnst um horfur, vísa með spekingssvip á hinn óræða markað og spyrlarnir eru yfirleitt í mestu vandræðum að halda umræðunum gangandi. Samt er haldið áfram að spá í einskisvert tómarúmið á bak við gengi í þessu og hinu hlutafélaginu, því að þetta er víst nútíminn og enginn vill láta taka sig í bólinu sem gamaldags og púkó.

Aumkunarvert hlutskipti

Á íslenskum fjölmiðlum er starfandi stór hópur góðra fréttamanna, konur þar síst undanskildar, því að þær skora margar hverjar bestu mörkin í fréttaöflun. Það er satt að segja niðurlægjandi fyrir þennan hóp að vera settur í það hlutverk að þylja upp fyrir landsmönnum spriklið á hlutabréfamörkuðum með nafnarunum fyrirtækja sem fáir vita eða hafa áhuga á hverjir standa á bak við í stað þess að skyggnast á bak við og lýsa inn í skúmaskotin sem nóg er af og draga fram leikreglur eða öllu heldur vöntun á leikreglum í gangverki viðskiptalífsins. Skattamál og skattsvik í skjóli fyrirtækjareksturs og svartar atvinnustarfsemi ættu þar ekki að vera undanskilin, umgengni við umhverfið og móður náttúru þaðan af síður.
Með meiningarlausum nafnaþulum um fyrirtæki og spákaupmennsku fjármálamanna frá degi til dags eru fjölmiðlar að hafa landslýðinn að fíflum. Hvergi það ég þekki til í grannlöndum okkar viðgengst annað eins. Þar eru fregnir úr viðskiptalífinu hafðar í sérþáttum líkt og knattspyrnuleikir þannig að fíklar á þessu sviði fái notið þeirra. Megum við hin fá að vera í friði fyrir leikfléttum björgúlfanna og örlögum kolkrabbans sem eins víst er að gangi aftur fyrr en varir.

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim