Hjörleifur Guttormsson 27. janúar 2003

Einstefna Bandaríkjanna kallar á andsvör

Breytingarnar á alþjóðavettvangi síðustu ár eru hraðar og um margt ógnvekjandi. Bandaríkin eru sem óðast að segja sig úr lögum við alþjóðasamfélagið og hóta að fara sínu fram hvað sem líður viðhorfum Sameinuðu þjóðanna og fyrrum bandamanna. Á bak við stefnu Bush um stríð gegn hryðjuverkum og “öxulveldum hins illa” felst krafa um skilyrðislausa undirgefni við hagsmuni bandarísks fjármagns, vesturheimsk lífsgildi og meinta öryggishagsmuni. Rætur þessarar hrokafullu einstefnu liggja langt til baka og eru engan veginn einskorðaðar við forsetatíð Bush þótt hann hafi notað atburðina 11. september 2001 til að færa þær í orð og kennisetningar. Í hnotskurn felst stefna risaveldisins í því að heimsbyggðin skuli sitja og standa eins og Bandaríkjunum þókknast, ella verði beitt vígtólum þar sem engin vopn og aðferðir eru undanskildar, kjarnorka, mútur og morð. Til að undirstrika þetta hafa bandarísk stjórnvöld sagt sig frá eða neitað þátttöku í alþjóðasamningum, jafnt á sviði afvopnunar, umhverfisverndar og mannréttinda og nú síðast hafnað því að alþjóðlegar reglur um stríðsglæpi skuli gilda jafnt fyrir bandaríska þegna sem aðra.

Misskipting og ofsagróði

Efnahagsstefna iðnríkja undir forystu Bandaríkjanna síðasta áratuginn hefur ekki ósvipað og á tímum ómengaðrar nýlendukúgunar byggst á arðráni á þeim sem minna mega sín, ekki síst á ríkjum á suðurhveli sem flest heyra til þriðja ef ekki fjórða heiminum svokallaða. Alþjóðlegar fjármálastofnanir, gjaldeyrissjóður (IMF), banki (WB) og frá 1995 Alþjóðaviðskiptastofnunin WTO eru varðhundar kerfis sem er sniðið til að halda uppi góðum siðum og reglu í þágu fjölþjóðafyrirtækja og fjármagnseigenda. Með hnattvæðingu fjármagnsins stig af stigi frá miðjum níunda áratugnum hafa greipar þessa kerfis verið að harðna og birtast í sívaxandi misskiptingu og ofsagróða fárra á kostnað fjöldans.
Afríkuþjóðir hafa margar hverjar orðið harðast úti í skuldagreipum alþjóðafjármagnsins og verið læstar inni í fátæktargildru. Fjárhagskreppa Suðaustur-Asíu og hrun lífskjara þar hjá hundruðum milljóna fyrir hálfum áratug var birtingarform þessa ójafnaðar. Síðustu árin hefur alþýða manna í Rómönsku-Ameríku mátt uppskera kvalræði þeirra leikreglna sem Bandaríkin hafa löngum viljað vera ein um að setja þessum heimshluta.

Uppreisn í bakgarðinum

Harðstjórn og misskipting kalla ætíð á andsvör. Þar hrannast dæmin upp á sama tíma og Bandaríkin eru að herða tök sín. Langvarandi herkostnaður Ísraels á hendur Palestínumanna er greiddur af Bandaríkjunum, hryðjuverk eru afsprengi sundrandi hnattvæðingar, herför gegn Írak sýniskennsla um það sem koma skal. Á sama tíma og Sámur frændi er upptekinn af Saddam hafa verið að gerast pólitísk stórtíðindi í Suður-Ameríku. Efnahagsmódel Alþjóðabankans í Argentínu hrundi eins og spilaborg og alþýða manna hélt út á götur og torg til að verja sig. Chaves forseti Venesúela, borinn til valda af fátæklingum í lýðræðislegum kosningum, stendur enn gegn valdaránstilraunum studdum af Washington. Í Ekvador var Gutiérres kjörinn forseti í nóvember, ekki síst með stuðningi frumbyggja gegn áformum um risaolíuleiðslu og einkavæðingu. Hann hafði jafnframt lýst andstöðu við fríverslunarsvæði undir veldissprota Bandaríkjanna. Nú í árbyrjun tók Lula nýkjörinn forseti við völdum í Brasilíu, kosinn síðastliðið haust vegna andstöðu við hnattvæðingu undir merkjum nýfrjálshyggju. Grasrótarhreyfing síðustu ára í Porto Allegre á ríkan þátt í kjöri hans sem fyrsta sigurvegara úr röðum róttæks stjórnmálaflokks í fjölmennasta ríki þessa heimshluta. Stjórn hans á ekki létt verk fyrir höndum fremur en aðrir í Suður-Ameríku sem leitast við að rétta hlut fátæklinga á tímum óvæginnar heimsvaldastefnu úr norðri. Hérlendis bregðast ráðandi öfl við harðnandi átökum um hlutaskipti á heimsvísu með því að flagga fyrir Alcoa.

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim