Hjörleifur Guttormsson 27. nóvember 2003

Íbúar Reyðarfjarðar og mengunarhættan

Nýlega er komin út skýrsla Veðurstofunnar um vind og stöðugleikarannsóknir í Reyðarfirði. Þetta er 6. rannsóknaskýrslan frá vori 1998 og tekur til tímabilsins júní 2002-maí 2003. Höfundar eru fjórar að öllum skýrslunum, efstur á blaði Flosi Hrafn Sigurðsson. Þessi skýrsla er unnin fyrir Fjárfestingarstofuna - orkusvið. Í júní 2000 var bætt við þremur sjálfvirkum athugunarstöðum innan fjarðarins til að skrá vind og hitastig og með því urðu athugunarstöðvarnar alls sjö talsins. Þannig hafa smám saman fengist fyllri upplýsingar en áður lágu fyrir um veðurfarsskilyrði yfir firðinum. Allar tengjast þessar athuganir fyrirhugaðri stóriðju og líklegri dreifingu mengunarefna. Niðurstöður síðustu skýrslu hljóta að vekja athygli því að þar blasir við dekkri mynd en áður lá fyrir af veðurfarsskilyrðum með tilliti til mengunaráhrifa frá álveri Alcoa, ekki síst gagnvart þéttbýlinu við Búðareyri.

Tilvitnanir úr niðurstöðum

Eftirfarandi má m. a. lesa í niðurstöðum þessarar glóðvolgu skýrslu:

“Vestlægar áttir eru hagkvæmar þar sem þær blása menguðu lofti frá álverinu út til hafs, en þaðan berst það svo til hliðar meðfram ströndinni. Hægar austlægar áttir eru hins vegar varasamar þar sem þær flytja mengað loft frá álverinu í átt að þéttbýlinu á Búðareyri.
Í þessu sambandi er þess að geta að hringrás haf- og landgolu á sér greinilega stað innanfjarðar á Reyðarfirði. Sama loftið gæti því borist tvisvar eða jafnvel þrisvar yfir álverið og Búðareyri á sama degi. Gæti það valdið aukinni skammtímamengun á Búðareyri, þótt veruleg þynning verði á mengunarefnum á hinni löngu hringrás loftsins innan fjarðarins.
Einnig er bent á að hægir vestlægir vindar munu oft blása yfir álbræðsluna síðla nætur að sumarlagi, en snúast í austlæga innlögn snemma morguns. Getur mengað loft þá borist aftur yfir verksmiðjuna og síðar yfir Búðareyri. Með hækkandi sól hitnar loftið næst jörðu og verður óstöðugt. Getur þá stöku sinnum orðið svæling (fumigation) þegar hluti mengaðs lofts berst niður til jarðar.
Hættulegri varðandi skammtíma mengun eru þó sennilega miklir hægviðriskaflar með breytilegri vindátt. Sama loftið gæti þá stöku sinnum borist margsinnis yfir álverið og svo yfir Búðareyri.”

Síðan er vitnað til útreikinga NILU o.fl. á dreifingu mengunarefna frá verksmiðjunni, þar sem langtímamengun yfir ár eða misseri er talin viðunandi.

“Skammtímamengun gæti hins vegar stöku sinnum orðið tiltölulega há. Því er þannig spáð að klukkustundargildi geti einstöku sinnum náð viðmiðunargildinu 350 µg/m3 og 24-stunda gildi náð viðmiðunargildinu 50 µg/m3. Verður það að teljast mjög hátt, miðað við hin lágu bakgrunnsgildi SO2 almennt á Íslandi.”

Liðið sumar vantar í myndina

Flestum mun í fersku minni veðrið sem ríkti á Austfjörðum að meðtöldum Reyðarfirði á nýliðnu sumri. Þótt mælingagögn séu til staðar hafa hins vegar ekki verið gerðir dreifingarútreikningar á grundvelli fyrirliggjandi mælinga og svo að skilja að ekki standi til að bæta þar úr. Þannig vantar í úrvinnslu mesta staðviðriskafla sem komið hefur frá því athuganirnar hófust 1998 en niðurstöður myndu að líkindum dekkja þá mynd sem skýrslan annars endurspeglar.
Heimafólk þekkir auðvitað af langri reynslu þau hitahvörf sem fylgja staðviðri í Reyðarfirði og lýsa sér í því að loft er kaldara niður undir sjávarmáli en ofar. Þetta er staðfest með skýrum hætti í hitamælingum í hlíðinni ofan við Sómastaðagerði og sunnan undir Oddsskarði en við slík skilyrði lokast loftmassinn af næst sjó og í honum safnast upp mengandi efni.

Umhverfismat, mengun og starfsleyfi

Verksmiðja Alcoa undirgekkst ekki sjálfstætt mat á umhverfisáhrifum heldur var af Skipulagsstofnun byggt á eldra mati fyrir 420 þúsund tonna verksmiðju. Þar var gert ráð fyrir vothreinsun á útblæstri frá ál- og rafskautaverksmiðju en frá henni var síðan fallið að kröfu Alcoa. Niðurstaðan er sú að ráðgerð 322 þúsund tonna verksmiðja fékk heimild til að losa ferfalt meira magn af brennisteinssamböndum, þótt engin sé rafskautaverksmiðjan. Til að dreifa þessari mengun eru síðan tveir 80 m skorsteinar ráðgerðir á verksmiðjuna. Óumdeilanlegt er að með þessu verða loftgæði lakari en verið hefði með vothreinsun, og bitnar það á því fólki sem ætlað er að búa í þéttbýlinu skammt innan við verksmiðjuna og tekur við afleiðingunum af rekstri hennar. Síðasta skýrsla Veðurstofunnar sýnir með ljósari hætti en áður hve hér er teflt á tæpt vað hvað umhverfi og heilbrigði varðar.
Ábyrgð þeirra sem hér eiga hlut að máli er mikil, en ekki hefur orðið vart við að kjörnir sveitarstjórnarfulltrúar hafi minnstu áhyggjur af þeim aðstæðum sem verið er að skapa íbúum Reyðarfjarðar í framtíðinni. Þar leiðir haltur blindan eins og á fleiri sviðum þessa stóriðjuundirbúnings.

Rannsóknum Veðurstofu hætt

Þessa dagana er verið að leggja af rannsóknakerfi Veðurstofunnar í Reyðarfirði þannig að ekki verður safnað frekari gögnum hliðstæðum þeim sem aflað hefur verið undanfarin 3-6 ár. Aðeins verður rekin ein sjálfvirk stöð áfram við Kollaleiru. Er slíkt með öllu ábyrgðarlaust, því að veðurfarsgögn verða þeim mun áreiðanlegri sem þau ná yfir lengri tíma. Í tengslum við mengun eru það ekki síst skammtímaaðstæður sem mestum skaða geta valdið og því ætti að vera keppikefli að fá sem skýrasta mynd af óhagstæðum skilyrðum. Í starfsleyfi verksmiðjunnar er gert ráð fyrir að teknar verði upp veðurmælingar síðar með sérstökum samningi milli Umhverfisstofnunar og Alcoa, en þær verða annars eðlis og munu ekki gefa heildstæða mynd af þróun veðurfars innan fjarðarins í heild. Markmið stjórnvalda virðist fyrst og fremst hafa verið að berja í gegn tilskildar leyfisveitingar en síðan mega íbúar Reyðarfjarðar eiga sig sem einskonar tilraunadýr og bera áhættu og afleiðingar af losun mengunarefna sem yfir þá verður hellt.


Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim