Hjörleifur Guttormsson 29. apríl 2003

Samfylking og Framsókn saman til Brussel?

Forysta miðjuflokkanna beggja, Framsóknar og Samfylkingar, stefnir eindregið að því að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu. Allt frá því að Halldór Ásgrímsson tók við formennsku í Framsóknarflokknum 1994 hefur hann unnið að því að kúvenda fyrri afstöðu flokksins til Evrópusambandsins. Þetta hefur ekki reynst auðvelt en nú segir um ESB-aðild í kosningastefnuskrá Framsóknar “ ... ljóst að til ákvörðunar kann að koma innan fárra ára”. Um Samfylkinguna þarf enginn að velkjast í vafa eftir að forystan tryggði sér umboð til aðildarviðræðna í umdeildri póstkosningu síðastliðið haust. Um niðurstöðuna sagði Össur Skarphéðinsson í viðtali við Morgunblaðið 29. október 2002: “Þetta þýðir að umboð forystu flokksins í þessum efnum er ákaflega skýrt og afdráttarlaust ... nú er kominn fram stór stjórnmálaflokkur sem hefur afdráttarlaust á sinni stefnu að það beri að sækja um aðild að Evrópusambandinu af fullri alvöru og leggja niðurstöðuna undir dóm þjóðarinnar í atkvæðagreiðslu.” Össur hangir enn í formannssæti en Ingibjörg sem við á að taka þarf ekki í neina endurhæfingu í þessu máli. Þegar árið 1992 var hún komin í sömu spor og Alþýðuflokkurinn í Evrópumálum og valdi þá að ganga þvert gegn stefnu Kvennalistans.

Reynt að blekkja kjósendur

Viðhorf almennings til aðildar að Evrópusambandinu hafa sveiflast til mörg undanfarin ár ef marka má skoðanakannanir. Spurningar hafa líka oft verið misvísandi og byggt á þeirri blekkingu að unnt sé að sækja um aðild að ESB til prufu, nánast til að kanna hvað í boði sé. Evrópusambandið hefur margsinnis tekið af tvímæli um að aðeins samningaviðræður í fullri alvöru koma til greina og íslensk ríkisstjórn sem legði út í slíkt væri því að leggja allt undir. Lengi vel kvartaði Samfylkingin sáran undan því að málið fengist ekki tekið “á dagskrá” hérlendis, mjög í anda þeirrar mæðu sem nú er kennd við Borgarnes. En frá því að Samfylkingin og Framsókn tóku aðildarspurninguna á dagskrá í eigin flokkum hafa skoðanakannanir sýnt síminnkandi fylgi meðal almennings við aðild að Evrópusambandinu. Síðan hefur Samfylkingin hamast við að gera sem minnst úr Evrópustefnu sinni í kosningabaráttunni. Formaður þingflokks Samfylkingarinnar sagði við Fréttablaðið nýverið (23. apríl 2003): “En Samfylkingin mun ekki sækja um ein og óstudd. Það er verkefni næstu ríkisstjórnar að taka afstöðu til málsins.”

Siðleysi Samfylkingarinnar

Kosningabarátta Samfylkingarinnar hefur til þessa skorið sig úr hvað varðar óheiðarlega framgöngu og feluleik gagnvart kjósendum. Reynt er að lokka fólk til fylgis með því að breiða yfir nafn og númer og fela bæði stefnu og stefnuleysi í pússi Ingibjargar. Um stefnuna gildir svipað og lagt er í munn Bakkabræðra: “Botninn er suður í Borgarfirði”. Í mörgum stórmálum er flokkurinn rekald sem ekki veit í hvorn fótinn hann á að stíga. Þetta á við um stærstu viðfangsefni samtíðar eins og umhverfismálin og í anda miðjustefnunnar er ekkert gefið upp um hvert eigi að halla sér ef stjórnarmeirihlutinn fellur 10. maí. Þegar svo kemur að málum þar sem stefna hefur verið mörkuð, eins og um aðild að Evrópusambandinu, er sá kostur valinn að þegja - fyrir kosningar. Færi hins vegar svo að Framsókn og Samfylking fengju meirihluta á Alþingi 10. maí væri þagnarbindindinu lokið og póstkosningin afdráttarlausa frá síðasta hausti réði framhaldinu. Ólíklegt er að Framsókn stæðist þá freistingu að stíga upp í Brussel-lestina, með Ingibjörgu sem vagnstjóra og Halldór áfram sem utanríkisráðherra. Undir kjósendum er komið hvort nægur dampur fæst fyrir slíkt ferðalag.

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim