Hjörleifur Guttormsson 29. apríl 2003

Stuðningur við VG og vinstri stjórn

Alþingiskosningarnar eftir rúma viku skipta miklu um framtíð þjóðmála. Þeir sem vilja breytingu frá núverandi stjórnarstefnu hljóta að velta fyrir sér hvernig atkvæði þeirra gagnist best 10. maí. Raunverulegur möguleiki er á að núverandi þingmeirihluti Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks falli í kosningunum og þá blasir við spurningin hvað taki við. Vinstrihreyfingin grænt framboð boðar velferðarstjórn sem treysti stoðir velferðarkerfisins og tryggi réttlæti á sem flestum sviðum samfélagsins. Í þessu skyni telur VG að létta eigi skattbyrði lágtekjuhópa en gæta þess að hafa nægilegt í sameiginlegum sjóði til að standa undir öflugu, fjölskylduvænu velferðarkerfi.

Forysta Vinstrigrænna segir tæpitungulaust að núverandi stjórnarandstöðuflokkar eigi að taka höndum saman um myndun ríkisstjórnar fái þeir til þess þingmeirihluta 10. maí. Samfylkingin hefur talað óskýrt í þessum efnum eins og mörgum öðrum málum og kýs að halda öllum dyrum opnum, einnig gagnvart Sjálfstæðisflokknum. Enn muna margir eftir “Viðeyjarstjórninni” sem fæddist eftir alþingiskosningarnar 1991 þegar Davíð Oddsson og Jón Hannibalsson tóku höndum saman. Þá völdu kratar samstjórn með Sjálfstæðisflokknum þótt aðrir kostir væru í stöðunni.

Vinstrihreyfingin grænt framboð hefur á Alþingi borið uppi andófið gegn núverandi stjórnarstefnu allt kjörtímabilið. Flokkurinn hefur talað fyrir öflugum og fjölþættum stuðningi við landsbyggðina og lagt fram ábyrga stefnu í sjávarútvegsmálum með það að markmiði að sjávarauðlindirnar verði raunveruleg sameign þjóðarinnar og einstökum byggðarlögum sé tryggður réttlátur skerfur veiðiheimilda. Sjálfbær þróun með samþættingu efnahagslífs, umhverfisverndar og félagslegs réttlætis eru meginstef í stefnu Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs. Flokkurinn vill trausta efnahagsstjórn með velferð að leiðarljósi. Formaður VG, Steingrímur J. Sigfússon, hefur mikla stjórnmálareynslu að baki og var ráðherra í ríkisstjórn sem lagði grunninn að svonefndri þjóðarsátt um 1990.

Vilji menn í raun sjá hér við völd eftir kosningar vinstri stjórn sem tryggi velferð og jöfnuð óháð búsetu þarf Vinstrihreyfingin grænt framboð að fá atkvæði sem flestra í alþingiskosningunum.

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim