Hjörleifur Guttormsson | 1. september 2004 |
Reyðfirðingar í herkví Sótt er nú að umhverfi Reyðfirðinga úr mörgum áttum. Framkvæmdir eru hafnar við byggingu risaálvers sem með fyrirhuguðum búnaði mun losa heilsuspillandi mengunarefni yfir fjörðinn, menn og náttúru, allan starfstíma verksmiðjunnar. Tvær samsíða raflínur Landsvirkjunar munu girða þéttbýlið af með 30-40 m háum möstrum og spilla svipmóti eins fegursta fjarðardals hérlendis, leggja undir sig Áreyjadal og Þórdalsheiði, að ekki sé talað um Skriðdal og Fljótsdal. Menn hljóta að spyrja hvort fólki sé sjálfrátt að kalla slík hervirki yfir sig og það án þess að reisa kröfur um úrbætur sem draga myndu úr mengun og verstu afleiðingum þessara mannvirkja. Athugasemdir og málshöfðun Sá sem þetta ritar gerði við annan mann fjölmargar athugasemdir við framkvæmdaáformin um lagningu Fljótsdalslína 3 og 4 á meðan mat Skipulagsstofnunar á umhverfisáhrifum stóð yfir og kærði síðan úrskurð skipulagsstjóra um óbreytt línustæði til umhverfisráðherra. Eina breytingin sem fékkst fram með þessum málarekstri snerti línustæðin á Hallormsstaðahálsi, en af hálfu Reyðfirðinga eða Fjarðabyggðar komu á þeim tíma engar undirtektir við kröfur um breytingar. Vegna mats og starfsleyfis sjálfrar álverksmiðjunnar er af hálfu undirritaðs í gangi dómsmál á hendur Alcoa og ráðherrum. Enn geta menn reist rönd við þessum hervirkjum í stað þess að láta þau yfir sig ganga í óbreyttri mynd. Engu skeytt um gersemar Framkvæmdaáformin eru satt að segja með fádæmum jafnt í smáu og stóru. Í næsta nágrenni þéttbýlisins á Reyðarfirði eru náttúrugersemar tengdar Búðará og Njörvadalsá, fossum og gljúfrum sem til þessa hafa verið augnayndi manna kynslóð fram af kynslóð. Einstigsfossgljúfur milli Seljateigs og Kollaleiru er fágæt náttúrusmíð örskammt ofan alfaraleiðar. Raflínurnar munu samkvæmt útmælingu þvera ána við Árnastekk rétt ofan við Einstigsfoss og sú efri sýnist fyrirhuguð fast neðan við einstaklega fagran nafnlausan foss í Njörvadalsá. Við hlið hans fellur Selá innan frá Sellöndum í öðrum sérstæðum fossi. Við Búðarárfoss og gilið sem honum tengist fer að óbreyttu á sömu leið. Við þetta bætist virðingarleysi fyrir þjóðminjum og gömlum byggingum sem birtist í tengslum við þessi mannvirki og er umgengnin við gamla Sómastaðahúsið þar lýsandi dæmi. Ekki of seint að andæfa Er mönnum sjálfrátt að láta fara þannig með umhverfi sitt? Vissulega getur verið erfitt fyrir fólk að setja sig í tæka tíð og í einstökum atriðum inn í framkvæmdaáform eins og þau sem hér um ræðir. Menn eiga hins vegar ekki að láta kveða sig í kútinn með hótunum og staðhæfingum framkvæmdaraðila eins og Landsvirkjunar um að kostnaður vegna umhverfissjónarmiða jafngildi því að ekkert verði úr byggingu álversins. Slíkt eru vel þekktar og ósvífnar aðferðir en virðast hafa dugað vel á marga til þessa. Hver trúir því að miljarður vegna jarðstrengs ofan byggðar eða sæstrengs yfir Reyðarfjörð skipti sköpum í heildarkostnaði Landsvirkjunar og raforkuverði til auðhringsins? Enn er ekki of seint að rísa upp og reyna að bjarga einhverju, þó ekki væri nema vegna sóma manna og æru. Hjörleifur Guttormsson |