Hjörleifur Guttormsson 1. september 2004

Stríðshetja á stól forsætisráðherra

Nú styttist óðum í að á stól forsætisráðherra á Íslandi setjist staðföst stríðshetja. Enginn utanríkisráðherra á Vesturlöndum hefur sýnt viðlíka þrautseigju og Halldór Ásgrímsson til stuðnings hryðjuverkastríði Bandaríkjastjórnar gegn Írak. Á sama tíma og hver þjóðarleiðtoginn á fætur öðrum allt frá Filippseyjum til Spánar hefur lyppast niður og brugðist Bush forseta hefur Halldór harðnað í stuðningi sínum við þetta olíustríð hans og Dick Cheneys. Ekki ber á að Framsóknarmenn kveinki sér við að fylgja foringja sínum í þessum leiðangri, konur jafnt sem karlar, og þarf nokkra fórnarlund til.

Írakstríðið er sem kunnugt er skýlaust brot gegn alþjóðalögum og sáttmála Sameinuðu þjóðanna og í það ráðist á upplognum forsendum um gjöreyðingavopn í höndum Saddams Husseins. Í ákafa sínum við að fá í hendur sönnunargögn gegn Saddam sendi Halldór íslenska vopnaleitarmenn til Landsins milli fljótanna. Leið ekki á löngu áður en þeir drógu fram torkennilegar sprengjuleifar undan vegkanti í alfaraleið. Formaður Framsóknarflokksins beið ekki boðanna, kallaði saman blaðamannafund og lýsti yfir að hér væru sönnunargögnin fundin. Þóttu það tíðindi þvert ofan í staðhæfingar Hans Blix hins sænska og minni spámanna í leitarliði Sameinuðu þjóðanna. Fljótt dofnaði þó yfir þessari “heimsfrétt” Mr. Ásgrímssonar, en staðfesta hans og trú reyndist óbilandi.

Nú er svo komið að sjálfur Bush er farinn að draga í land og pyntingameistarinn Rumsfeld orðinn valtur í sessi. En Framsóknarmenn á Íslandi standa þétt um Halldór Ásgrímsson, konur jafnt sem karlar, og gera honnör þegar foringinn staðfasti klifrar upp eftir bökum þeirra í langþráð hásæti.


Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim