Hjörleifur Guttormsson 2. apríl 2004

Menningarlegt stórvirki

Ég get ekki orða bundist eftir að hafa gripið niður í þriggja binda ritverk þeirra Örlygs Hálfdanarsonar, Magnúsar Kristinssonar og Árna Björnssonar sem ber heitið Úr torfbæjum inn í tækniöld. Hér er á ferðinni stórvirki af þeim toga að einstætt verður að teljast og fágætur viðburður í annars blómlegri flóru íslenskrar bókaútgáfu. Rætur þessa verks teygja sig suður á Þýskaland þar sem ritstjórinn Magnús Kristinsson nú er búsettur og til þýskra ferðalanga og fræðimanna sem lögðu leið sína aftur og aftur til Íslands á árunum milli stríða, vel búnir til myndatöku og uppteiknana af íslensku þjóðlífi og gagnmunum þess tíma. Þetta voru þeir Hans Kuhn, Reinhard Prinz, Bruno Schweizer og Erich Consemüller, þá ungir og ótrauðir og vakti ferðamáti þeirra mikla athygli landans. Tengsl þessara manna voru misjafnlega náin, en tveir þeirra kvæntust íslenskum konum, náðu fullkomnu valdi á íslensku máli og héldu tengslum við land og þjóð langt fram eftir 20. öld. Frá Þjóðverjunum er kominn meirihluti þeirra yfir 2000 ljósmynda sem prýða bækur þessar, margar hverjar af bestu gæðum og í heild einstakar heimildir um land og þjóð á árunum milli stríða. Það sama má segja um uppdrætti og ljósmyndir af um 400 nytjamunum sem Hans Kuhn safnaði og varðveittir eru á Museum für Völkerkunde í Hamborg.

Tilkoma þessa ritsafns er nánast reyfarakennd ef litið er til þeirra atburða sem komu Örlygi og Magnúsi á sporið og þess samstarfs sem síðar tókst með þeim um útgáfuna. Hvor um sig hafði byrjað að spinna þræði að ritum sem byggðu á gögnum þýsku ferðalanganna en það er síðan fyrir stórhug og elju Örlygs sem útgefanda að úr verður sú heild sem hér liggur fyrir í þremur bindum. Ítarleg umfjöllun Árna Björnssonar þjóðháttafræðings um íslenskt mannlíf milli stríða sem er meginefni 1. bindis tengir það sem á eftir kemur saman í eina heild þannig að úr verður saga um tímabil sem lengi hefur legið hjá garði og notið takmarkaðrar athygli hérlendis. Það vekur satt að segja furðu mína að þetta verk skuli ekki hafa þótt nánast sjálfkjörið til verðlauna á síðasta ári, að þeim bókum ólöstuðum sem þá hlutu viðurkenningu.

Með þessu stórfenglega ritverki hafa þeir sem að því komu átt hlut að björgun menningarverðmæta sem mörg hver hefðu ella farið forgörðum eða verið hulin komandi kynslóðum. Nægir þar að nefna heimildagildi ljósmynda, myndtexta og viðtala við fólk sem margt hefur horfið af vettvangi á þeim tíma sem liðinn er frá því byrjað var að efna í útgáfuna. Örlygur Hálfdanarson hefur bjargað mörgu í hús af svipuðum toga á löngum ferli sem útgefandi. Nægir þar að minna á úrval úr verkum Daniels Bruun undir heitinu Íslenskt þjóðlíf í þúsund ár sem út kom fyrir hálfum öðrum áratug og ritsafnið Landið þitt Ísland.

Sá sem þetta ritar gleymdi sér í nokkra daga yfir þessu síðasta stórvirki Bókaútgáfunnar Örn og Örlygur. Þess er að vænta að margir leiti í þann brunn sem hér bíður þeirra sem hafa áhuga á að tengja saman nútíð og fortíð, landið og söguna. Ég held fátt eigi betur heima í höndum ungmenna en þetta nútímalega og skemmtilega safn frá veröld sem var en sem liggur ótrúlega skammt að baki í árum talið.


Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim