Hjörleifur Guttormsson 3. júní 2004

Stefnir í þingrof og kosningar?

Eftir að forseti Íslands tók ákvörðun um að synja fjölmiðlalögunum staðfestingar eru líkur til að á þessu ári verði ekki aðeins kosið til embættis forseta Íslands heldur muni Davíð Oddsson rjúfa þing og kosið verði til Alþingis síðar á árinu. Þótt samstarf stjórnarflokkanna hafi á yfirborðinu verið slétt og fellt og formenn þeirra lofað hvor annan hástöfum blasir við að vaxandi ókyrrðar gætir innan Framsóknarflokksins og tök Halldórs Ásgrímssonar eru ekki hin sömu og verið hefur. Þetta birtist í umræðu og afstöðu til fjölmiðlafrumvarpsins en jafnframt er ljóst að utanríkisráðherrann á í vök að verjast vegna stefnu sinnar og fylgispektar við Bandaríkin og Breta í Írakstríðinu. Við þetta bætast loforðin um skattalækkanir, þar sem Framsóknarflokkurinn keppti við Sjálfstæðisflokk og Samfylkingu í yfirboðum í aðdraganda kosninga 2003. Athygli vekur að Halldór bar sig ekki saman við Davíð áður en hann tjáði sig um ákvörðun forsetans og það eitt og sér mun ekki bæta andrúmsloftið í flokkum þeirra hvors í annars garð.

Fjölmiðlalögin og þjóðaratkvæði

Fyrr í sögu lýðveldis okkar hafa verið ærin tilefni til þjóðaratkvæðagreiðslu á grundvelli 26. greinar stjórnarskrárinnar. EES-löggjöfin er ljósasta dæmið frá síðustu áratugum. Slík ákvörðun forseta 1993 hefði vart orðið jafn umdeild og nú sýnist stefna í um það skref sem Ólafur Ragnar Grímsson hefur stigið. Þar var á ferðinni augljós skerðing á fullveldi þjóðarinnar eins og menn hafa þráfaldlega orðið varir við síðan. Fjölmiðlalögin eru af allt öðrum toga og umræðan um þau hefur snúist meira um form en innihald. Sá sem þetta skrifar er eindregið þeirrar skoðunar að lögfesta þurfi leikreglur um fjölmiðla til að setja fjármálafyrirtækjum skorður á þessu mikilvæga sviði, þótt umbúnaður slíkra laga sé álitaefni eins og títt er um löggjöf. Eins og málið nú liggur fyrir almenningi er hætt við að þjóðaratkvæðagreiðsla snúist um allt annað en lagabókstafinn og verði einkum um traust eða vantraust á sitjandi ríkisstjórn en ekki um efnisatriði málsins.

Skyggir á önnur stórmál

Gallinn við umræðu síðustu mánaða um fjölmiðlarekstur er hversu óskýr hún hefur verið og oft langt frá kjarna máls. Á því eiga bæði stjórnmálamenn og fjölmiðlar sína sök. Af hálfu stjórnarflokkanna voru gerð þau reginmistök að liggja á fjölmiðlaskýrslunni svonefndu allt þar til þeir höfðu kokkað frumvarp sitt um málið. Það var framlenging á vinnubrögðum sem gætt hefur í vaxandi mæli í löngu samstarfi Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks. Í stað þess að byrja fjölmiðlaumræðuna á almennum forsendum um þörf lagasetningar breyttist hún í karp um form og starfsstíl en sjálft tilefnið varð útundan. - Önnur stórmál í samfélaginu og á dagskrá síðasta Alþingis, meðal annars mál tengd stóriðjuframkvæmdum og stríðsrekstri, hafa fallið í skuggann af þessu fjölmiðlagosi og er þó aðeins fyrsta hrinan afstaðin. Hætt er við að margir verði orðnir leiðir og dasaðir áður lýkur og ríkisstjórnin eigi erfitt með að fóta sig við ráðherraskiptin að hausti. Afleiðingar af ákvörðun forsetans geta því orðið aðrar og miklu víðtækari en í henni felst að formi til. Ekki er sjálfgefið að hún verði til að styrkja lýðræði á Íslandi til langframa, en að því þurfa þó sem flestir að hlúa.


Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim