Hjörleifur Guttormsson 5. júlí 2004

Innflutningur lífvera, hvað líður stefnumörkun?

Víða um lönd berjast menn nú við afleiðingar af flutningi manna á lífverum milli landa og heimshluta. Sumt í þessum efnum hefur gerst í grandaleysi nánast fyrir tilviljun en einnig er um ákvarðanir að ræða sem menn töldu vera til hagsbóta en hafa á ýmsum tilvikum reynst hermdargjöf og snúist í andstöðu sína. Er þar bæði um að ræða dýra- og plöntutegundir og höfum við Íslendingar ekki farið varhluta af því. Klassísk dæmi eru minkur og lúpína en fleira hefur bæst í það safn án þess vart verði stefnumörkunar og viðbragða af hálfu stjórnvalda eins og lög þó kveða á um.

Alþjóðasamningar og innlend löggjöf

Í ýmsum aðþjóðasamningum og samþykktum sem Ísland er aðili að eru ákvæði sem kveða á um aðgát við flutning lífvera milli landa og er stöðugt að bætast í það safn. Grunnur var lagður með Sáttmálanum um verndun líffræðilegrar fjölbreytni, sem íslensk stjórnvöld undirrituðu í Ríó 1992 og Alþingi staðfesti 1994 svo og með Bernarsamningnum um verndun villtra plantna, dýra og lífsvæða í Evrópu, en hann hefur verið í gildi hvað Ísland varðar frá árinu 1993. Á síðasta ári var á vegum aðila að þeim samningi samþykkt sérstök stefnumörkun (strategy) um innflutning framandi tegunda. Á síðasta áratug flutti undirritaður ítrekað frumvarp til laga um málsmeðferð varðandi innflutning plantna svo og um gróður- og landslagsvernd. Varð það til þess að í lög um náttúruvernd (nr. 44/1999) voru tekin ákvæði um innflutning ræktun og dreifingu lifandi lífvera (41. gr.) og sérstakur kafli um landslagsvernd. Eins og lögin kveða á um setti umhverfisráðherra sérstaka reglugerð (nr. 583/2000) með það að markmiði “ ... að koma í veg fyrir að útlendar plöntutegundir valdi óæskilegum breytingum á líffræðilegri fjölbreytni í íslenskum vistkerfum”. Skipaði ráðherra sérfræðinganefnd um málið sér til fulltingis, bæði að því er varðar dýr og plöntur. Í nefndinni eiga sæti fimm fulltrúar og jafn margir til vara og er formaður hennar Sigurður Á. Þráinsson tilnefndur af ráðherra.

Ótrúlegur seinagangur

Fimm árum eftir skipun nefndarinnar virðist sem sáralítið bitastætt hafi komið út úr starfi hennar, a. m. k. að því er varðar innflutning og ræktun plantna og hefur jafnvel meira en ár liðið á milli funda í nefndinni. Með þessu háttalagi eru stjórnvöld að bregðast lögboðinni skyldu en vandinn sem við er að fást vex ár frá ári eins og allir sjá sem hafa augu opin og eitthvað þekkja til gróðurríkisins. - Alaskalúpínan er öllum sýnileg, dæmigerð innrásarplanta í íslensku umhverfi sem festir ekki aðeins rætur á ógrónu landi heldur dreifist yfir lyngmóa og kæfir lágvaxinn gróður sem fyrir er. Innan fárra áratuga mun lúpína ef ekkert er að gert þekja hlíðar og láglendi í heilu landshlutunum. Fleiri ágengar tegundir hafa bæst í þennan hóp svo sem skógarkerfill og nú síðast tröllahvönn sem er alþekkt og vaxandi vandamál í nágrannalöndum eins og Danmörku. Hvað dvelur menn að bregðast við svo augljósum vanda og stórspjöllum á íslenskri náttúru?


Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim