Hjörleifur Guttormsson 6. febrúar 2004

Stjórnmálaafl á traustum grunni

Rætur VG liggja víða

Vinstrihreyfingin grænt framboð er fimm ára um þessar mundir og við sem að henni stöndum fögnum ávinningum og lítum fram á veg. Flokkurinn var formlega stofnaður 6. febrúar 1999 eftir nokkurra mánaða undirbúning. Aðdraganda að tilkomu þessa nýja stjórnmálaafls má hins vegar rekja lengra til baka þegar tekist var á um framtíð Alþýðuflokks, Kvennalista og Alþýðubandalags og skilningur manna óx og dýpkaði á umhverfismálum. Átökin innan nefndra flokka og tilkoma Samfylkingarinnar 1998 varð kveikjan að flokksstofnun Vinstri grænna. Þeir sem að henni stóðu gerðu sér ljóst að ekki var á vísan að róa um fylgi til að ná fótfestu á Alþingi í kosningunum 1999 og að mikið þurfti til. Með skýrum stefnumiðum, raunsæi og bjartsýni tókst það hins vegar og árangurinn, 6 þingmenn, fór fram úr björtustu vonum. Stuðningurinn kom úr mörgum áttum og reið það baggamuninn. Nafngift flokksins endurspeglar vel meginstoðirnar frá byrjun, klassísk vinstri gildi um jafnræði og græn umhverfisstefna sem æ fleiri gera sér grein fyrir að er lykillinn að farsælli framtíð mannkyns.

Flokkur í umróti stórátaka

Á fimm ára ferli sínum hefur Vinstrihreyfingin grænt framboð markað skýr og djúp spor í íslenskum þjóðmálum. Stjórnarandstaða á Alþingi hefði ekki verið svipur hjá sjón og fjöldi fólks talið sig vanta málsvara ef raddir fulltrúa VG hefðu ekki hljómað þar dag hvern á starfstíma þingsins. En flokkurinn hefur jafnframt megnað að vera þátttakandi í lýðræðislegri umræðu um land allt, í fjöldasamtökum og áhugamannafélögum. Stefna ríkjandi stjórnarmeirihluta hefur markað átakalínurnar, ekki síst stóriðjumálin sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur keyrt fram af mikilli hörku og óbilgirni. Þar hlutu Vinstri grænir að lenda í framlínu átakanna ásamt náttúruverndarfólki og fjölda manns sem gagnrýninn er á áliðnað útlendra fjölþjóðafyrirtækja sem þungamiðju í atvinnuþróun.
En einnig á öðrum sviðum, svo sem í baráttunni gegn einkavæðingu grunnþjónustu, hefur mætt á Vinstri grænum umfram aðra í stjórnarandstöðu. Við þessar aðstæður má það teljast árangur að halda nokkurn veginn í horfinu í alþingiskosningunum á síðasta ári.

Framtíðarverkefni og vegvísar

Vinstrihreyfinguna grænt framboð skortir ekki viðfangsefni. Flokkur sem tekur alvarlega stefnumið sín um sjálfbæra þróun, félagslegt réttlæti og friðarstefnu á alþjóðavettvangi hefur verk að vinna. Það er langt frá því sjálfgefið að á tímum þegar ýtt er undir einstaklingshyggju á kostnað samfélagsvitundar gefi fólk starfi innan stjórnmálaflokka mikið af kröftum sínum í dagsins önn. Þeim mun gleðilegra er að sjá margt æskufólk koma til liðs við Vinstri græna og ungliðahreyfingu flokksins eins og landsfundur í byrjun vetrar endurspeglaði. Ekkert kemur í staðinn fyrir skilning á því að það skipti máli að standa saman um hugsjónir og sameiginleg gildi og að starf innan stjórnmálaflokka skipti máli í því sambandi. Vinstrihreyfingin grænt framboð þarf í senn að halda uppi fræðslu og umræðu um samtímann og æskilega þróun en jafnframt vera tilbúin til að axla ábyrgð og leita samstöðu víða til að tryggja áfangasigra.


Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim