Hjörleifur Guttormsson 7. júlí 2004

Mjólkað til blóðs við Sómastaði

Sjö ár eru liðin frá því að stjórnvöld tilkynntu um fyrirhugaða samninga um risaálver á Reyðarfirði. Á ýmsu hefur gengið síðan, bæði varðandi virkjun og verksmiðju og enn hefur ekki öllum hindrunum verið rutt úr vegi þrátt fyrir ofurkapp stjórnvalda. Sá sem þetta skrifar hefur stefnt Alcoa og íslenska ríkinu og krafist ógildingar á úgefnu starfsleyfi verksmiðjunnar og úrskurðum um mat á umhverfisáhrifum hennar. Úrslit þeirra málaferla ráðast á næstu misserum.

Bæði Kárahnjúkavirkjun og álverksmiðjan eru alltof stórar fjárfestingar fyrir íslenskt efnahagslíf, eins og þegar er komið á daginn. Fyrir fámenn byggðarlög Austurlands eru framkvæmdir af þessari stærð glapræði sem á eftir að reynast dýrkeypt. Neikvæð áhrif á þann rekstur sem fyrir er eru þegar farin að segja til sín. Viðurkennt er af flestum að fórnir á náttúrufari fjórðungsins vegna Kárahnjúkavirkjunar séu miklar og óafturkræfar enda fékk virkjunin falleinkunn við mat á umhverfisáhrifum. Hitt dylst mörgum að félagleg áhrif af rekstri risaálverksmiðju á Reyðarfirði geta til lengri tíma litið orðið mikil hermdargjöf. Hvað umhverfisáhrif varðar er tekin óhæfileg heilsufarleg áhætta fyrir það fólk sem ætlað er að búa á Reyðarfirði næstu áratugi.

Ákvarðanir sem leitt hafa til svokallaðs upphafs framkvæmda með skóflustungu nú 8. júlí hafa einkennst af hroðvirkni og valdníðslu. Lög hafa verið brotin og eðlileg stjórnsýsla að engu höfð. Einna dapurlegast hefur verið að fylgjast með undirlægjuhætti sveitarstjórnarmanna sem í engu hreyfðu athugasemdum varðandi mat á umhverfisáhrifum og mengunarvarnir. Tröllaukin verksmiðjubygging með óhæfilega losun mengandi efna er eitt, risaraflínur í næsta nágrenni þéttbýlisins á Reyðarfirði annað og þær munu setja svip sinn á dali og heiðar allt til Fljótsdals. Sárið sem rist er í ásýnd Austurlands verður djúpt ef þetta gengur fram, tvísýnust þó af öllu sú samveita stórfljóta sem felst í Kárahnjúkavirkjun og enginn sér fyrir afleiðingar af.

Alcoa sem fjarlægur auðhringur er eigandi verksmiðjunnar og fær til hennar orku sem greidd verður niður um áratugi af íslenskum notendum, heimilum og atvinnurekstri. Slíkum fjölþjóðafyrirtækjum fylgir valdboð sem heimamönnum og landsstjórninni verður gert að hlíta svo lengi sem fyrirtækið telur sé hag í að stunda rekstur á Reyðarfirði. Nái það hér fótfestu verður mjólkað til blóðs við Sómastaði uns aðrir kostir finnast arðvænlegri fyrir hluthafana vestanhafs .


Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim