Hjörleifur Guttormsson 9. janúar 2004

Alþjóðahorfur í umhverfismálum

Loftslagsbreytingar af mannavöldum

Alvarlegustu tíðindin fyrir umhverfi jarðar á árinu 2003 tengjast bakslagi í loftslagsmálum og áframhaldandi andstöðu voldugra ríkja við aðild að Kyótóbókuninni. Þar skiptir mestu stefna Bandaríkjastjórnar, langstærsta mengunarvaldsins, sem hafnar að eiga aðild að þessu mikilvæga skrefi til að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda. Vonir voru bundnar við að þrátt fyrir þetta tækist að hrinda bókuninni í framkvæmd en hik og óvissa af hálfu Rússlands hefur dregið úr líkum á að það takist. Þetta gerist á sama tíma og þeim röddum fækkar stöðugt sem draga í efa að framferði manna með sívaxandi losun gróðurhúsalofttegunda sé meginvaldur að hækkandi meðalhita á jörðinni og þeim breytingum sem fylgja.

Afleiðingarnar ógnvænlegar

Fjöldi vísindagreina birtust á árinu sem leið um rannsóknir á afleiðingum loftslagsbreytinganna auk forsagna um hugsanleg áhrif. Áhrifanna verður vart á fjölmörgum sviðum í umhverfi jarðar og birtast m. a. í vaxandi sveiflum eða “öfgum” í veðurfari, aukinni tíðni skaðvænlegra storma, úrkomu langt umfram meðaltal og flóðum á sumum svæðum en þurrkum annars staðar, rýrnun jökla og tilfærslu tegunda í lífríkinu. Tilveru fjölda tegunda lífvera er ógnað eins og dregið var fram undir árslokin í niðurstöðu hóps vísindamanna sem birtu niðurstöður sínar í fagtímaritinu Nature. Á grundvelli rannsókna leiða þeir líkur að því að meira en þriðjungur dýra- og plöntutegunda á þurrlendi geti átt eftir að deyja út fram til ársins 2050, ef ekki takist að koma böndum á gróðurhúsaáhrifin.

Mannkyn allt á mikið undir

Afleiðingar loftslagsbreytinganna láta engan ósnortinn og fyrir mannkynið sem heild er mikið í húfi að komið verði böndum á mengun lofthjúpsins af mannavöldum. Þeir sem standa höllum fæti fyrir, sá hluti mannkyns sem býr við sárustu fátækt, á jafnframt erfiðast með að verjast og bregðast við breytingunum. Þannig er búist við að straumur fólks á flótta undan umhverfisbreytingum verði innan tíðar meira vandamál en flótti vegna ófriðar og styrjalda hefur verið síðustu áratugi. Vegna hækkandi sjávarborðs er tilvist fólks á láglendum smáeyjum ógnað, og í þeim hópi er á fjórða tug ríkja sem aðild eiga að Sameinuðu þjóðunum. En einnig ríku löndin komast ekki undan vaxandi erfiðleikum í aðlögun að breyttu veðurfari. Það er líka langt frá því gefið að hækkun meðalhita dreifist jafnt yfir hnöttinn. Á sumum svæðum getur röskunin valdið breytingu á hafstraumum og verulegri kólnun í kjölfarið. Þar beinast sjónir einkum að veikari Golfstraumi og hættu á kuldaskeiði við Norður-Atlantshaf. Allt þetta samanlagt ætti að vera meira en nóg til að heimsbyggðin sameinist um aðgerðir og þar er Kyótóbókunin aðeins örlítið fyrsta skref.

Ósjálfbærir lífshættir

Undirrót geigvænlegrar röskunar á umhverfi jarðar eru ósjálfbærir lifnaðar- og neysluhættir í iðnvæddum þjóðfélögum sem knúðir eru áfram af ódýru jarðefnaeldsneyti. Margt fleira en losun gróðurhúslofttegunda kemur þar til. Losun ótölulegs grúa manngerðra efnasambanda og skaðlegra eiturefna út í náttúruna er farin að valda stórfelldum skaða á lífríki og heilsutjóni meðal manna, ekki síst í velmegandi hluta heimsins. Sumt af þessum efnum veldur ófrjósemi og dregur úr framleiðslu kynfruma, einnig hjá mönnum. Efnisleg sólund og eyðing náttúruauðlinda og búsvæða er fylgifiskur neysluþjóðfélaga þar sem ekki er hirt um annað en stundarhag. Ríkjandi hagkerfi þar sem álag á umhverfi og náttúruauðlindir er í engu metið virðist ófært um að stuðla að sjálfbærri þróun. Sem flestir þurfa nú að leggjast á árar til að stöðva þetta feigðarflan. Það er nýársgjöfin sem máli skiptir.

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim