Hjörleifur Guttormsson 9. nóvember 2004

Kjaramál kennara og hlutur stjórnvalda

Verkfall kennara í grunnskólum hófst á ný í morgun 9. nóvember eftir að 93% kennara höfðu í allsherjaratkvæðagreiðslu fellt svokallaða miðlunartillögu sáttasemjara. Forsætisráðherra lýsti þeirri tillögu á dögunum sem miklum ávinningi fyrir kennara, menntamálaráðherrann tók henni fagnandi og launanefnd sveitarfélaga samþykkti hana einróma. Kennarar reyndust á öðru máli enda mátti öllum vera ljóst fyrirfram að tillagan næði ekki fram að ganga. Berlega hefur komið í ljós að hvorki ríkisstjórn né sveitarfélög hafa skilning á kröfum kennara og hvað til þurfi svo leysa megi þessa erfiðu deilu farsællega. Störf kennara hafa lengi verið stórlega vanmetin og augljóst að grunnskólakennarar hafa dregist aftur úr í launum miðað við aðrar háskólamenntaðar starfsstéttir. Það er því ekkert annað en veruleg hækkun launa frá því sem boðið hefur verið sem getur leyst þessa deilu við samningaborð.

Lítið breyst á einum áratug

Í ársbyrjun 1995 áttu kennarar í hörðu verkfalli en þá var ríkisstjórn Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks við völd og Friðrik Sófusson fjármálaráðherra. Sú deila var tilefni stuttrar umræðu utan dagskrár á Alþingi 25. febrúar 1995 þar sem Páll Pétursson var málhefjandi. Verkfall hafði þá staðið á aðra viku. Við það tilefni sagði undirritaður (Hjörleifur Guttormsson) skv. þingskjölum:

„Virðulegur forseti. Skólarnir í landinu, grunnskólinn, er einhver stærsta stofnun og sennilega fjölmennasta þegar nemendur eru meðtaldir í öllu landinu og það skiptir miklu fyrir framtíð þjóðarinnar og framtíð okkar barna að starfsemi þar geti farið fram með reglubundnum og góðum hætti. Hluti af því er að búa því fólki sem vinnur á þessum stað þannig kjör og umhverfi að það geti rækt störf sín þokkalega og finni að það njóti sæmilegrar sanngirni frá vinnuveitanda sínum. Ég held að það hafi verið um langa hríð svo að kennarastéttin í landinu, jafnt í grunnskólum sem í framhaldsskólum, hafi ekki notið þeirra réttinda í samskiptum við vinnuveitandann sem skyldi. Ég held að börnin okkar eigi það inni hjá stjórnvöldum í landinu að þau ráði bót á þessu. Það verkfall sem nú stendur yfir er auðvitað hneisa, að það skuli hafa verið látið skella á, að það skyldi ekki vera leyst áður en til þess kom. Verkfallsrétturinn og umbúnaðurinn um hann að því er varðar kennarastéttina er meingallaður og það bitnar á samtökum kennara.
Það frv. sem hér hefur verið til umræðu daga og nætur um hríð á Alþingi Íslendinga er ekki þannig í stakk búið að það sé líklegt til þess að leiða til lausnar á þessu máli. Það er því hluti af lausn þessa máls að hæstv. menntmrh. og ríkisstjórnin öll sjái að sér í þessum efnum. Það er ekki réttmætt að setja kennara undir lög þar sem óljóst er í mörgum grundvallaratriðum hvernig að þeim verði búið í framhaldinu. Ríkisstjórnin ber ábyrgðina, við þingmenn hljótum að knýja á um það að þingið verði ekki sent heim með þetta mál í þeirri kyrrstöðu og við þær aðstæður sem nú ríkja í skólum landsins.”

Nú eru sveitarfélög vinnuveitandi grunnskólakennara en ríkisstjórnin ber eftir sem áður höfuðábyrgð á menntamálum. Fólkið í landinu á að gera þá kröfu að þessir aðilar sameinist um lausn deilunnar með óhjákvæmilegri leiðréttingu á kjörum grunnskólakennara.


Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim