Hjörleifur Guttormsson | 9. nóvember 2004 |
Kjaramál kennara og hlutur stjórnvalda Verkfall kennara í grunnskólum hófst á ný í morgun 9. nóvember eftir að 93% kennara höfðu í allsherjaratkvæðagreiðslu fellt svokallaða miðlunartillögu sáttasemjara. Forsætisráðherra lýsti þeirri tillögu á dögunum sem miklum ávinningi fyrir kennara, menntamálaráðherrann tók henni fagnandi og launanefnd sveitarfélaga samþykkti hana einróma. Kennarar reyndust á öðru máli enda mátti öllum vera ljóst fyrirfram að tillagan næði ekki fram að ganga. Berlega hefur komið í ljós að hvorki ríkisstjórn né sveitarfélög hafa skilning á kröfum kennara og hvað til þurfi svo leysa megi þessa erfiðu deilu farsællega. Störf kennara hafa lengi verið stórlega vanmetin og augljóst að grunnskólakennarar hafa dregist aftur úr í launum miðað við aðrar háskólamenntaðar starfsstéttir. Það er því ekkert annað en veruleg hækkun launa frá því sem boðið hefur verið sem getur leyst þessa deilu við samningaborð. Lítið breyst á einum áratug Í ársbyrjun 1995 áttu kennarar í hörðu verkfalli en þá var ríkisstjórn Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks við völd og Friðrik Sófusson fjármálaráðherra. Sú deila var tilefni stuttrar umræðu utan dagskrár á Alþingi 25. febrúar 1995 þar sem Páll Pétursson var málhefjandi. Verkfall hafði þá staðið á aðra viku. Við það tilefni sagði undirritaður (Hjörleifur Guttormsson) skv. þingskjölum:
Nú eru sveitarfélög vinnuveitandi grunnskólakennara en ríkisstjórnin ber eftir sem áður höfuðábyrgð á menntamálum. Fólkið í landinu á að gera þá kröfu að þessir aðilar sameinist um lausn deilunnar með óhjákvæmilegri leiðréttingu á kjörum grunnskólakennara. Hjörleifur Guttormsson |