Hjörleifur Guttormsson | 10. desember 2004 |
Um brimgarðinn sem við blasir Mannlegt samfélag er helsjúkt, Vesturlönd öðrum verri, en aðrir hlutar heimsins eru á sama spori. Meinsemdin er samfélagsþróun sem vinnur gegn lífshagsmunum mannkyns í eiginlegri merkingu með því að spilla umhverfinu og eitra fyrir lífsskilyrðum fyrir allt sem anda dregur á plánetunni Jörð. Er þetta ekki ofmælt, eitthvert ruglið úr heimsendaórum manna sem ala með sér neikvæð viðhorf til alls og allra? Betur að satt væri. Lítum því nánar á hvað býr að baki svona staðhæfingu. Ógnvænlegar hættur Mannleg umsvif eru orðin slík að þau breyta með sívaxandi hraða umhverfi okkar og valda skaða, ekki aðeins úti í náttúrunni heldur í líkama okkar hvers og eins. Öfugþróunin birtist í gegndarlausri orkusóun sem bætir í gróðurhúsaloft, í ofurálagi á náttúruauðlindir lands og sjávar, í framleiðslu sífellt fleiri skaðlegra mengandi efna sem berast út í umhverfið. Loftslagsbreytingar af mannavöldum eru einar og sér slík ógn, til viðbótar við annað álag á umhverfið, að stríð og hörmungar liðinnar aldar blikna í samanburði. Hundruðir miljóna munu flosna upp vegna ágangs sjávar og annarra náttúruhamfara sem tengjast breytingum á veðurkerfum og hafstraumum. Fólksfjölgunin frá 6 miljörðum í 9 miljarða sem blasir við í tíð einnar kynslóðar magnar álagið á búvæði jarðar sem mörg hver eru komin að þolmörkum. Ofnýting og eyðing fiskistofna og hröð eyðimerkurmyndum á áður frjósömum landsvæðum eru staðreyndir sem við blasa. Ferskvatn er þegar orðið takmörkuð auðlind á stórum svæðum og aðgengi að nothæfu vatni getur fyrr en varir orðið meira átakaefni en olía á okkar dögum. Óteljandi manngerð efnasambönd safnast upp í fæðukeðjunni og ógna vistkerfum og heilsu okkar. Minnkandi framleiðsla kynfruma er aðeins ein af mörgum afleiðingum slíkrar eitrunar á líkamsstarfsemi manna. Efnahagskerfi sem ber dauðann í sér Fólksfjölgun fylgir óhjákvæmilega aukið álag. En það er ekki hún ein og sér sem veldur ófarnaðinum heldur stöðugt aukin framleiðsla og neysla á heimsvísu. Afurðunum er misjafnt skipt milli einstaklinga, þjóða og heimshluta en það dregur ekki úr umhverfisspjöllum nema síður sé. Vesturlönd gefa tóninn í þessari helför sem knúin er áfram af efnahagskerfi sem ber dauðann í sér. Forsenda þess er vöxtur, síaukin framleiðsla, nýjar þarfir sem búnar eru til svo að gangverkið hrynji ekki. Það er þó skammgóður vermir. Efnahagsstarfsemin hefur engin viðmið um það hver séu þolmörk umhverfisins og ráð og völd eru í höndum firrtra fjármagnseigenda, sem varðar um það eitt að fá arð af hlutafé og innistæðum. Stjórnmálamenn hafa æ minni völd og áhrif á leiksviði þar sem hnattvætt fjármagn ræður för og fjölþjóðafyrirtækin setja leikreglurnar. Breytum forsendum í tæka tíð Hvað er til ráða? Fyrst af öllu að hugsa upp
á nýtt, byrja á að horfa framan í augljósar
afleiðingar af breytni manna, okkar sjálfra og þeirra
sem löndum ráða, fyrir afkomendurna og heimilið jörð.
Breytum forsendum framvindunnar í tæka tíð. Gerum
kröfu um hagstjórn sem byggist á heilbrigðri hugsun
og sjálfbærri þróun Hjörleifur Guttormsson |