Hjörleifur Guttormsson 12. ágúst 2004

Norðurlandakratar og ESB

Norrænir krataforingjar funduðu hérlendis um síðustu helgi. Frá fundinum þótti það helst fréttnæmt að þeir samþykktu í sinn hóp að Norðurlöndin öll skuli í framtíðinni vera hluti af Evrópusambandinu. Össur Skarphéðinsson baðaði sig í hópi þessara kollega sinna og bætti um betur með því að hvetja til þess að Ísland sækti um aðild að ESB á undan Norðmönnum því að ella væri borin von að við næðum skárri samningum en þeir um fiskveiðimálefni.

Langt frá því einsdæmi

Morgunblaðið fjallar um þessa samþykkt leiðtoga norrænnu krataforingjanna í ritstjórnargrein 9. ágúst sl. og segir réttilega að hér sé á ferðinni óviðeigandi afskiptasemi af íslenskum innanríkismálum. Blaðið getur þess hins vegar ekki að hér er langt frá því að vera eitthvert einsdæmi á ferðinni í samskiptum norrænna stjórnmálamanna. Frá því umræða um aðild Norðurlanda annarra en Danmerkur að ESB hófst fyrir alvöru 1988 hafa norrænir stjórnmálamenn sem keppt hafa að aðild ríkja sinna að sambandinu rekið áróður fyrir því að Norðurlönd yrðu þar samferða. Undirritaður var fulltrúi í Norðurlandaráði á árunum 1988-1995, og átti m. a. sæti í forsætisnefnd þess, og minnist margra atburða af þessu tagi af þeim vettvangi. Eitt fyrsta andsvar mitt á þingum ráðsins var við málflutning Paul Schlüters, þá formanns danskra íhaldsmanna, sem í ræðu á þinginu lagði að Íslendingum að endurskoða afstöðu sína til aðildar að ESB. Svipuð ummæli á þessum árum frá norrænum krataforingjum töldust ekki til tíðinda. Flokkahópur sósíaldemókrata í Norðurlandaráði var og er etv. enn sá eini sem talar einni röddu um ágæti ESB-aðildar. Jafnframt hafa kratar markvisst reynt að beita áhrifum sínum í samstarfi verkalýðshreyfinga á Norðurlöndum í þessa sömu átt. Dæmin um það blasa einnig við hérlendis þar sem forysta og skriffinnar ASÍ láta svo sem þeir tali fyrir munn launafólks hérlendis þegar áhugi þeirra á ESB-aðild er annars vegar.

EES þaulhugsaður millileikur

EES-módelið var af hálfu norrænna krata, ekki síst Ingvars Carlsonar hins sænska og Gro Harlem Brundtland í Noregi, beinlínis hugsað sem millileikur til að yfirvinna andstöðu heima fyrir gegn fullri aðild að sambandinu. Nefndir forystumenn höfðu náið samband við flokksbróður sinn Jacque Delors hinn franska áður en hann veturinn 1988-89 spilaði út hugmyndinni um ESB og EFTA sem tvær stoðir sem bera skyldu uppi Evrópska efnahagssvæðið. Íslenska krataforystan á þessum tíma, Jón Hannibalsson og Kjartan Jóhannsson, létu sitt ekki eftir liggja og höfðu þá sem fyrr fulla aðild Íslands að ESB að markmiði. Sama átti við um Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur síðar borgarstjóra sem gekk gegn yfirlýstri stefnu Kvennalistans í þessu máli og bar listinn raunar ekki sitt barr sitt eftir það.

Norðmenn stóðust atlöguna

Herbragð krataforingjanna norrænu heppnaðist aðeins að hluta til. EES-samningurinn varð brátt aukaatriði en þess í stað var haustið 1994 keyrt á fulla ESB-aðild Finnlands, Svíþjóðar og Noregs og búið til dómínó-ferli í þjóðaratkvæðagreiðslu í löndunum sem hafði það sérstaklega að markmiði að brjóta niður andstöðu Norðmanna við aðild. Finnar voru látnir ríða á vaðið, þá Svíar og loks Norðmenn. Samt fór það svo að Norðmenn felldu öðru sinni á röskum tveimur áratugum aðild að ESB. Hér var um rækilega hannaða atburðarás að ræða sem gekk þvert gegn eðlilegum lýðræðislegum leikreglum. Króa átti norsku andstöðuna af þannig að fylgismönnum hennar fækkaði eftir að Finnar og Svíar hefðu samþykkt aðild. Hræðsluáróðurinn um meinta einangrun Norðmanna utan ESB var rekinn á fullu og hið sama átti sér stað hérlendis þegar EES-aðildin var annars vegar.

Þessa sögu þyrfti að rifja rækilega upp, því að enn eru sömu öfl að verki þegar Noregur og Ísland eiga í hlut, eins og nýleg dæmi sanna.


Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim