Hjörleifur Guttormsson 14. júlí 2004

Þingvellir á heimsminjaskrá

Sá ánægjulegi atburður gerðist 2. júlí 2004 að heimsminjanefnd UNESCO, Menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, samþykkti samhljóða að taka Þjóðgarðinn á Þingvöllum inn á heimsminjaskrá fyrstan íslenskra svæða. Ástæða er til þess fyrir Íslendinga að gleðjast yfir þessum atburði og þakka þeim mörgu sem stuðlað hafa að farsælli niðurstöðu á umsókn okkar sem lögð var fram fyrir rúmu ári. Viðurkenningin felur í senn í sér skuldbindingar af Íslands hálfu um verndun Þingvalla í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru til staða á heimsminjaskránni og undirbúningsferlið getur nýst til að undirbúa umsókn um fleiri svæði hérlendis inn á skrána. Nefndur hefur verið í því samhengi væntanlegur Vatnajökulsþjóðgarður en einnig ættu þar heima Þjórsárver óskert af virkjunarframkvæmdum og fleiri svæði.

Langt ferli liggur að baki því að koma Þingvöllum í þessa höfn þar sem nær 800 heimsminjar voru fyrir. Um 1970 tókst að snúa vörn í sókn í Þjóðgarðinum á Þingvöllum. Áratugina á undan hafði hallað hratt undan fæti, sumarbústaðalóðum verið úthlutað af Þingvallanefnd til einkaaðila í hjarta þjóðgarðsins og byrjað að leggja svæði í Gjábakkalandi undir sumarhúsabyggð. Framandi trjátegundum hafði verið plantað á allstór svæði, m. a. í og við þjóðminjar í þinghelginni. Sjálf Þingvallanefnd hreiðraði um sig í hluta Þingvallabæjar og fjöldi hjólhýsa fólks af höfuðborgarsvæðinu kögraði vellina sem dulbúin sumarsetur. Stjórnun svæðisins hafði þá lengi einkennst af höfðingjadekri en lítið sem ekkert verið hirt um náttúru- og minjavernd. Gagnsóknin hófst með opinskárri umræðu og í kjölfar hennar var knúin fram stefnubreytingu í málefnum þessa vanrækta helgistaðar.

Forystu fyrir endurreisn þjóðgarðsins á 8. áratugnum hafði Eysteinn Jónsson, formaður Þingvallanefndar um skeið og um leið formaður Náttúruverndarráðs. Árið 1972 fór fram skipulagssamkeppni um framtíð Þingvalla og rannsóknir hófust á lífríki Þingvallavatns undir forystu Péturs M. Jónassonar. Undirritaður fylgdist náið með málefnum Þingvalla á þessum árum og átti síðan sæti í Þingvallanefnd samfleytt í 12 ár frá 1980-1992. Árið 1981 var hafist handa um vinnu að fyrsta skipulagi þjóðgarðsins sem leidd var til lykta með formlegri stefnumörkun Þingvallanefndar vorið 1988. Sumarbústaðamál, trjárækt, aðstaða fyrir hestamenn og fleiri umdeild atriði voru tekin föstum tökum og ákveðið að koma upp fræðslumiðstöð við Hakið vestan Almannagjár. Síðan hefur þessari stefnumörkun verið fylgt í meginatriðum og nú nýverið hefur Þingvallanefnd sett fram nýja stefnumörkun til ársins 2024 og “ ... eru áherslur að mörgu leyti svipaðar þeim sem fram komu í fyrri stefnu frá 1988” segir þar í upphafi. Án umræddrar vinnu í aldarfjórðung í þágu náttúru- og minjaverndar á Þingvöllum hefði verið tómt mál að tala um að setja þjóðgarðinn á heimsminjaskrá.

Þingvellir hafa hlotið verðugan sess á heimsminjaskrá. Vinna að verndun og bættri stjórnun staðarins heldur áfram þannig að þessi friðlýsti helgistaður allra Íslendingar rísi undir nafni og nýfenginni viðurkenningu.


Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim