Hjörleifur Guttormsson 15. október 2004

Stjórnkerfisbreytingar og lýðræði

Brýnt er að ná fram breytingum á íslensku stjórnkerfi á mörgum sviðum. Þar er skýr aðgreining á milli helstu valdsviða, framkvæmda-, löggjafar- og dómsvalds efst á blaði. Framkvæmdavaldið hefur lengi verið í hlutverki stóra bróður hérlendis og hefur að undanförnu verið að sækja í sig veðrið, bæði formlega og óformlega. Þessu fylgir spilling og valdníðsla á kostnað óhlutdrægra ákvarðana og lýðræðis. Eftirtaldar breytingar væru tvímælalaust til bóta:

  1. Ráðherrar í ríkisstjórn valdir úr hópi kjörinna þingmanna víki sæti á Alþingi og hafi þar ekki atkvæðisrétt á meðan þeir gegna ráðherrastarfi. Slíkt myndi ótvírætt styrkja löggjafarvald þingsins og skerpa mörkin á milli valdsviða.
  2. Ísland verði hið fyrsta gert að einu kjördæmi þá kosið er til Alþingis. Með því móti yrði í senn jafnaður atkvæðisréttur og hlutverk Alþingis sem löggjafar- og fjárveitingavalds yrði ólíkt skýrara en nú er. Unnt væri um leið að jafna stöðu kynja á framboðslistum flokkanna.
  3. Dómskerfið verði treyst þannig að val á dómurum verði gegnsætt og hafið yfir hlutdrægni og íhlutun framkvæmdavaldsins.

Breytingar sem að þessu lúta verði festar í stjórnarskrá lýðveldisins og jafnframt komið á fót stjórnlagadómstóli til að skera úr um vafaatriði er tengjast ákvæðum stjórnarskrárinnar.

Æskilegt væri að samhliða ofangreindum breytingum verði farið yfir stöðu annarrar stjórnsýslu og látið reyna á vilja til að koma á fylkjaskipan með beinum kosningum til fylkisstjórna. Mætti þar byggja á gömlu landsfjórðungunum með höfuðborgarsvæðið þó sem fimmta fylkið. Gæta þarf þess að landfræðileg stækkun sveitarfélaga sem víða er til umræðu verði ekki um of á kostnað lýðræðislegra tengsla almennings við kjörna fulltrúa.


Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim