Hjörleifur Guttormsson 15. október 2004

Sveitarstjórnir og kennaraverkfall

Ömurlegt er að fylgjast með feluleik kjörinna sveitarstjórna í yfirstandandi kennaraverkfalli. Samningsumboð sitt gagnvart stéttarfélögum hafa sveitarfélögin falið sérstakri launanefnd sem aftur skýlir sér á bak við hóp embættismanna. Formaður nefndarinnar sést hvergi en talsmaður hennar og aðalsamningamaður er forstöðumaður kjaraþróunardeildar Reykjavíkurborgar. Það væri fróðlegt að vita hversu margir þekkja þá sem sæti eiga í þessu batteríi sem “... tilheyrir starfsvettvangi kjarasviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga” að því er segir á heimasíðu. Þar segir m. a. um markmið og stefnu launanefndar frá árinu 2000: “Að launastefna LN [Launanefndar] laði til sveitarfélaga og fyrirtækja þeirra hæfa starfsmenn og stjórnendur” og í stefnunni felist “Að gera kjarasamninga vegna grunnskólans í samræmi við samninga annarra háskólamanna.” Skyldi afstaðan í yfirstandandi kjaradeilu við grunnskólakennara endurspegla þessar áherslur?

Með því að taka við málefnum grunnskólans á sínum tíma voru sveitarfélög í landinu að axla mikla ábyrgð. Undirritaður hafði á sínum tíma miklar efasemdir um að þau væru í stakk búin að rísa undir henni og að þessi skipan tryggði börnum jafnræði til náms óháð búsetu. Hagræðingarsjónarmið eru þessi árin að ganga af einum skólanum af öðrum í dreifbýli dauðum og skiptir þá engu þótt þar hafi sannarlega verið skilað góðu starfi.

Þessa dagana eru sveitarstjórnarmenn í landinu að gera sig að viðundri með því að fela sig á bak við grímu ósýnilegrar nefndar og daufdumbra embættismanna á meðan skólunum er að blæða út, svo ekki sé minnst á blessuð börnin.


Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim