Hjörleifur Guttormsson 15. nóvember 2004

Fallujah – ódæðisverk í nafni lýðræðis

Óháðir aðilar hafa áætlað að hernaður Bandaríkjanna og hinna staðföstu í Írak hafi kostað 100 þúsund þarlenda lífið, tala sem svarar til íbúafjölda Reykjavíkur. Það var áður en árásin hófst á Fallujah daginn eftir að Bush hélt sigurræðu sína. Nú hefur þessi 300 þúsund manna borg fengið sína lexíu í lýðræðisútflutningi Bandaríkjastjórnar og fylgifiska þeirra, þar á meðal íslenskra valdhafa. Í 10 daga hefur flestum gerðum af sprengjum verið látið rigna yfir þessa borg við Efrat og grandvarar vestrænar fréttstofur eins og BBC eiga tæpast orð til að lýsa hryllingnum sem við blasir. Þó hefur innrásarliðið reynt að loka á fréttaflutning með ritskoðun. Nafn Fallujah er líklegt til að verða skrifað á spjöld sögunnar við hliðina á Guernica og viðlíka ódæðum frá öldinni sem leið.

Forsetakosningar réðu atburðarásinni

Undirbúningur forsetakosninga í Bandaríkjunum réði því að Bush ákvað þegar í nóvember 2003 að fresta kosningum í Írak af ótta við að úrslit þeirra yrðu óhagstæð fyrir stefnu hans og spilltu möguleikum hans á endurkjöri 2. nóvember. Þess í stað var í skyndingu síðastliðið vor sett á fót leppstjórn Allawis, sú hin sama og látin var gefa “leyfi” fyrir árásinni í Fallujah strax og sigur Bush var í höfn. Eftir að hún hófst var byrjað á að hertaka aðalspítala borgarinnar svo að starfsfólk þar gæti ekki veitt upplýsingar um særða og fallna. Viðbára Bremers landstjóra gegn kosningum í fyrravetur var að of mikið óöryggi ríkti í landinu. Síðan hefur ástandið stórum versnað og árásin á Fallujah virðist ætla að bæta gráu ofan á svart og leiða til enn víðtækari andstöðu gegn hernámsliðinu.

Varnaðarorð Helmuts Schmidt

Nýkomin er út bók eftir fyrrum kanslara Þýskalands, jafnaðarmanninn Helmut Schmidt og ber hún heitið Die Mächte der Zukunft (Stórveldi framtíðarinnar). Hún var rituð síðastliðið sumar áður en ástandið versnaði til muna í Írak. Í bókinni dregur þessi aldraði stjórnmálamaður upp dökkar framtíðarhorfur, ekki síst vegna framferðis Bandaríkjastjórnar á alþjóðavettvangi. Takist fyrrum bandamönnum Bandaríkjanna í Evrópu ekki að halda aftur af haukunum í Washington megi búast við langvarandi og vaxandi deilum milli Íslam og Vesturlanda sem bitnað geti á miljörðum manna. Hann óttast að ef fram heldur sem horfir muni óöld magnast og færast til borga á Vesturlöndum með stórfelldum átökum milli ólíkra menningarheima. Einnig sér hann fyrir sér að hópar og ríki í þriðja heiminu geti komist yfir kjarnorkuvopn og hótað að beita þeim í átökum.

Siðferðilega gjaldþrota stefna

Þótt enginn efist um hernaðarmátt Bandaríkjanna og getu til að sigra í hernaði snýr dæmið öðru vísi metið á siðferðilegan mælikvarða. Sagan hefur sýnt að hernaðarmáttur nær skammt ef barist er fyrir röngum málstað. Það sýndi Vietnam og fall nýlenduvelda á öldinni sem leið. Öll yfirlýst markmið innrásarliðsins í Írak standa nú á haus. Ofan á ólöglegt stríð sem réttlætt var með lygum bætast fjöldamorð á saklausum borgurum og kúgun í nafni lýðræðis sem snúist hefur í andstöðu sína. Satan er ekki í Fallujah eins og bandarískur liðþjálfi sagði við BBC á dögunum. Heimilisfang hans er Washington DC.


Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim